12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2825 í B-deild Alþingistíðinda. (2288)

228. mál, ríkisstyrkir Norðmanna til sjávarútvegs

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég held að ekki þjóni neinum tilgangi að við deilum í þessu máli, en ég held að komið hafi glögglega fram að hér er við að etja málefni sem alls ekki er hægt að dæma eins einfaldlega og mönnum virðist í fyrstu að hægt sé að gera. Ég held hins vegar, eins og kom fram í ræðu hv. fyrirspyrjanda nú áðan, að við eigum tvímælalaust að nota okkur alla þá möguleika sem við höfum til að koma í veg fyrir að slíkir hlutir gerist hjá okkar samstarfsþjóðum, hvort heldur það eru Norðmenn eða aðrir. Þá langar mig að vekja athygli á því sem við höfum þurft að glíma við í sambandi við tolla á innfluttum saltfiski til Portúgals á síðastliðnu ári og hvernig var orðið við þeim mótmælum og þeim tilmælum sem frá íslensku ríkisstjórninni komu í þeim efnum.

Ég held að við séum allir sammála um að hvar sem við getum vekjum við athygli á þessu, og að sjálfsögðu láta íslenskir ráðh. og þm. til sín heyra í þessu máli þegar kemur á Norðurlandaráðsþing og láta í ljós þau sjónarmið sem við teljum eðlilegt að við höfum í þessum efnum.

Mig langar til að leiðrétta því að hv. 5. þm. Austurl. hafði ekki rétt eftir mér. Ég orðaði það svo vegna 2. tölul. fsp. hv. 6. landsk. þm.: enda þótt það sé ef til vill of til sterki til orða tekið. Þetta voru mín orð og við þau stend ég. Þm. vildi hafa eftir mér ákveðnari fullyrðingu í þessum efnum. Ég veit að þegar hann heyrir mig endurtaka þetta áttar sig á því að það sem ég sagði var nákvæmlega það sama og ég endurtók nú.

Viðskiptajöfnuður Íslands og Noregs nú - við gætum þá tekið Svíþjóð, Finnland og Danmörku einnig — er mjög óhagstæður. Það er eitt af þeim málefnum sem ég hef fengist við í minni tíð sem viðskrh. að leita leiða til að vinna bug á þessu og hef ég fengið mjög góða aðstoð minna samstarfsráðherra á Norðurlöndum, hvort heldur eru viðskrh. eða samstarfsráðherrar Norðurlanda, og á vegum íslensku ríkisstjórnarinnar og Norðurlandaráðs er unnið að sérstöku átaki í þessum efnum nú og hefur verið um eins árs skeið með aðstoð sænsk forustumanns í útflutningi. Ég vonast til þess að það gefi góðan árangur og að sú aðstoð sem þar er og hefur verið muni verða slík að útflytjendur okkar geti nýtt hana, ekki bara á meðan hún stendur heldur og um ókomna framtíð.

Ég ætla ekki að taka þátt með öðrum hætti í þeim umr. sem hér hafa farið fram. Ég met það svo að við stöndum saman þar sem við mætum og munum gera hver á sínum stað það sem við getum til að koma í veg fyrir að að okkur verði sótt. Ég hef ekki þá trú að ekki hafi verið í viðskrn., áður en ég kom þar, unnið að þessum málum eins skörulega og mögulegt hefur verið. Ég álít að rösklega hafi verið að verki staðið þar.