12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2825 í B-deild Alþingistíðinda. (2289)

228. mál, ríkisstyrkir Norðmanna til sjávarútvegs

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil ekki gera lítið úr því að menn beini spjótum sínum að Norðmönnum í þessu sambandi. Þó að ég leyfi mér að efast um að þetta mál verði leyst með eins hávaðamiklum umr. á Norðurlandaráðsþingi og mögulegt er, ég leyfi mér að efast um það, er að sjálfsögðu nauðsynlegt að halda mjög fast á því máli þar. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að stuðningur Kanadamanna er ekki síður alvarlegur, m.a. vegna þess að þeir selja á miklu lægra verði en við á okkar aðalsamkeppnismarkaði í Bandaríkjunum. Ég vil upplýsa það hér að eftir að núverandi ríkisstjórn tók við í Kanada setti ég mig í samband við þann sjútvrh. sem þar er tekinn við og heitir Fraser. Það endaði með því að hann hefur boðið mér að koma þangað til viðræðna um þessi mál og ýmis önnur og ég hef að sjálfsögðu ákveðið að þiggja það og mun fara síðar á þessum vetri.

Til þess að gera sér betur grein fyrir alvöru málsins, út að því sem hv. þm. Stefán Benediktsson sagði hér áðan, má segja að Norðmenn séu að halda uppi byggð í Norður-Noregi með mikilli aðstoð frá suðurhluta Noregs. Danir eru að halda uppi byggð í Færeyjum með mikilli aðstoð frá Danmörku. Kanadamenn eru að halda uppi byggð á Nova Scotia og Nýfundnalandi, sem missti sjálfstæði sitt, með miklum stuðningi frá syðri hluta Kanada. Það getum við Íslendingar ekki gert. Við búum við alveg sömu skilyrði og fólk í Norður-Noregi, á Nýfundnalandi, í Færeyjum og annars staðar, en við byggjum afkomu okkar á okkar eigin getu og okkar eigin afli. Það alvarlega, sem er að gerast í þessum málum, er að fólk sem býr við svipuð skilyrði og við heldur uppi sínum lífsskilyrðum með stuðningi annarra og við eigum að keppa við þetta fólk. Þetta er hin alvarlega mynd þessa máls.