23.10.1984
Sameinað þing: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

68. mál, lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég vildi biðja um það að hæstv. menntmrh. væri viðstödd, þegar ég bæri fram þessa fsp., ef hún er í húsinu. (Forseti: Það skal tekið fram að hæstv. menntmrh. var kunnugt að þetta mál yrði tekið nú fyrir og hún hlýtur að vera alveg á næstu grösum.) Ég tel rétt að hinkra við þangað til hún kemur í salinn.

Herra forseti. Á fulltrúaþingi Kennarasambands Íslands á s.l. vori var gerð eftirfarandi samþykki, sem ég vil lesa með leyfi forseta:

„3. þing Kennarasambands Íslands samþykkir að fela stjórn sambandsins að hefja nú þegar viðræður við menntmrn. (menntmrh.) um undirbúning frv. til l. er verði lagt fyrir næsta reglulegt Alþingi, um lögverndun starfsheitis grunnskólakennara.“

Jafnframt er lögverndun kennarastarfsins eitt af þeim fjórum meginmarkmiðum sem tilgreind eru fyrir hið nýstofnaða Bandalag kennarafélaga.

Stöðugt fleiri hópar óska nú lögverndunar á starfsheiti sínu og má minna á slík lög um ljósmæður, bókasafnsfræðinga, sjúkraliða og sjóntækjafræðinga sem samþykkt voru á síðasta þingi. Þessi viðleitni er til þess að tryggja það að einungis þeir sem hafa tilskilda menntun sinni ákveðnum störfum og til að vernda rétt þeirra sem þannig hafa menntast.

Síauknar menntunarkröfur eru nú gerðar til kennara, sbr. lög nr. 51 frá 1978, um embættisgengi kennara og skólastjóra og inntak kennslustarfsins hefur líka breyst í samræmi við breytta þjóðfélagshætti. Auknar kennslukröfur eru gerðar og ætlast er til þess að kennarar sinni í vaxandi mæli ýmsum þeim þáttum sem ekki falla beint undir hefðbundnar námsgreinar og fræðslu. Má sem dæmi nefna umferðarfræðslu, starfsfræðslu, ávana- og fíkniefnafræðslu, kynfræðslu o.fl. Vegna skorts á námsefni þurfa kennarar oft að eyða verulegum tíma til að útbúa námsefni. Þetta er þeim mun erfiðara þar sem aðgangur að bókasöfnum er oft takmarkaður og bókakostur rýr. Stöðugt fjölgar þeim einstaklingum sem eiga við tilfinningaleg vandamál að stríða og varðar miklu að vel sé á þeim málum tekið. Auk þess sem þetta eykur álag á kennarann og aðra nemendur þarf kennarinn að hafa stöðugt vakandi auga fyrir velferð og líðan hvers einstaklings og hann hefur yfirleitt aðeins sjálfan sig á að treysta og situr oftast einn uppi með þau vandamál sem upp koma.

Sífellt mein kröfur eru gerðar til skólanna um aukna ábyrgð á uppeldi barna vegna mikillar vinnu beggja foreldra og fjarvistar frá heimili. Þessu uppeldishlutverki, auk mikils kennsluálags, er kennurum ætlað að sinna án þess að til þess gefist aukinn tími eða meiri mannafli en áður. Það vinnuálag og sú ábyrgð sem lögð er á kennara í starfi þeirra eru engan veginn viðurkennd í því starfsmati sem gilt hefur um kennarastarfið. Því miður hefur forgangsröðun verið sú að þeir sem bera ábyrgð á peningum og tækjum fá sína ábyrgð metna til hærri launa en þeir sem bera ábyrgð á umönnun lífs, t.d. þeir sem bera ábyrgð á uppeldi og fræðslu barna og unglinga. Sem dæmi má nefna að í stigsetningu starfsheita skv. starfslýsingu fengu útsölustjórar Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins 160 stig vegna ábyrgðar, en grunnskólakennarar svo og kennarar á menntaskóla- og tækniskólastigi fengu 115 stig vegna ábyrgðar. Á öðrum skólastigum var ábyrgðarmatið enn lægra. Spyrji nú hver sjálfan sig um mikilvægi þess fyrir þjóðarbúið og framtíð þess hvort vel sé gætt vínanda í flösku og andvirði hans eða menntunar og uppeldis þeirra sem eiga að erfa landið. Svarið vefst ekki fyrir Kvennalistakonum.

Þetta vanmat á störfum kennara hefur skilað sér í lágum launum, svo lágum að mikill flótti er úr stéttinni. Hefur verið haft að gamanyrði að kennsla geti ekki verið annað en tómstunda- og hugsjónastarf þeirra sem hafa góða fyrirvinnu, enda er reyndin sú að í grunnskólum eru um 85–90% kennara konur.

Hæstv. félmrh. vitnaði í niðurstöður af norrænu jafnréttisþingi í gær þar sem viðurkennt var að um leið og konur yrðu fjölmennar í einhverri stétt hröpuðu laun hennar hlutfallslega miðað við aðrar stéttir. Gildir þá einu hversu lífsnauðsynleg störf sú stétt vinnur fyrir velferð þjóðfélagsins.

Kennsla er vandasamt viðfangsefni. Hún er starf sem fæst við lifandi fólk en ekki dauða hluti. Í því starfi eiga sér stað náin og ábyrgðarmikil samskipti við einstaklinga í mótun. Árangur þessara vandasömu samskipta getur orðið afdrifaríkur fyrir framtíð einstaklinganna og um leið þjóðarinnar allrar. Það veltur því á miklu að þau séu góð. Hefja þarf kennarastarfið til þeirrar virðingar sem því ber og viðurkenna í verki þá miklu ábyrgð sem í því er fólgin. Einn þáttur í þeirri viðleitni er að starf grunnskólakennara verði lögverndað. Því vil ég spyrja hæstv. menntmrh.:

Er hafinn undirbúningur að samningu frv. til l. um lögverndun starfsheitis grunnskólakennara á vegum menntmrn.?