12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2827 í B-deild Alþingistíðinda. (2292)

239. mál, endursala íbúða í verkamannabústöðum

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Kjartani Jóhannssyni að flytja hér fsp. til félmrh. um endursöluíbúðir í verkamannabústöðum. Fsp. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hve margar íbúðir komu til endursölu hjá stjórn verkamannabústaða á árunum 1983 og 1984?

Hvert var heildarkaupverð þeirra annars vegar og endursöluverð hins vegar?

Hvernig er mismunurinn á kaupverði og endursöluverði skýrður og hvernig er honum ráðstafað?“

Í 64. gr. laga um Húsnæðisstofnun er kveðið á um að hagnaður, sem verða kann á sölu eldri íbúða í verkamannabústöðum, skuli renna til Byggingarsjóðs verkamanna. Það er því fróðlegt að fá upplýst hvernig sá hagnaður er fundinn út og hver sú upphæð er sem runnið hefur í Byggingarsjóð verkamanna vegna þessa ákvæðis. Vænti ég að svör við þeim spurningum, sem ég hef hér lagt fram fyrir hæstv. ráðh., varpi nokkru ljósi á það. Á því hlýtur líka að þurfa skýringu ef um er að ræða mikinn mismun á matsverði til kaupenda og endursöluverði til seljenda sömu íbúðar. Vænti ég þess að svör ráðh. leiði í ljós hvort svo sé.