12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2828 í B-deild Alþingistíðinda. (2293)

239. mál, endursala íbúða í verkamannabústöðum

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Sem svar við þessari fsp. á þskj. 339 er ég hér með upplýsingar frá Húsnæðisstofnun ríkisins.

Við 1. lið fsp., hve margar íbúðir komu til endursölu hjá stjórn verkamannabústaða á árunum 1983 og 1984, er svarið svohljóðandi: Endursöluíbúðir á árinu 1983 voru 156 og á árinu 1984 167.

Þá er spurt hvert sé heildarkaupverð þeirra annars vegar og endursöluverð hins vegar og hvernig mismunur á kaupverði og endursöluverði sé skýrður og hvernig honum sé ráðstafað. Það hefur komið í ljós að hjá stofnuninni er erfitt að fá nákvæm svör við þessari fsp. Heildarinnkaupsverð endursöluíbúða hefur ekki verið tekið saman, segir stofnunin. Byggingarsjóður verkamanna lánar 80% af endursöluverði og fær mismunurinn á greiðslu til seljenda og endursöluverði inn á næstu 42 árum verðtryggt með 1% vöxtum. Lán til endursöluíbúða á árinu 1983 voru 75 millj. 975 þús. og 1984 124.7 millj. kr.

Ég óskaði eftir því við stofnunina að reynt yrði að fá nákvæmari upplýsingar um heildarendursöluverð þessara íbúða á þessum tveim árum miðað við þá tölu sem gefin er upp og hvert hefði verið innkaupsverð þeirra íbúða. Það hefur reynst erfitt að fá nákvæmt svar við þessu. Hins vegar hef ég fengið frá stofnuninni upplýsingar um árið 1984 vegna verkamannabústaða í Reykjavík. Endursöluverð íbúða á Reykjavíkursvæðinu það ár var 95.9 millj. og innkaupsverð sömu íbúða 92.8 millj. Mismunur var því nærri 3.1 millj.

Það er ljóst að skv. lögum skal mismunur á innkaupsverði og endursöluverði renna til Byggingarsjóðs verkamanna og þannig hefur þetta verið framkvæmt allar götur frá því að lögin tóku gildi. Til frekari upplýsinga hefur stofnunin gefið upp að greiðslur til seljenda á árinu 1984 voru 46.5 millj. kr. og Byggingarsjóður verkamanna gerði upp öll áhvílandi lán af 84 íbúðum í Reykjavík en höfð voru nafnaskipti á lánum 10 íbúða á árinu.

Eins og fram kemur í svari Húsnæðisstofnunar virðist færsluform á framkvæmd endursölu verkamannabústaða ekki vera þannig að auðvelt sé að fá nákvæmar upplýsingar um stöðu þessara mála á fljótvirkan hátt. Ég hef því í tilefni þessarar fsp. og þeirra erfiðleika sem það hefur verið bundið að fá nákvæm svör við þeim óskað eftir því við Húsnæðismálastofnun að á þessu verði ráðin bót nú þegar.

Í þessu sambandi vil ég geta þess að nú er að hefjast úttekt á Húsnæðisstofnun ríkisins með það að markmiði að koma á betra skipulagi sem leiðir til meiri hagkvæmni í rekstri og betri upplýsinga. Undir þessa úttekt fellur að sjálfsögðu samskiptaform stofnunarinnar við veðdeild Landsbanka Íslands sem annast afgreiðslu á nærri öllum lánum sem frá stofnuninni eru veitt. Ég vænti þess að þetta svar fullnægi að vissu marki því sem um er spurt en ég mun í framhaldi að því sem ég sagði hér áðan láta semja skriflegt svar, nánara svar sem taki yfir þessa starfsemi um landið allt, og afhenda hv. þm. um leið og það berst. En þetta svar mitt byggir á upplýsingum sem ég hef getað fengið nú þegar frá stofnuninni.