12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2829 í B-deild Alþingistíðinda. (2294)

239. mál, endursala íbúða í verkamannabústöðum

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans þó að þau séu mjög ófullnægjandi. Ég geri ráð fyrir að það sé ekki við hæstv. ráðh. að sakast í því efni enda hefur hann haft um það góð orð að hann muni beita sér fyrir því að hægt verði að fá gleggri upplýsingar um þetta mál. Það er auðvitað nánast furðulegt að ekki skuli vera hægt að gefa Alþingi upplýsingar um endursöluíbúðir, kaupverð þeirra og söluverð, en upplýst er hér að þær séu 156 á árinu 1983 og 167 1984, að það skuli ekki vera hægt að gefa svo einfaldar upplýsingar sem hér er beðið um.

En hæstv. ráðh. upplýsir að í Reykjavík hafi árið 1984, og það er eina svarið sem ég raunverulega fæ við minni fsp., endursöluverð verið rúmar 95 millj. og innkaupsverð 92 og mismunurinn því 3 millj. Ég fæ ekkert svar um árið 1983 og ekki hvernig þetta er yfir landið í heild. En ég tel varðandi þær tölur sem hér koma fram um mismun á kaupverði og endursöluverði að í raun sé um mun meiri mismun að ræða en hér er gefið upp. Spurningin er: Er sú tala sem ráðh. gefur hér upp innlausnarverð á íbúðinni eða kaupverð íbúðar í verkamannabústöðum miðað við matsverð, eða matsverð að frádreginni fyrningu, sem er það verð sem seljandi íbúðar fær í raun greitt fyrir hana? Til þess að þær tölur séu sambærilegar sem hæstv. ráðh. gefur hér upp þarf að miða við greiðsluverð til seljanda eftir fyrningu og síðan það söluverð sem nýr kaupandi fær hana á.

Fyrningin, sem dregin er frá matsverði, getur verið töluverð fjárhæð. Sem dæmi má taka t.d. að fyrir þriggja herbergja íbúð, sem metin er á 1 millj., fær seljandi eftir 10 ára eignarhaldstíma ekki nema 900 þús. Það er m.ö.o. frádráttur þarna upp á rúm 100 þús. Grunur minn er að í þessum tölum sé eingöngu miðað við matsverð og því tel ég að mismunur á sölu- og kaupverði sé meiri en hér er gefinn upp. Hinn raunverulegi munur er að mínu mati mun meiri. Og þá er ég að tala um þann mun sem er á greiðsluverði til seljanda eftir fyrningu og söluverði til kaupanda. Söluverðið sem seljandi fær í hendur rýrnar mikið með ákvæðum um fyrningu og því er spurning hvort endursöluverðið, það sem kaupandi greiðir fyrir íbúðina, sé ekki hærra en forsendur eru fyrir.

Hugmyndin að baki verkamannabústöðum er að gefa láglaunafólki kost á íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði. Virðist manni að verið sé að fjarlægjast upphaflegan tilgang og markmið með verkamannabústöðum ef ekki er reynt að haldá endursöluverði eins lágu og mögulegt er. Enda er ljóst að því lægra sem verðið er því lægri upphæð þarf hlutfallslega að lána kaupanda og því minna fjármagn sem fer í endurfjármögnun íbúða í verkamannabústöðum.

Ég vil leyfa mér að leggja fyrir hæstv. ráðh. spurningu í tilefni að þeirri reglugerð sem nýlega var sett um verðlagningu á félagslegum íbúðum. Þar er kveðið svo á að verðbætur á stofnframlag seljanda ásamt vöxtum skuli reikna frá upphafi eignarhalds til söludags. Nú er spurningin: Við hvað miðast söludagur og þar með verðbótarútreikningur til seljanda? Er það frá þeim tíma að seljandi rýmir íbúðina sem honum er gert að gera þegar hann hefur tilkynnt stjórn verkamannabústaða um sölu? Eða er það frá matsdegi en nokkur tími getur liðið frá því að íbúð er rýmd þar til mat fer fram? Eða nær verðbótaútreikningur til seljanda til þess tíma að hann fær greiðsluna í hendur og afsal er gefið út? Þetta skiptir allt máli. Það getur munað töluverðu fyrir seljanda hvaða tíma er miðað við og því er um þetta spurt hér.

Einnig væri fróðlegt að fá upplýst hvernig vísitöluviðmiðunin er gagnvart kaupanda endursöluíbúðar. Er í endursöluverði til seljanda bætt við þeim vísitöluhækkunum sem verða frá því að mat á endursöluíbúðum fór fram og þar til kaupsamningur er gerður? Nú virðist mega ráða af reglugerð sem er útgefin í desember s.l. að ekki hafi verið hægt að framkvæma útreikninga á verði endursöluíbúða með stoð í 63. gr. nýrra laga frá 1984 og virðist hafa verið gripið til þess ráðs að fella inn í reglugerðina ákvæði í brbl. sem aldrei hafa verið staðfest af Alþingi.

Að þessu tilefni er líka spurt: Er það skilningur hæstv. ráðh. að hægt sé að byggja framkvæmd 63. gr. húsnæðislöggjafarinnar að hluta til á ákvæði í brbl. sem aldrei hafa verið staðfest á Alþingi? Og þá vaknar spurningin núna: Hversu margir útreikningar hafa verið gerðir frá því að reglugerðin tók gildi sem hafa stoð í 63. gr. húsnæðislaganna, þ.e. í 2. gr. reglugerðarinnar, og hversu margir útreikningar hafa verið gerðir á endursöluíbúðum eftir gildistöku reglugerðarinnar sem byggja á 3. gr. hennar og þar með ákvæðum í brbl. sem aldrei hafa verið staðfest á Alþingi?

Hæstv. ráðh. hlýtur að hafa kynnt sér vel þessar reglugerðir. Um þetta er spurt hér vegna þess að það er ljóst að reglugerðin er að hluta til byggð á 63. gr. núgildandi laga og að hluta til á útreikningum sem giltu frá 1982 til 1. júní 1984 og höfðu stoð í brbl. sem aldrei hafa verið staðfest af Alþingi. Hæstv. ráðh. hefur upplýst hér að hann muni, til frekari fyllingar á þeim svörum sem hann hefur gefið hér, leggja fyrir Alþingi skriflegt svar um þetta efni. Ef hæstv. ráðh. treystir sér ekki til að svara þeim spurningum sem ég hef nú lagt fyrir hann vænti ég að þær upplýsingar sem ég hef beðið um komi þá fram í þeim svörum vegna þess að þetta snertir þær spurningar sem hér hafa verið lagðar fram.