12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2830 í B-deild Alþingistíðinda. (2295)

239. mál, endursala íbúða í verkamannabústöðum

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Vegna ræðu hv. fyrirspyrjanda tel ég rétt að það komi hér fram að þær spurningar sem hv. þm. bar fram nú útheimta ítarlegt svar. Spurningarnar eru þess eðlis að það þarf að gefa við þeim svör sem eru nákvæm í alla staði. Ég mun að sjálfsögðu láta þau af hendi og tel eðlilegra að það sé gert í skriflegu svari svo að menn sé ekki að velkjast í vafa um hvað við er átt í svarinu sjálfu.

Ég er hér með og hef raunar sýnt hv. þm. útreikning á innkaupsverði en um það hvernig matsgerðin er á þessum íbúðum má sjálfsagt margt segja og ekki víst að allir séu sammála um aðferðina. Þetta er ákaflega erfitt mál í framkvæmd, segja þeir starfsmenn stofnunarinnar mér sem við þetta starfa, þ.e. verðlagning félagslegra íbúða sem voru byggðar fyrir 1. júlí 1980. Ég skal ekki fullyrða að fram komi allt sem gerir þann mismun sem er á endursöluverði og innkaupsverði íbúða. Ég geri ráð fyrir því að stofnunin sjái um að hér sé rétt að staðið, og ég hef ekki ástæðu til að vefengja að þeir fjármunir sem komi þarna í mismun renni beint í Byggingarsjóð verkamanna lögum samkvæmt.

En ég get vel tekið undir það að þetta er ákaflega viðkvæmt mál og það er ekki sama hvernig á þessu er haldið. Þetta er einn sá þáttur í lögum um verkamannabústaði sem orðið hefur fyrir mestri gagnrýni víðs vegar að. Þess vegna þarf að skoða þetta mál vel. Það hefur vafist fyrir stofnuninni í sambandi við afgreiðslu á reglugerðum eftir að nýju lögin tóku gildi 1. júlí á s.l. ári að fjalla um þetta mál en það er nauðsynlegt að einn og sami skilningur sé um það hvernig að þessu er staðið. Að vísu var ákvæðum breytt þannig að stjórnir verkamannabústaða víðs vegar um landið hafa núna meira frelsi til að semja um endursöluverð á íbúðum heldur en áður var. Það er ekki nema ef um ósamkomulag er að ræða sem stofnunin sjálf eða sérfræðingar á hennar snærum blanda sér í matið, ef ekki næst samkomulag milli stjórnar verkamannabústaða og þeirra sem afhenda íbúð eða fá íbúð. Ég vil endurtaka það að ég mun að sjálfsögðu reyna að láta hraða nákvæmu svari við því sem vantar upp á þessa fsp. og sjá til þess að hv. fyrirspyrjandi og hv. þm. fái það skriflegt hér inn á Alþingi.