12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2834 í B-deild Alþingistíðinda. (2298)

246. mál, viðskipti með skuldabréf

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka viðskrh. ítarleg svör hans. Ég fagna sérstaklega yfirlýsingum um það að núv. ríkisstj. skuli ætla endanlega að hrinda í framkvæmd 5 ára gömlu verkefni Seðlabankans, þ.e. að ganga frá lögum og reglugerðum um verðbréfaviðskipti. Eins og nokkrir menn vita hér inni var Seðlabankanum falið þetta verkefni fyrir alllöngu síðan en hann hefur ekki skilað því enn.

Þetta er mjög mikilvægt atriði fyrir þá aðila sem lent hafa í vandræðum út af fyrrgreindum atriðum en þannig eru þessar fsp. tilkomnar. Og vandinn liggur kannske einna helst í því að aðilar eiga erfitt með að leita réttar síns. Hafi maður orðið fyrir því að fá kröfu frá nánast ónefndum aðila út af verðtryggðu skuldabréfi og vilji ekki sæta þeirri kröfu þar sem ekki hafi verið farið að lögum, þá verða menn að leita til kæruaðila, þá rannsóknarlögreglu ríkisins eða ríkissaksóknara. Og staðreynd er að mál sem þetta eiga alls engan forgang hjá því ákæruvaldi. Auðvitað er þar ekki við viðkomandi ráðh. að sakast heldur e.t.v. aðra ráðh.

Eins er það að hafi áritunarskyldu ekki verið fullnægt og skuldabréf hugsanlega lent í höndum þriðja aðila, þá er skuldarinn fyrst verulega í vanda, því að þá er ekkert ákæruvald sem tekur við því vandamáli. Sú eina stofnun, sem þar er hugsanlega hægt að kvarta til, er Félag ísl. lögmanna eða lögfræðinga, ég þori nú ekki að fara með alveg hvað það heitir. Þar yrði slíkt mál tekið fyrir sem spurning um siðgæði eða siðleysi í viðskiptum.

Ég verð að játa það að mér fannst svör hæstv. ráðh. hvað 3. lið snertir ekki alveg afdráttarlaus heldur benda til þess að líkur væru á að eitthvað slíkt væri í uppsiglingu sem kalla mætti nafnskráningu skuldakrafna almennt, á öllum lánamarkaði.