12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2839 í B-deild Alþingistíðinda. (2308)

286. mál, kjör og starfsaðstaða framhaldskólakennara

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil taka undir lokaorð hv. 2. þm. Reykn., að það er beggja hagur — og ég vil bæta við að það er allra hagur — að kjör og aðstaða í skólum landsins séu með þeim hætti að það tryggi sem allra best skólastarf og sem allra besta fræðslu fyrir æskufólk landsins. Þetta er sameiginlegt áhugamál menntmrn. og kennarastéttarinnar, skólastjóra, nemenda og foreldra. Að þessu hefur menntmrn. reynt að vinna í vetur af fremsta megni innan þess valdsviðs sem það hefur. Það er því mikill misskilningur að halda að þarna séu kennarar í stríði við menntmrn. Þvert á móti er það svo að þegar uppsagnir kennara bárust hinn 30. nóv. s.l., og í bréfum sem þeim uppsögnum fylgdu til rn. var sérstaklega tekið fram að áhersla væri lögð á að sérkröfum væri sérstaklega sinnt, að sérkjarasamningar gætu hafist sem fyrst, þá var tekin sú ákvörðun í menntmrn. að gera allt sem þar væri unnt að gera í samráði og samstarfi við kennarana sjálfa og hugsanlega gæti haft áhrif á þetta mál.

Frá því í okt. s.l. hefur borið hæst nokkur mál í þessu sambandi. Það er endurmat á störfum kennara. Það hefur bæði komið fram á þingum kennaranna og við ýmis tækifæri að það þætti vera mikill grundvöllur þess að kjarabætur fengjust. Í öðru lagi, með sömu rökum, löggilding á starfsheiti kennara. Í framhaldi af þessu og óskinni um sérkjaraviðræður, vegna þess að kennarar hafa lagt á það áherslu að þeirra stétt hafi dregist aftur úr öðrum stéttum í ríkiskerfinu, voru sérstakar ráðstafanir gerðar af menntmrn. hálfu til að koma til móts við þessar óskir og í okt. s.l. skipaði ég nefnd til að vinna að gerð lagafrv. um lögverndun starfsheitis kennara. Í þeirri nefnd eru Hörður Lárusson deildarstjóri Hanna Kristín Stefánsdóttir kennari, Kristján Bersi Ólafsson skólameistari, Kristín Tryggvadóttir kennari, Sigurður Helgason deildarstjóri og Sólrún Jensdóttir skrifstofustjóri skólamála, sem er formaður nefndarinnar. Þórunn Hafstein lögfræðingur í rn. vinnu með nefndinni. Þrír þessara manna voru tilnefndir af samtökum kennara. Þessi nefnd hefur unnið mikið og vandasamt starf og niðurstaðna hennar er að vænta innan ekki langs tíma í tillöguformi.

Í framhaldi af þessu og einnig óskum framhaldsskólakennara um endurmat á störfum kennara var skipuð nefnd til að gera tillögur um endurmat á störfum þeirrar stéttar. Eftirtaldir menn voru skipaðir í þá nefnd: Gerður Guðmundsdóttir menntaskólakennari, Hrólfur Kjartansson nú deildarstjóri í rn., Inga Jóna Þórðardóttir aðstoðarmaður menntmrh., Sigurður Helgason deildarstjóri, Svanhildur Kaaber grunnskólakennari og Viktor Guðlaugsson skólastjóri. Bandalag kennarafélaga tilnefndi fulltrúa í þessa nefnd. Formaður hennar er Inga Jóna Þórðardóttir.

Báðir formenn nefndanna þekkja störf framhaldsskólakennara af eigin raun. Sú síðarnefnda hefur sjálf staðið í kjarabaráttu framhaldsskólakennara fyrir nokkrum árum.

Til viðbótar þessu vil ég nefna í sambandi við endurmat á störfum kennara að það er mikið áhugamál framhaldsskólakennara að fá könnun á starfsaðstöðu sinni svipaða þeirri sem gerð var fyrir hjúkrunarfræðinga fyrir nokkrum árum og framkvæmd var af Þórólfi Þórlindssyni prófessor. Hann hefur tekið að sér slíkt verk. Það er liður í heildarkönnun á árangri skólastarfs og okkur þykir ekki að niðurstaða í því máli fáist nema þetta atriði sé sérstaklega athugað. Einmitt þetta atriði er fyrsta verk Þórólfs. Ég vil taka fram að í rn. og meðal starfsmanna þess hefur verið innt af hendi mikil og vandasöm vinna í sambandi við þessi mál og þar er mikill áhugi á því að stuðla að lausn þeirra. Við höfum haft af þessu miklar áhyggjur.

Við höfum kosið að reyna að vinna að þessum málum í félagi við kennara, en ekki að standa í stríði við þá, enda ekki til þess ástæða. Oft hefur þó komið fram í umfjöllun manna að látið hefur verið í veðri vaka að þarna séu menn á öndverðum meiði, en svo er ekki.

Strax og uppsagnir kennara voru lagðar fram í menntmrn. var því lýst yfir af hálfu menntmrn. opinberlega og hvað eftir annað síðan að ef nauðsynlegt reyndist yrði gripið til lagaheimildarinnar um framlengingu uppsagnarfrests, en allan tímann var verið að vinna að lausn málanna á þann veg að gera það mögulegt, ef kennurum sýndist svo, að draga sjálfir uppsagnir sínar til baka á svipaðan hátt og reyndar var gert hjá Kennarasambandi Íslands. Þar voru uppsagnir dregnar til baka vegna samstarfs stjórnvalda við þann kennarahóp. En það lá svo fyrir að þegar kröfugerðir fóru að koma fram óskuðu kennarar eftir því sérstaklega að sérkjarasamningar gætu hafist þó að niðurstaða um aðalkjarakröfur lægi ekki fyrir. Það er ekki venjuleg aðferð, en til að vinna tíma, vegna þess hve skammur tími líður á milli kjaradóms og þess dags þegar uppsagnir áttu að taka gildi, beitti menntmrn. sér fyrir því að þessar viðræður gætu farið í gang. Var fundur haldinn 1. febr. um það efni skv. ósk kennaranna. Þá kom í ljós að kennararnir óskuðu ekki eftir því að halda áfram þeim viðræðum fyrr en eftir að kjaradómur hefði verið upp kveðinn. (Gripið fram í: Þetta er ekki rétt.) Þetta er skv. upplýsingum formanns samninganefndar ríkisins. Þetta eru hans upplýsingar og ef þetta er ekki rétt vonast ég til að þessar viðræður fari strax í gang aftur því ég held að það hljóti að vera hægt að flýta fyrir málum og greiða fyrir kjarabótum kennara með því að halda áfram þessum viðræðum sem allra fyrst. Leiðin til þess er opin.

Í gær var hverjum einstökum kennara sem sagt hefur upp störfum sent bréf úr menntmrn. þar sem þessi mál eru skýrð og kennurum tilkynnt að ætlunin sé að nota lagaheimildina til framlengingar á uppsagnarfresti. Þetta bréf hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta, og ég skal lesa hratt til að ganga ekki á tímann:

„Hinn 30. nóv. s.l. barst menntmrn. bréf yðar þar sem þér biðjist lausnar frá kennarastarfi frá og með 1. mars n.k. Sams konar bréf bárust frá 400 félagsmönnum í Hinu íslenska kennarafélagi. Allt frá þessum tíma hefur rn. unnið að því að mál þessi séu leyst á farsælan hátt fyrir skóla, nemendur og kennara. Samninganefnd ríkisins semur fyrir hönd fjmrn. um laun opinberra starfsmanna og getur menntmrn. ekki ráðið sjálfum kjarasamningunum og því síður kjaradómi. Menntmrn. hefur hins vegar beitt sér fyrir ýmsum aðgerðum sem varða hagsmuni kennara og samtök þeirra hafa lagt áherslu á. Má í því sambandi nefna undirbúning löggildingar starfsheitis kennara og endurmat á kennarastarfinu. Í rn. hefur mikil vinna verið innt af hendi vegna þessara mála og það hefur fengið fulltrúa kennarasamtakanna til þátttöku í viðræðunefndum um þau.

Bandalag háskólamanna lagði fram kröfur um aðalkjarasamning 30. nóv. s.l. og sama dag lagði Hið íslenska kennarafélag fram kröfur um sérkjarasamning. Deilunni um aðalkjarasamning var vísað til Kjaradóms hinn 10. jan. og er niðurstöðu hans að vænta 22. þ. m. Þar sem þér og fleiri kennarar höfðuð óskað lausnar frá störfum frá og með 1. mars taldi menntmrn. að viðræður um sérkjarasamning ættu að fara fram samhliða málsmeðferð fyrir Kjaradómi, enda ljóst að tíminn yrði ella of naumur. Sama afstaða kom fram í bréfi Hins íslenska kennarafélags frá 24. jan.

Menntmrn. beitti sér fyrir því að teknar yrðu upp viðræður um sérkjarasamninginn og var haldinn fundur samninganefndar hinn 1. febr. s.l. Tveimur dögum fyrir þennan fund hafði launamálaráð BHM lagt fram í Kjaradómi greinargerð sína varðandi aðalkjarasamning. Fyrr var því ekki unnt að hefja viðræður um sérkröfur. Afstaða fulltrúa kennara á fundinum 1. febr. var þá með þeim hætti að ekki virðist sem stendur grundvöllur fyrir frekari viðræðum fyrr en kjaradómur liggur fyrir.

Menntmrn. ritaði HÍK bréf 5. þ. m. þar sem spurt var um hvort afstaða Hins íslenska kennarafélags til uppsagnar félagsmanna, sem ganga eiga í gildi 1. mars n. k., hefði breyst í ljósi þeirrar þróunar, sem orðið hefur frá því að þær voru lagðar fram 30. nóv. s.l., og hvort þær verði dregnar til baka. Í bréfi HÍK 7. febr. segir m.a.:

„Í bréfi yðar eru nefnd eftirtalin þrjú atriði og spurt hver áhrif þau hafi á kjör kennara og líkur til að þau verði leiðrétt. Um þetta var ekki spurt í bréfi rn. svo sem sjá má af ofanrituðu. Hvað sem því líður kemur ekki fram í bréfi þessu að HÍK telji aðgerðir rn. til að þoka áfram málefnum kennara neinu breyta um lausnarbeiðnirnar. Er þó hér um að ræða atriði sem kennarar hafa lagt áherslu á, þ.e. löggildingu starfsheitis, endurmat á kennarastarfi og sérkjarasamningsviðræðurnar sjálfar. Þegar það er virt, sem nú hefur verið rakið, er ljóst að tæpast eru líkur til að samningum við Hið íslenska kennarafélag ljúki fyrir 1. mars n. k.“

Menntmrn. telur sér skylt að nota lagaheimild til að áskilja lengri uppsagnarfrest en tilgreindur er í bréfi yðar svo að skólastarf geti verið með eðlilegum hætti. Ef þér og aðrir kennarar, sem lausnar hafa leitað frá og með 1. mars, hættið störfum þann dag mundi verða veruleg röskun á skólastarfi í annað sinn á þessum vetri vegna kjarabaráttu starfsmanna skólanna. Mundi það fyrst og fremst valda nemendum erfiðleikum.

Lagaheimild sú, sem til er vitnað, er í 15. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en þar segir m.a.:

„Nú vill starfsmaður beiðast lausnar, og skal hann þá gera það skriflega og með þriggja mánaða fyrirvara, nema ófyrirsjáanleg atvik hafi gert starfsmann ófæran til að gegna stöðu sinni eða viðkomandi stjórnvöld samþykki skemmri frest. Skylt er að veita lausn, ef hennar er löglega beiðst. Þó er óskylt að veita starfsmönnum lausn frá þeim tíma, sem beiðst er, ef svo margir leita lausnar samtímis eða um líkt leyti í sömu starfsgrein að til auðnar um starfsrækslu þar mundi horfa, ef beiðni hvers um sig væri veitt. Getur stjórnvald þá áskilið lengri uppsagnarfrest, allt að sex mánuðum.“

Með þessari lagaheimild er yður hér með tilkynnt að lausnarbeiðni yðar verður ekki tekin til greina þannig að þér fáið lausn frá störfum frá og með 1. mars, heldur 1. júní 1985. Uppsagnarfrestur er lengdur um þrjá mánuði.

Rn. tekur fram að það væntir þess að þér dragið lausnarbeiðni yðar til baka fyrir þann tíma. Rn. er um það kunnugt að einhverjir kennarar hafa undirritað umboð til fulltrúaráðs HÍK þar sem m.a. segir að þeir munu ekki hlíta framlengingu uppsagnarfrests. Rn. lítur svo á að þetta ákvæði umboðsins sé ógilt að lögum þar sem það fær ekki samrýmst 15. gr. laga nr. 38/1954. Menntmrn. hefur gert og mun gera það sem í þess valdi stendur til þess að stuðla að blómlegu skólastarfi með hagsmuni nemenda og kennara í huga og væntir góðrar samvinnu við yður.“

Með þessu lýkur þessu bréfi og ég þakka hæstv. forseta fyrir að hafa tekið þessa fsp. á dagskrá þótt tíminn sé naumur því að ég tel miklu skipta að koma réttum upplýsingum á framfæri í þessu máli.