23.10.1984
Sameinað þing: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (231)

68. mál, lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Bandalag kennarafélaga beindi erindi til allra þingflokka með bréfi 11. sept. og þar var efst á blaði hjá þeim ósk um að samið yrði lagafrv. um verndun starfsheitis kennara. Í framhaldi af því hóf ég undirbúning að því að efna í frv. um þetta atriði og það er nú tilbúið og verður flutt af minni hálfu ásamt fleiri þm., sem ég hef haft samvinnu við um þetta mál, einhvern næstu daga og lagt fyrir hv. Nd. Ég taldi eðlilegt að þetta kæmi fram í sambandi við þetta mál, þannig að menn áttuðu sig á að slík vinna hefur verið í gangi um lengri tíma. Það er auðvitað góðra gjalda vert að hæstv. menntmrh. er einnig með þetta mál í undirbúningi. Menntmn. getur þá tekið á þessum málum þegar hún fær þau frv., sem fram koma, til umsagnar.

Hæstv. ráðh. gat þess að hann hefði leitað til Bandalags kennarafélaga um undirbúning málsins. Mér er kunnugt um að sú ósk var skilyrt af hálfu hæstv. ráðh. Svo vildi til að Bandalag kennarafélaga eða kennarasamtökin höfðu efnt til mótmæla eða mótmælt með ályktun ummælum hæstv. menntmrh. varðandi menntun og kjör kennara. Hæstv. ráðh. mun hafa tengt vilja sinn til þess að standa að þessu máli því, að kennarasamtökin féllu frá þeim mótmælum sem raunar munu hafa verið komin til Ríkisútvarpsins. Þetta er nú kafli út af fyrir sig og minnir dálítið á vinnubrögð Stóra bróður sem Vökumenn í Háskóla Íslands ætla að berjast fyrir að verði umræðuefni 1. des. n.k. á fullveldisdaginn, og færi þá ekki illa á því að hæstv. menntmrh. fengi að segja orð í því samhengi. (Gripið fram í.) Mér er ekki kunnugt um hver varð niðurstaðan. (Gripið fram í.) Þá er það úr sögunni, en það getur kannske komið á dagskrá síðar.