12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2844 í B-deild Alþingistíðinda. (2311)

286. mál, kjör og starfsaðstaða framhaldskólakennara

Kristín S. Kvaran:

Herra forseti. Þetta er auðvitað allt mjög svo alvarlegt mál sem hér er til umr. vegna þess að höfuðkjarninn í þessu er að það þýðir lítið að tala um það á hátíðarstundum að menntun sé undirstaða fyrir áframhaldandi tækniþróun og fleira þess háttar, svo sem lífskjör og annað slíkt, ef ekki er gert ráð fyrir þessari undirstöðu með því að hlúa að menntuninni á sem allra bestan hátt. Ástæðum þeirra uppsagna sem hér eru til umr. hafa verið gerð mjög góð skil af þeim ræðumönnum sem tekið hafa til máls hér. Þess vegna langar mig að vekja athygli á því hvað varðar uppsagnarfrestinn sem er framlengdur í allt að sex mánuði skv. 15. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Það sem ég vil koma að hér er að mér finnst hafa orðið óeðlilegur dráttur á tilkynningu frá rn. um þessa framlengingu uppsagnarfrests. Þetta segi ég vegna þess að mér finnst vera um að ræða algjört undantekningartilfelli í lok þessarar 15. gr. og frá þeirri aðalreglu að aðilar séu lausir að þremur mánuðum liðnum skv. lögboðnum samningsbundnum uppsagnarfresti. En þar segir á þessa leið, með leyfi forseta:

„Þó er óskylt að veita starfsmönnum lausn frá þeim tíma, sem beiðst er, ef svo margir leita lausnar samtímis eða um líkt leyti í sömu starfsgrein, að til auðnar um starfrækslu þar mundi horfa, ef beiðni hvers um sig væri veitt. Getur stjórnvald þá áskilið lengri uppsagnarfrest, allt að sex mánuðum.“

Það er þetta sem ég á við með því að um undantekningartilfelli sé að ræða. Þess vegna hlýtur það að liggja fyrir, það hlýtur að liggja fyrir um leið og uppsagnirnar berast, hvort til þessarar auðnar horfi um starfrækslu. Ég get ekki annað séð en að réttur stjórnvalda skv. þessari 15. gr. til framlengingar uppsagnarfrestsins sé löngu fyrir bí enda veit ég ekki hvernig helst má rökstyðja það að hægt sé að meina kennurum að leita sér að nýrri vinnu og að skuldbinda sig við nýja atvinnurekendur þegar nú lifir aðeins hálfur mánuður eftir af þessum uppsagnarfresti. (Forseti hringir.).

Þegar skipun hefur nú borist frá rn. þess efnis að framlengingin sé ákveðin þá horfir illa fyrir þeim kennurum sem nú þegar hafa bundið sig, ráðið sig annars staðar, með tilliti til hugsanlegrar bótaskyldu gagnvart atvinnurekanda. Ég vil bera fram þá spurningu hér hvort það sé einhvers staðar til umræðu hvernig að þeim málum verði staðið.