12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2846 í B-deild Alþingistíðinda. (2316)

254. mál, nöfn fyrirtækja

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Í febrúar 1982 beindi ég fsp. til þáv. hæstv. viðskrh. um hver lög giltu um nafngiftir fyrirtækja, og væru þau ekki fullnægjandi hvort til stæði að setja lög um þær. Hæstv. þáv. ráðh. svaraði því til að hann hefði ekki í hyggju að flytja slíkt frv. og taldi lög nr. 42 frá 1903 ásamt breytingum á þeim með lögum nr. 24 1959, lögum um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, duga þar sem þar væru skýr ákvæði um að fyrirtæki skuli bera nöfn er samrýmist íslensku málkerfi. Orðrétt sagði hæstv. þáv. ráðh. Tómas Árnason:

„Ég verð þó að lokum að játa það, að ég efast um að lagasetning af þessu tagi geri mikið gagn ein sér. Mestu máli skiptir að efla alla umræðu um íslenskt mál.“

Hv. þáv. þm. Vilmundur Gylfason tók til máls og sagði:

„Ég vil líka segja frá því, að skömmu fyrir jól barst allshn. Nd. erindi þar sem vakin er athygli á sögu löggjafar í þessum efnum, efnislega mjög í þá veru sem hv. þm. gerði grein fyrir í framsögu með þessari fsp. Á vegum allshn. Nd., í framhaldi af því erindi sem nefndinni barst, hefur farið fram umræða og athugun á því, hvort mögulegt sé að á vegum nefndarinnar verði lagt fram lagafrv. sem feli í sér að komið verði í veg fyrir nafngiftir á atvinnustarfsemi sem falli ekki að málkerfi íslensks máls.“

Í apríl 1982 mælti svo hv. þáv. þm. Vilmundur Gylfason fyrir frv. eða öllu heldur tveim frv. allshn.

Nd., sem voru að vísu á einu þskj., og var þar annars vegar um að ræða breytingu á lögum um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð og hins vegar á lögum nr. 53 frá 1963, um veitingasölu, gististaðahald o.fl. Bæði þessi frv. urðu að lögum á skjali sem bar laganúmerið 57 frá 1982. Eftir breytinguna hljóðar 8. gr. hinna fyrrnefndu laga, þ.e. laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, svo með leyfi forseta:

„Hver sá sem rekur verslun, handiðnað eða verksmiðjuiðnað skal hlíta ákvæðum þeim, er hér fara á eftir, um nafn það, er hann notar við atvinnuna, og um undirskrift fyrir hana (firma), enda beri fyrirtækið og atvinnustarfsemi þess nöfn, sem samrýmist íslensku málkerfi að dómi skrásetjara. Ágreiningi, sem rísa kann út af nafni, má skjóta til nefndar þeirrar sem starfar skv. lögum nr. 35/1953.“

Sams konar ákvæði komu inn í 4. gr. laga nr. 53 frá 1963, um veitingasölu, gististaðahald o. fl.

Þrátt fyrir þessa viljayfirlýsingu hins háa Alþingis virðist lítt að lögum farið. Á þskj. 432, sem er 254. mál þingsins, hef ég því sett fram eftirfarandi fsp. til hæstv. viðskrh., með leyfi forseta:

„Telur viðskrh. það samrýmast lögum um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, nr. 42/1903, sbr. lög nr. 57/1982, að erlend vörumerki séu höfð í nöfnum íslenskra fyrirtækja?“

Það hefur lengi verið vitað að ákveðin fyrirtæki hafa farið á bak við þessi lög, sem hér var áður getið, með því að nota vörumerki sín sem nafn á fyrirtæki. Nægir að nefna hið kunna fyrirtæki Etienne Aigner sem er undir því nafni í símaskrá. En þessi leið virðist raunar vera með öllu ónauðsynleg því að þeim fyrirtækjum fjölgar í sífellu sem bera erlend nöfn sem ekki eru vörumerki. Þarf ekki nema aka niður Laugaveginn til að sjá fyrirtæki sem heita Companí, Gallerí, Bonný, Spútnik, Top Class, Lips, Ping Pong, Etienne Aigner, High Voltage, Party o.s.frv. Allt er þetta nefnt af handahófi, og skal ekki um það fást við þessi fyrirtæki frekar en mörg önnur, sem undir sömu sök eru seld.

Ég skal játa það hér að ég hélt, þegar ég bar fram fsp., að margt af þessum nöfnum væru vörumerki en svo er aðeins .í þessum tilvikum um Etienne Aigner. Ég vona því að hæstv. ráðh. misvirði ekki við mig fáfræði mína um snyrti- og tískuheiminn og svari því jafnframt hvað hann telji að gera skuli til að koma í veg fyrir þessar erlendu nafngiftir sem óumdeilanlega eru brot á íslenskum lögum. Frá því verður ekki vikið.