12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2849 í B-deild Alþingistíðinda. (2320)

252. mál, auglýsingakostnaður vegna sölu spariskírteina ríkissjóðs

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vildi gjarnan hefja ræðu mína í viðurvist aðspurðs hæstv. ráðh. (Forseti: Við skulum gera ráð fyrir því að svo verði og hinkra við augnablik.) Herra forseti. Ég sé að hæstv. fjmrh. gengur í salinn.

Það hefur vakið nokkra athygli landsmanna að fjmrn. hefur nú lagt út í hinn harða heim auglýsinganna og notar nú alkunn meðul auglýsenda og auglýsingaframleiðenda til þess að selja vöru sína í harðri samkeppni við aðra slíka. Það sem skilur á milli rn. og vöruframleiðenda er þó e.t.v. að hér er verið að selja spariskírteini sjóðs allra landsmanna, ríkissjóðs, í samkeppni við banka landsins fyrst og fremst, sem einnig eru óumdeilanlega sameiginlegur sjóður landsmanna, með gífurlegum tilkostnaði án þess að eigendur þessara sjóða hafi tekið um það ákvörðun.

Við lifum í heimi auglýsingaskrums þar sem einskis er svifist og verulegur hluti tekna ríkisfjölmiðlanna er fenginn með auglýsingaskrumi framleiðenda og seljenda. Hundruð manna hafa nú atvinnu af að gera auglýsingar og virðist þess lítt gætt varðandi listræna framleiðslu að sömu kröfur um vinnubrögð séu gerðar til auglýsinga sem annars efnis fjölmiðlanna né að auglýsendur geri kröfur um að þær séu í samræmi við metnað þeirra stofnana sem þær eiga að kynna. Þó gæti maður farið að hafa efasemdir.

Sem dæmi má nefna þann heim sem háborg íslenskrar menningar, Háskóli Íslands, kynnir sem æskilega umbun fyrir að taka þátt í Happdrætti Háskóla Íslands. Þar getur að líta mannlíf Dallasfólksins sem eyðir tíma sínum við sundlaugarbakkana með glas í hönd, og víst er það rétt að slík tilvera er líklegri fyrir menn með því að eiga happdrættismiða en með því að afla sér menntunar við téða menntastofnun og vinna síðan venjulegan vinnutíma.

Nú hefur sjálft fjmrn. hrist af sér rykið og látið gera mikla auglýsingaröð, sem aldnir og ungir horfa nú á og hlýða, svo að nú æfa öll börn landsins sig í að vera ótalandi, þ.e. að bulla eins og menn gera í umræddri auglýsingu, en eins og allir vita hafa auglýsingar mikil áhrif á ung börn. Ekki veit ég hvort rn. telur það gefa nokkra hugmynd um þá starfsemi sem þar fer fram. En um efnistök í ofangreindum auglýsingum ætlaði ég raunar ekki að ræða, heldur kostnaðinn.

Nú er svo komið að opinberir starfsmenn eru ekki lengur matvinnungar, yfir vofir að skólum landsins verði lokað og menntað fólk reynir allar leiðir áður en það ræður sig til starfa hjá íslenska ríkinu. Það verður því að teljast forvitnilegt að fá að vita hversu miklum fjármunum er eytt í þessa nýstárlegu starfsemi sem fjmrn. hefur nú tekið upp, auglýsingastarfsemina. Hér var fyrir nokkrum mínútum rætt um það alvarlega ástand sem er að skapast vegna launadellna framhaldsskólakennara landsins. Það hlýtur þess vegna að vera nokkur ástæða til að vita hversu mikið hefur til þessara auglýsinga farið. Ég hef að vísu spurt í spurningu minni hvað þessi auglýsingakostnaður nemi launum margra manna í 15. launaflokki en það er auðvelt að deila ef upphæðin verður upp gefin.

Það er líka ástæða til að velta því fyrir sér hvort fjmrn. landsmanna er orðið svo gjörsamlega firrt frá fólkinu í landinu að það nái ekki til landsmanna öðruvísi en að leggja í baráttu við almennan auglýsingamarkað. Sú var tíðin að menn gátu náð rödd rn. á annan hátt, en hér hefur verið tekin upp þessi nýstárlega aðferð við að tala til landsmenn og maður gæti velt fyrir sér hvort stjórnmálamenn almennt fara að neyðast til þess að láta auglýsingastofur landsins sjá um málflutning fyrir sig.

Af þessu gefna tilefni, herra forseti, hef ég leyft mér að bera fram fsp. sem liggur hér fyrir á þskj. 430 og er 252. mál þingsins, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Hversu miklu fé hefur fjmrh. ákveðið að verja alls í auglýsingaherferð þá sem nú stendur yfir vegna sölu á verðtryggðum spariskírteinum ríkissjóðs?

2. Hvað má ætla að auglýsingakostnaður þessi jafngildi launum margra manna í 15. launaflokki (1. þrepi) hjá BSRB?“