12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2852 í B-deild Alþingistíðinda. (2323)

252. mál, auglýsingakostnaður vegna sölu spariskírteina ríkissjóðs

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Enginn endir er nú á hvað þm. fá sig til. Ég leyfi mér að endurtaka það sem ég sagði um þá stétt manna sem býr til auglýsingar. Ég var ekki að hnýta í þá, enda snýst þetta mál ekki um það. Ég sagði að hins vegar væri það oft svo að ekki væru sömu kröfur gerðar um listræn vinnubrögð við auglýsingar og annað efni í sjónvarpi t.d. og útvarpi. (EG: Þetta kallast að hnýta í það fólk.) Vill nokkur mótmæla því að það séu ekki gerðar sömu kröfur? Ég leyfi mér að halda því fram. Það segir ekkert um að auglýsingagerðin sé ekki stundum ákaflega vel af hendi leyst. Hitt er svo annað mál að það fer auðvitað eftir því við hvað við miðum.

5. landsk. þm. er að tala um tæknilega kunnáttu í auglýsingaskruminu hér á landi. Jú, jú, þeir standa öllum öðrum á sporði er ég alveg viss um. En vondar auglýsingar eru jafnvondar fyrir það. Þm. leyfir sér að segja að auglýsingar séu upplýsingar. Það er svo langt í frá að svo sé. Auglýsingar eru almennt og yfirleitt fjarri því að vera upplýsingar. Ég væri ekki að amast við auglýsingum ef þær væru það, en þær eru það ekki. Þær eru til þess eins að ýkja og afskræma það sem þær eru að auglýsa og yfirganga þann sem á undan kom.

Það er eðli auglýsinga og ég vil ekki ganga inn í þennan heim og síst af öllu vil ég að fjmrn. landsins taki þátt í þessum leik. Er virkilega svo komið að stjórnvöld landsins þurfi á þessum skrípalátum að halda til að láta rödd sína heyrast um jafnalvarleg mál og fjármál fólks? Þetta er alveg fráleitt og ef auglýsingaframleiðendur landsins kjósa að greiða Alþb. ekki atkvæði sitt út á þessi orð verður bara að hafa það. Það er mál til komið að einhver sporni við fæti í þessum glysheimi sem við göngum í með lokuð augu eins og allar aðrar þjóðir. Ég sé enga ástæðu til þess að gera það. Við getum alveg talað saman og fengið upplýsingar, eins og hv. þm. sagði, án þess.

Fjmrh. kveðst hafa verið nauðbeygður til að fara í samkeppni við ríkisbankana og banka landsins. Ég get út af fyrir sig skilið hans sjónarmið þar. En við getum líka spurt: Hvenær var ákveðið að bankar landsins færu í þennan skrípaleik? Hvar voru fulltrúar hins háa Alþingis í bankaráðum landsmanna? Hvers vegna komu þeir ekki hingað og spurðu hv. þm.: Eigum við að ganga inn í auglýsingaheiminn með ríkisfyrirtækin upp á vasann? — Höfum við einhvern tíma samþykkt það? Ekki ég, enda hef ég aldrei verið spurð.

Það er hraksmánarlegt að fulltrúar Alþingis skuli hefja þennan bjánagang og síðan skuli fjmrn. landsins telja sig tilneytt að ganga inn í þetta. Hvað verður næst? Ætlar forseti Sþ. að tala við auglýsingaskrifstofur bæjarins ef hann þarf að koma auglýsingum á framfæri um starfsemi Alþingis? Hlustar nokkur á hann öðruvísi? Verður ekki einhver að dansa og syngja og standa uppi á borðum og tala bull til þess að þjóðin nenni að hlýða á rödd Alþingis? Nei, hv. þm. Þetta hlýtur að enda með ósköpum. Það getur ekki verið nauðsynlegt að eyða í þetta 5 millj. sem eru reyndar alls ekki 14 árslaun manna í 15. launaflokki, heldur 24 árslaun eftir því sem mér reiknast til. Á sama tíma og menntamenn þjóðarinnar, sem eru að kenna börnunum okkar, eru ekki matvinnungar, því að það eru þeir ekki eins og stendur, er eytt 5 millj., 24 árslaunum fólks sem hefur ekki miklu lægri laun en þeir, í að auglýsa spariskírteini ríkissjóðs. Þvílík endemi! Og mig undrar að hv. þm. Eiður Guðnason skuli taka undir þessa vitleysu, þó að hann sé fjölmiðlamaður og sjái eflaust í þessu tekjulind fyrir Ríkisútvarpið sitt, að hann skuli vera að mæla þessu bót, maður sem er formaður menningarmálanefndar Norðurlandaráðs! Ég held að það sé engan veginn sæmandi að taka þátt í þessu. Ég ætti kannske spyrja hann ef mér leyfist svo: Hefur nokkur önnur Norðurlandaþjóðanna leitað þessara leiða til að ná til fólks um málefni ríkissjóðs? Það er mér stórlega til efs. Nei, Íslendingar hafa hér riðið á vaðið og ég vil leyfa mér að mótmæla þessu.