12.02.1985
Sameinað þing: 48. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2858 í B-deild Alþingistíðinda. (2335)

287. mál, könnun á launum og lífskjörum

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Vegna þessara orða hv. 2. þm. Reykv. vil ég segja þetta: Hvorug þessara till., sem hér eru á þskj. 467 og 117, eru svo langar að það sé mikið verk að lesa þær. Ég hef margt við tillöguflutning af þessu tagi að athuga. Þegar einn þm. skrifar upp á, eins og það er kallað, eða flytur mál með öðrum, þá varpar hann auðvitað ekkert af sér ábyrgð á því þskj., það er mikill misskilningur, enda veit ég að hv. þm. Gunnar Schram og lagaprófessor veit það. Það sem ég gerði athugasemd við er þetta: Hann hefur flutt mál hér í þinginu um að fela ríkisstj. og aðilum vinnumarkaðarins að gera samanburð á launakjörum og lífskjörum launafólks á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum. Þar hlýtur hann ásamt 1. flm., Tómasi Árnasyni, að bíða niðurstöðu úr þeirri rannsókn. Til þess hlýtur hún að vera gerð. Það sem gerist svo er að hv. þm. gerist 1. flm. að annarri till. hér á hinu sama þingi og hún er um það að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að skipa nefnd fulltrúa stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins — sem sagt þeim hinum sömu — til að kanna hvort og að hvaða leyti laun og lífskjör séu lakari á Íslandi en í nálægum löndum og hverjar séu orsakir þess.

Mér þykir þetta kyndugt og mér þótti það þegar ég gerði þessa athugasemd. Og mér þykir það enn. Í annarri till. er beðið um rannsókn, óhlutdræga rannsókn á stöðu mála sem eru launakjör og lífskjör fólks á Íslandi í samanburði við annars staðar á Norðurlöndum, eins og segir í till. Á sama tíma þykir mér óþarfi að flytja till. um að sömu aðilar kanni jafnframt það sem búið er að fela þeim að kanna skv. hinni till. — og að hvaða leyti launin séu lakari,sem er fyrir fram gefin niðurstaða. Þarna finnst mér kynduglega að farið og eðlilegt hefði verið að sameina þessar tvær tillögur, flm. hefðu ræðst við, og þar sem hv. þm. Gunnar Schram er flm. á báðum till. þá þykir mér að hann hefði átt að gera annað tveggja, að fara þess á leit við Tómas Árnason að orðalagi væri lítillega breytt á fyrri till. og þar tekin inn nærliggjandi lönd önnur en Norðurlönd, eða hv. þm. hefði beðið um þennan tillöguflutning þangað til niðurstöður þessara sömu aðila lágu fyrir. Svo einfalt er það. Og þess vegna læt ég ekkert af því, herra forseti, ég tel að athugasemd mín hafi átt fullan rétt á sér og sé þess vegna enga ástæðu til þess að hér sé talað um slæmar hvatir. Nei, það er hárrétt sem hv. þm. sagði, ég varð ekki vör við neinar slæmar hvatir þegar ég gerði þessa athugasemd síður en svo. Ég vildi einungis benda á að mér þættu þetta annarleg vinnubrögð og mér þykir það enn.