12.02.1985
Sameinað þing: 48. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2863 í B-deild Alþingistíðinda. (2346)

156. mál, nýting ríkissjóðs á hluta af Seðlabankabyggingu

Flm. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér hér að mæla fyrir till. til þál. um yfirtöku ríkissjóðs á Seðlabankabyggingu undir Stjórnarráð Íslands, en meðflm. minn að þessu máli er hv. þm. Jóhanna sigurðardóttir. Till. er í því fólgin að:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta ljúka nýbyggingu Seðlabanka Íslands við Ingólfsstræti eins fljótt og auðið er. Jafnframt skorar Alþingi á ríkisstj. að yfirtaka bygginguna undir Stjórnarráð Íslands.

Þá skorar Alþingi á ríkisstj. að láta Seðlabankanum í té í makaskiptum byggingu Framkvæmdastofnunar ríkisins við Rauðarárstíg, með vísan til ákvæðis nr. 6.2 í „samkomulagi stjórnarflokkanna“ — þ.e. annarri tilraun til málefnasamnings núv. hæstv. ríkisstj. — „frá því í september s.l. þess efnis að gerðar verði tillögur um breytingar á lögum og verkefnum Framkvæmdastofnunar ríkisins.“

Eins og hv. þm. er kunnugt er Seðlabankinn ríkiseign undir þingkjörinni stjórn. Seðlabankabyggingin telst því kostuð af almannafé.

Af umr. á Alþingi, í fjölmiðlum og á mannamótum má ráða að sú framtakssemi bankastjórnar Seðlabankans að verja verulegum fjármunum „af eigin fé bankans“, eins og það hefur verið orðað, til þess að byggja höll yfir starfsemi Seðlabankans, á sama tíma og stjórnvöld og atvinnurekendur telja sig ekki hafa efni á að greiða starfsfólki sínu mannsæmandi laun, njóti takmarkaðra vinsælda meðal skattgreiðenda. Margir hafa á orði að ótímabært sé að reisa sérstakt minnismerki yfir peningamálaóstjórn landsmanna á „áratug hinna glötuðu tækifæra“.

Á 106. löggjafarþingi létu tveir hv. alþm. þetta mál til sín taka. Hv. 10. landsk. þm. Guðrún Helgadóttir flutti till. til þál. „um stöðvun framkvæmda við byggingu seðlabanka Íslands“ og hv. 3. þm. Vestf. Karvel Pálmason flutti frv. til l. um frestun byggingarframkvæmda Seðlabanka Íslands og bann við fjölgun útibúa ríkisbankanna. Hvorugt málið náði fram að ganga. Nýlega flutti hv. þm. Eiður Guðnason fsp. í sex liðum til viðskrh., þ.e. 90. mál Sþ., m.a. um kostnað við nýbyggingu Seðlabankans, starfsmannafjölda, bifreiðaeign, risnukostnað sem og hvaða ráðstafanir Seðlabankinn hefði gert til aðhalds og sparnaðar í rekstri svo sem öðrum ríkisstofnunum hefur verið gert að gera.

Svör hæstv. viðskrh. og bankamálaráðh. við þeim fsp. vöktu nokkra athygli.

Með þessari till. til þál. er tekinn annar póll í hæðina en þeir hv. þm. áðurnefndir, Guðrún Helgadóttir og Karvel Pálmason, gerðu. Úr því sem komið er þykir ekki raunsætt að stöðva byggingarframkvæmdir við Seðlabankahöll, enda ekki pólitískur vilji fyrir stöðvun framkvæmda. Þvert á móti gildir hér það sjónarmið að hagkvæmast sé að koma byggingunni sem fyrst í gagnið. Hins vegar gera flm. till. um að húsið verði nýtt með öðrum hætti en bankastjórn Seðlabankans mun upphaflega hafa ráðgert.

Alkunna er að Stjórnarráð Íslands býr við þröngan húsakost. Uppi hafa verið ráðagerðir um að ríkið keypti skrifstofubyggingu Sambands ísl. samvinnufélaga við Sölvhólsgötu undir stjórnarráð. Nálægð Sambandshússins við Arnarhvol hefur þótt mæla með þeirri ráðstöfun. Af samningum mun ekki hafa orðið. Hin nýja höll Seðlabanka Íslands við Arnarhól liggur mjög vel við sem frambúðarsetur Stjórnarráðs Íslands, m.a. vegna nálægðar við Arnarhvol. Yfirtaka ríkissjóðs á byggingu Seðlabankans sýnist því vera skynsamleg og hagkvæm ráðstöfun.

Miklar umræður hafa orðið á Alþingi á undanförnum árum um breytingar á starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins. Tillögur hafa verið uppi um að leggja þá stofnun niður með öllu, en fela öðrum aðilum, t.d. félmrn. eða bönkum, verkefni hennar. Flm. leyfa sér að minna á „samkomulag stjórnarflokkanna“, það sem ég minntist á í upphafi, frá því september s.l., en þar segir í tölulið 6.2 um nýsköpun í atvinnulífi og uppstokkun sjóðakerfis, með leyfi forseta:

„Eignir ríkisins í þeim atvinnufyrirtækjum sem henta þykir verði sameinaðar í eignarhaldsfyrirtæki. Í samræmi við þetta verði gerðar tillögur um breytingar á lögum og verkefnum Framkvæmdastofnunar ríkisins.“

Með vísan til þessa leggja flm. þessarar till. til að ríkið bjóði bankastjórn Seðlabanka Íslands byggingu Framkvæmdastofnunar ríkisins við Rauðarárstíg í makaskiptum fyrir nýbyggingu Seðlabankans við Ingólfsstræti og Arnarhól.

Skv. upplýsingum ráðuneytisstjóra fjmrn. lágu ekki fyrir á einum stað haldbærar upplýsingar um hversu háum upphæðum ríkissjóður ver á ári hverju vegna húsaleigu undir starfsemi sína og ríkisstofnana. Ástæða er til að minna á að þetta er nú upplýst þar sem hæstv. fjmrh. hefur svarað fsp. um það hér á hinu háa Alþingi. Ef ég man rétt upplýsti hæstv. ráðh. að ríkið verði á s.l. ári eða á tólf mánaða tímabili 111 millj. kr. í húsaleigu auk ýmislegs annars kostnaðar því viðvíkjandi.

Ljóst er að Stjórnarráð Íslands býr við mjög þröngan húsakost. Starfsemi þess er dreifð víðs vegar um Reykjavíkurborg. Tillagan um að finna Stjórnarráði Íslands framtíðarsamastað í nýbyggingu Seðlabankans virðist því styðjast við ærin hagkvæmnisrök. Þar að auki færi vel á því út frá skipulags- og fegurðarsjónarmiðum að Stjórnarráði Íslands væri valinn staður til frambúðar í hjarta höfuðborgarinnar við Arnarhól. Sýnist fara betur á því en að bankastofnun hreyki sér svo hátignarlega á einum fegursta stað borgarinnar. Hæverska og leynd er sem kunnugt er aðalsmerki bankastarfsemi, svo sem verið hefur um aldir, og ekki bara í Sviss.

Með þessari till. vilja flm. slá tvær flugur í einu höggi. starfsemi Seðlabankans er fundinn hagkvæmur samastaður og húsnæðisvandræði Stjórnarráðs Íslands eru leyst til frambúðar. Ekki sakar að með þessum ráðstöfunum þættu stjórnvöld sýna myndugleik gagnvart bruðli og óráðsíu ríkisstofnunar sem á erfiðum tímum hefur farið sínu fram án tillits til árferðis og afkomu þjóðarbúsins. Myndugleiki stjórnvalda af þessu tagi er til þess fallinn að auka trú manna og traust á síendurteknum yfirlýsingum ráðh. um nauðsyn „aðhalds og sparnaðar í opinberum rekstri“. Með samþykkt þessarar till. væri Alþingi að sýna eftirbreytnivert fordæmi.

Það skal tekið fram, herra forseti, að flm. hafa ekki borið þessa till. undir ritstjóra Morgunblaðsins og því liggur ekki ljóst fyrir hvort það virðulega blað telur að svona leyfist þm. og flokksformönnum að tala, hvað þá heldur að flytja tillögur um á Alþingi.

Ein rök hef ég heyrt sem væru andstæð þessari till., en þau eru að þegar sé búið að leggja svo mikið fé af eigin fé bankans og binda svo mikið járn fyrir það fé í peningageymslur bankans að óhæft sé að það járnbenta kjarnorkubyrgi komist ekki í gagnið utan um peningasjóði landsmanna. Þetta finnst mér dálítið tvíbent rök, í fyrsta lagi vegna þess að það er margupplýst, það birtist víst árlega á aðalfundum Seðlabankans, að það eru engir peningar til og svo hitt, að ef við mundum nú verða aðnjótandi búhnykks, þannig að við þyrftum mjög á að halda svo járnbentum peningageymslum, þá kæmi til álita þrátt fyrir allt að leigja Seðlabankanum afnot af þessum peningageymslum. Hins vegar kæmi einnig til álita, af því að þetta mun vera járnbentasta kjarnorkubyrgi landsins, að það yrði afhent almannavörnum sem stjórnstöð fyrir æðstu stjórn ríkisins, þ.e. ráðherra og seðlabankastjórn, ef til alvarlegra stríðsátaka kæmi.