12.02.1985
Sameinað þing: 48. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2865 í B-deild Alþingistíðinda. (2348)

162. mál, stighækkandi eignarskattsauki

Flm. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að mæla hér fyrir till. til þál. um stighækkandi eignarskattsauka til tveggja ára. Flm. að þessu máli ásamt mér eru þeir hv. alþm. Jóhanna Sigurðardóttir, Karvel Pálmason, Kjartan Jóhannsson, Magnús H. Magnússon og Eiður Guðnason. Till. er um það að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að skipa nefnd er hafi það verkefni að semja frv. til l. um stighækkandi eignarskatt. Nefndin hafi til hliðsjónar í starfi sínu eftirtalin atriði:

1. Eignarskattsútreikningur skv. 83. gr. laga um tekju- og eignarskatt nr. 75/1981 skuli óbreyttur, þannig að af fyrstu 780 þús. kr. af eignarskattsstofni skuldlausum greiðist enginn skattur. En af þeim hluta eignarskattsstofns, sem umfram er, skal greiða frá 0.95%, þó þannig að skatturinn fari stighækkandi eftir því sem eignarskattsstofn vex. — Við þetta er þó þá athugasemd að gera að þessi till. er samin í septembermánuði s.l. og þá í ljósi tiltækra gagna, þ.e. miðað við upplýsingar ríkisskattstjóraembættis um dreifingu eignarskatts miðað við álagningu ársins 1984 á tekjur ársins 1983. Þær tölur, sem hér eru lagðar til grundvallar, þurfa því endurskoðunar við.

2. Við það skal miða að skattbyrði eignarskattsfjölskyldu með meðaltekjur, eigin íbúð og bifreið hækki ekki frá því sem nú er að raungildi.

3. Við það skal miða að tekjur ríkissjóðs af eignarskatti einstaklinga og lögaðila skv. frv. til fjárlaga 1985 þrefaldist a.m.k.

4. Þessi nýi skattstofn geti komið í stað niðurfellingar tekjuskatts á launþega, sbr. þál. um það sem samþykkt var á síðasta þingi — en fyrsti áfangi á framkvæmd þeirrar þáltill. hefur nú komið til framkvæmda við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1985. — Tekjuauka ríkissjóðs af hækkuðum eignarskatti má að nokkru leyti miða við ákvarðanir Alþingis um tekjuskattslækkun við afgreiðslu fjárlaga.

5. Það er ætlun flm. að nýjum tekjum ríkissjóðs af þessum skattstofni verði, a.m.k. að hluta til, varið til að stórauka framlög ríkissjóðs til byggingarsjóða ríkisins — þ.e. Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna — til þess að styrkja fjárhag sjóðanna og létta greiðslubyrði húsbyggjenda og íbúðakaupenda.

6. Gildistími laganna verði tvö ár, en þá falli þau sjálfkrafa úr gildi nema því aðeins að Alþingi veiti nýjar lagaheimildir. M.ö.o. hér er um að ræða tillögu að „sólarlagsákvæði“.

Lagt er til að nefndin skuli skipuð einum fulltrúa ríkisskattstjóra, einum fulltrúa Þjóðhagsstofnunar, einum fulltrúa viðskiptadeildar Háskóla Íslands og fulltrúa fjmrn. sem skal vera formaður nefndarinnar.

Það segir kannske sína sögu um hversu hratt afgreiðsla mála gengur fyrir sig hér á hinu háa Alþingi að þegar þessi till. var lögð fram á liðnu hausti var bjartsýni flm. slík að hér er lagt til að nefndin hraði störfum þannig að núv. hæstv. ríkisstj. gæti lagt fram frv. til l. um stighækkandi eignarskatt fyrir afgreiðslu fjárlaga fyrir 1985. Í því sambandi er rétt að geta þess að flm. jókst bjartsýni um svo hraða afgreiðslu vegna þess að það heyrðist mjög hvíslað á hinu háa Alþingi að annar stjórnarflokkanna a.m.k. væri mjög jákvæður gagnvart þeirri hugmynd sem sett er fram á þessu þskj., þ.e. um stighækkandi eignarskatt. — Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði. — Af sjálfu leiðir, herra forseti, miðað við þann drátt sem orðið hefur á flutningi og afgreiðslu málsins, að setja þarf framkvæmd málsins í annað tímaperspektíf, ef ég má nota svo ljótt orð.

Ástæða þess að flm. flytja ekki að svo stöddu frv. til l. um stighækkandi eignarskatt er þessi: Þótt fyrir liggi frá embætti ríkisskattstjóra upplýsingar um skiptingu eignarskattsstofns á eignabil við álagningu 1984 að því er varðar einhleypa og hjón, sbr. fskj. I í grg. þessarar þáltill., þá var slíkum upplýsingum ekki til að dreifa um lögaðila og fyrirtæki. Á þeim tíma þegar þetta mál var unnið og undirbúið stóð yfir verkfall opinberra starfsmanna í fjórar vikur. Það þýddi að ekki var unnt að útbúa forrit til tölvutækrar úrvinnslu fyrirliggjandi gagna. En í trausti þess að ríkisstj. hafi tök á að hraða gagnavinnslu, sem nauðsynleg er, umfram það sem þegar er aðgengilegt, hafa flm. kosið að flytja málið í formi þáltill. þar sem það er að mati flm. mjög brýnt.

Skv. lögum um tekju- og eignarskatt nr. 75/1981 er eignarskattsstofn skilgreindur skv. 80. gr. sem „þær eignir sem eftir verða þegar frá verðmæti eigna, sem um ræðir í 73. gr., hafa verið dregnar fjárhæðir sem um ræðir í 76., 77. og 78. gr., eftir því sem við á.“ Um eignarskattsútreikning segir svo í 83. gr. umræddra laga, sbr. 6. gr. laga nr. 71/1984:

„Eignarskattur manna reiknast þannig: Af fyrstu 780 þús. kr. af eignarskattsstofni greiðist enginn skattur. Af þeim hluta eignarskattsstofns sem umfram er, greiðist 0.95%.“

Um þetta á við sú athugasemd, sem ég kom á framfæri áðan, að þessum tölum þarf að breyta í ljósi verðþróunar og álagningar fyrir árið 1985.

Meginhugmynd flm. er sú að í stað sömu prósentuálagningar eignarskatts, án tillits til eignarskattsstofns og eignarfjárhæðar, skuli álagning vera stighækkandi eftir því sem eignarskattsstofn og fjárhæð eignar fer hækkandi.

Skv. frv. til fjárlaga fyrir árið 1985 eru tekjur ríkissjóðs af eignarskatti einstaklinga áætlaðar 305 millj. kr. og af fyrirtækjum 200 millj. kr. Það er ætlun flm. að tekjur ríkissjóðs af stighækkandi eignarskatti megi þrefalda án þess að launþegum með meðaltekjur og í eigin húsnæði verði íþyngt umfram það sem er. Ætlun flm. er að skattbyrði hins stighækkandi eignarskatts leggist fyrst og fremst á sannanlega stóreignamenn og stóreignafyrirtæki.

Það er vilji flm. að undirbúningi nauðsynlegrar löggjafar um þetta efni verði hraðað svo sem kostur er. Það var upphaflega ætlan flm.ríkisstj. gæti hraðað afgreiðslu málsins nægilega til þess að leggja hefði mátt fyrir Alþingi frv. til l. um málið fyrir afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1985. Flm. leggja til að haft verði „sólarlagsákvæði“ í lögunum er kveði á um að þau skuli falla úr gildi eftir tvö ár, nema því aðeins að Alþingi sjái ástæðu til, að fenginni reynslu, að framlengja þau.

Herra forseti. Af því, sem hér hefur verið sagt, má ljóst vera að athugasemdir hv. 1. þm. Suðurl. við þetta þingmál, sem hann flutti í umr. um allt annað mál á miðvikudag í fyrri viku, byggjast á allsherjarmisskilningi. Er ljóst af því sem hann þá sagði og birtist reyndar í málgagni hans, Morgunblaðinu, í dag, að hv. 1. þm. Suðurl. hefur ekki lesið þskj. Það er rétt að svara þeim gagnrýnisatriðum strax, en þau voru þessi, með leyfi forseta:

1. þm. Suðurl. hélt því fram að skv. þessari till. um stighækkandi eignarskattsauka mundi hún ná til — eins og það var orðað — „flestra fjölskyldna í landinu sem á annað borð borga eignarskatt.“

Því er til að svara að þetta er alrangt og algerlega á misskilningi byggt, enda skilmerkilega tekið fram af flm. að við það skuli miðað að skattbyrði eignarskatts fjölskyldna með meðaltekjur, eigin íbúð og bifreið hækki ekki frá því sem nú er.

Annað gagnrýnisatriði hv. þm. var að ef hækkunin kæmi jafnt niður á alla þá ályktaði hann og nefndi sem dæmi að fjölskylda, sem ætti skuldlausa eign skv. framtali upp á 3.5 millj. kr. og greiddi núna 15 þús. kr. eignarskatt, mundi skv. þessum till. greiða 45 þús. kr. eignarskatt.

Forsendurnar eru rangar og ályktunin er röng. Það er alls ekki um það að ræða að þessi skattheimta leggist jafnt á alla. Hér er um að ræða till. um stighækkandi eignarskatt og kyrfilega tekið fram að þegar talinu víkur að slíkri fjölskyldu með ekki meiri skuldlausa eign en þarna um ræðir, þá er ekki skv. þessari till. gert ráð fyrir því að hún verði fyrir þyngri skattbyrði en þegar er.

Um þetta mætti nefna t.d. eitt dæmi. Við erum hér að tala um stighækkandi eignarskatt, bæði á einstaklinga og lögaðila og höfum talað um sem dæmi að lágmark væri að þetta skilaði ríkissjóði nettó á fyrra árinu um 1 milljarði kr. Ef litið er á þær töflur, sem fylgja í grg. með frv., kemur í ljós að ef einungis væri um að ræða að ná til þeirra 5% einstaklinga, sem teljast skv. töflum yfir álagningu 1984 vera efnamestir, þ.e. eiga mestar skuldlausar eignir, og eignarskatturinn stighækkandi væri í efsta þrepi 3%, þá mundi það skila ríkissjóði 300 millj. kr. tekjuauka. Hér er eingöngu verið að taka dæmi af einhleypum. Miðað við það væri miðað við að stighækkandi eignarskattsauki á stóreignafyrirtæki og stóreignamenn þyrfti ekki að skila á þessu ári nema 700 millj. kr. Þetta dæmi eitt sér nægir til að sýna að hv. 1. þm. Suðurl. fer ósköp einfaldlega af ásettu ráði með útúrsnúninga þegar hann gefur sér rangar forsendur og ályktar síðan út frá þeim. Þetta sýnir að hér er um að ræða skattlagningu sem gæti skilað umræddum tekjum þótt hún næði til tiltölulega mjög fárra aðila í efsta skala skuldlausrar eignar.

Fjórða gagnrýnisatriði hv. þm. var að skattlagning af þessu tagi væri óréttlát vegna þess að hún legðist með mestum þunga á þau fyrirtæki og þær atvinnugreinar þar sem fjárfesting væri hvað hæst hlutfall af veltu og nefndi sem dæmi að þetta mundi eiga sér stað í útgerð, fiskiðnaði, iðnaði og landbúnaði.

Þetta byggist einnig á misskilningi vegna þess að eignarskattshugtakið er ekki sama og fjárfesting, það er um að ræða skattlagningu á skuldlausa eign og það liggja ekki fyrir neinar upplýsingar sem gefa hv. þm. heimild til að álykta út frá þeim það sem hann gerir. M.ö.o., fyrirtæki geta átt umtalsverðar skuldlausar eignir þótt ekki sé þau að finna í þessum atvinnugreinum. Mætti þar tilnefna t.d. mörg stór verslunarfyrirtæki, jafnvel fyrirtækjasamsteypur eins og Samband íslenskra samvinnufélaga, olíufélögin, tryggingafélög, stórverslanakeðjur og aðrar slíkar. Um stöðu fyrirtækja almennt verður ekkert ályktað fyrir fram. Auðvitað finnum við fyrirtæki, sem eiga verulegar skuldlausar eignir, í sjávarútvegi. Miðað við hins vegar allar almennar upplýsingar um afkomu í helstu framleiðslugreinum — og þá á ég einkum og sér í lagi við sjávarútveginn — er ekki líklegt að þessi skattlagning hvíli þyngst á þeim atvinnuvegi.

Fimmta athugasemd hv. þm. var sú að hér væri Alþfl. að stefna að eignaupptöku sem þýddi að á 20 árum væru fyrirtæki gerð eignalaus. Þessa athugasemd er ekki hægt að taka alvarlega þegar af þeirri ástæðu einni að þessi þáltill. er um stighækkandi eignarskattsauka til tveggja ára. 20 ára spásagnir hafa því ekkert gildi að því er þessa till. varðar.

Þá nefndi hv. þm. loks að þessi tillöguflutningur væri dæmi um það að Alþfl., en þeim flokki tilheyra flm., sé sérstakur ríkisforsjárflokkur og þetta væri enn dæmi um kapphlaup A-flokkanna svokölluðu um að tæma launaumslög landsmanna.

Fyrri athugasemd er sett fram gegn betri vitund. Ef hv. þm. hefði haft fyrir því að kynna sér stefnuyfirlýsingu Alþfl. getur þar að líta skilmerkilega yfirlýsingu um það að Alþfl. er einmitt ekki gamaldags ríkisforsjár- og kerfisflokkur. Þvert á móti leggur hann áherslu á að draga úr ríkisforsjá í efnahagsmálum og hefur flutt og mun flytja fleiri tillögur um að ríkisrekstur eigi ekki rétt á sér í þeim tilvikum þegar hann styðst einungis við söguleg rök, en hægt er að færa hagkvæmnisrök fyrir því að hann væri betur kominn í höndum annarra, skilaði þar meiri hagkvæmni eða arði. Þessi fullyrðing hv. 1. þm. suðurl. er þess vegna, að því er ég best fæ séð, útúrsnúningur og öfugmæli sett fram gegn betri vitund. Og þegar hv. 1. þm. Suðurl., formaður Sjálfstfl., er að bera öðrum á brýn viðleitni til að tæma launaumslög annarra, þá er það athugasemd sem ég af gæsku minni ákveð að hlífa honum við að svara svo sem verðugt væri. (Fjmrh.: Það er 5. þm. Reykv. sem tekur úr launaumslögunum.) Var hæstv. fjmrh. eitthvað að tala um að taka úr launaumslögum? Það fer vel á því. Hann er sérfræðingur í þeirri grein svo sem vikið verður að síðar.

Herra forseti. Ég hef með þessum athugasemdum svarað þeirri fyrstu gagnrýni sem fram hefur verið borin hér á hinu háa Alþingi á þessa till. Ég þykist hafa sýnt fram á að sú gagnrýni er byggð á svo hrapallegum misskilningi að hann verður helst ekki skýrður á annan veg en þann að hv. 1. þm. Suðurl. hafi ekki kynnt sér málið.

Í grg. þeirri, sem fylgir þessari þáltill., er lagður fram ítarlegur rökstuðningur fyrir réttmæti þessa máls, auk þess sem vísað er um enn frekari rökstuðning til fjölda fskj. Þó er alveg sérstök ástæða til að vekja athygli á þessum meginatriðum:

1. Á síðasta Alþingi fékk hæstv. ríkisstj. samþykkta lækkun eignarskattsprósentu úr 1.2% í 0.95%, eða um 20.8% , og um leið hækkun frádráttar fyrir eignarskattsstofn um 57.3%. Skattalækkun skv. þessum lagabreytingum hæstv. ríkisstj. á hina efnamestu í þjóðfélaginu má áætla u.þ.b. 160 millj. kr. á s.l. ári. Flm. telja að þessi breyting hafi verið misráðin.

2. Alkunna er að á s.l. hálfum öðrum verðbólguáratug hefur átt sér stað veruleg eignatilfærsla í þjóðfélaginu í skjóli óðaverðbólgu, neikvæðra vaxta og ríflegs vaxtafrádráttar skuldara til skatts. Á þessum árum var látlaus eftirspurn eftir lánsfé þar sem vitað var að ekki þurfti að endurgreiða það nema að hluta. Vaxtafrádráttur stuðlaði að minni bókhaldslegum hagnaði fyrirtækja og lækkun tekjuskatts. Þetta er t.d. meginskýringin á hinum fræga lista hv. þm. og fyrrv. fjmrh. Ragnars Arnalds, sem hann sýndi oft hér í þingsölum á stjórnarandstöðuárum sínum 1974–1978, yfir hin svokölluðu skattlausu stórfyrirtæki Íslendinga. Þessu lánsfé var einkum varið til fjárfestingar í húsnæði, fasteignum, vélum og búnaði, því að eignir af því tagi tryggðu verðgildi peninganna. Þannig nutu skuldarar margvíslegra hlunninda: Lánin voru að stórum hluta styrkir, vaxtabyrðin lækkaði aðra skatta og skattar á eignum fylgdu ekki mats- og endursöluverði þeirra í verðbólgunni. Skattakerfi af þessu tagi stuðlaði beinlínis að offjárfestingu, ruglaði allt raunverulegt arðsemismat og hvatti ekki til hagkvæmrar nýtingar húsnæðis- og vélakosta.

3. Með þessum hætti var um að ræða verulega eigna- og tekjutilfærslu frá sparifjáreigendum, eða almenningi, til fyrirtækja og aðila í sjálfstæðum rekstri. Þeir fjármunir, sem stóðu undir þessari eignaaukningu, voru ekki endurgreiddir á raunvirði og eignirnar hafa ekki verið skattlagðar í takt við verðhækkanir.

4. Þessar skattareglur eiga sinn þátt í látlausum þrýstingi stjórnenda fyrirtækja á lánafyrirgreiðslu banka sem og í þrálátum skorti íslenskra fyrirtækja á eðlilegu rekstrarfé.

5. Eignum verður síður skotið undan skatti en tekjum. Þess vegna er eðlilegt að eignarskattur stóreignaaðila bæti ríkissjóði upp þær tekjur sem það glatar með afnámi tekjuskatts einstaklinga.

6. Fyrir því má færa rök að niðurgreiddir vextir af opinberum lánum til húsbygginga komi nú einkum til góða hinum efnameiri í þjóðfélaginu sem byggja stærst og fá mest lán. Þær upplýsingar eru athyglisverðar að frádráttur frá tekjuskattsstofni vegna fjárfestingar í húsnæði nemur 1.2 milljörðum kr., sbr. yfirlit frá ríkisskattstjóra 30. júlí s.l. um tekju- og frádráttarliði á skattframtali við álagningu ársins 1984. M.ö.o. þessi tala bendir til þess að lánakerfi, sem menn töldu vera tekjujafnandi, eins og húsnæðislánakerfið, sé í reynd tekjumismunandi, þ.e. það færi til fjármagn frá hinum efnaminni í þjóðfélaginu til hinna efnameiri, sbr. þá staðreynd að ef menn skoða talsvert miklar byggingarframkvæmdir í Reykjavíkurborg á síðasta hálfu öðru ári kemur á daginn að það er ekki verið að byggja litlar hóflegar íbúðir yfir ungt fólk eða láglaunafólk, það er fyrst og fremst verið að byggja villur yfir efnameiri fjölskyldur.

7. Eignarskattar stuðla að vandaðra arðsemismati áður en fjárfestingarákvarðanir eru teknar og væntanlega einnig að bættri nýtingu húsnæðis, véla og annarrar fjárfestingar einfaldlega vegna þess að ef menn vita af slíkum sköttum munu þeir væntanlega ganga úr skugga um það, áður en þeir taka lán til að leggja út í nýja fjárfestingu, að hin nýja fjárfesting skili a.m.k. lágmarksarði.

8. Það er ætlun flm. að tekjum ríkissjóðs verði, að hluta til a.m.k., varið til að auka framlög ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins og til félagslegra bygginga, verkamannabústaða og byggingarsamvinnufélaga, sbr. fskj. XXIII með þessu þingmáli. Þetta má orða á einfaldan máta á þann veg að hér sé uppi till. um að skattleggja að nokkru leyti skattsvikinn verðbólgugróða stóreignamanna, stóreignafyrirtækja, hinna fjársterku í þjóðfélaginu, og færa þar með til fjármagn frá þeim og bæta fyrir misgerðir þessa þjóðfélags gagnvart þeirri kynslóð sem nú hefur verið gerð að algerri vanskilakynslóð vegna þess sem við getum kallað húsnæðisfáránleika; vegna þeirra aðstæðna sem þessu fólki er boðið upp á á húsnæðismarkaðinum. Það er kannske ekki hvað síst með hliðsjón af þessu sem ég hef áður haft þau orð um þetta þskj. að það sé róttækasta þskj. sem lagt hefur verið fram á Alþingi Íslendinga á þessu þingi.

9. Ríkisstjórnir í öðrum löndum hafa skoðað möguleika á stighækkandi eignarskatti og þær röksemdir sem mæla með þeirri leið í skattlagningu. Þannig segir í stefnuyfirlýsingu norska Verkamannaflokksins um skattamál frá því í júní 1984: „Helsti kostur eignarskattsins er sá að hann má gera stighækkandi. Nefndin, sem fjallaði um fasteigna- og eignarskatta árið 1973, gerði það að till. sinni að upp yrði tekinn stighækkandi eignarskattur þannig að prósentuálagningin fari hækkandi í takt við hækkandi tryggingamat eigna.“ Þessi tilvitnun er tekin úr riti sem heitir „Skattepolitikken til Debatt: Et Studie- og debattopplægg“, útgefandi Arbejdernes forbund, Osló 1984, bls. 29.

Herra forseti. Þær ályktanir, sem draga má af þeim töflum sem fylgja á fskj. I, II og III með þessu máli, leiða í ljós m.a. eftirfarandi niðurstöður eða ályktanir:

1. Eignum er verulega misskipt.

2. Mikill fjöldi einstaklinga greiðir engan eignarskatt. 3. Framteljendur með lágan eignarskattsstofn, skv. verðlagi ársins 1983 1–2 millj. kr., greiða u.þ.b. helming allra eignarskatta einstaklinga.

4. 28 einstaklingar og hjón eiga sameiginlega skuldlausar eignir metnar á 600 millj. kr. en greiða af slíkum stóreignum mjög óverulega eignarskatta. Slíkar eignir hafa vafalítið verið fjármagnaðar með lánsfé sem á tímabili neikvæðra vaxta, þ.e. fyrir verðtryggingu, var nánast fundið fé.

5. Hæstu 2% framteljenda eiga 13.4% framtalinna eigna einstaklinga. Samt nema skattgreiðslur einstaklinga í þessum hópi aðeins 27.8 þús. kr. að meðaltali miðað við álagningu 1984 á tekjur ársins 1983.

Eins og fyrr segir liggja ekki fyrir tölvutækar upplýsingar um eignarskattsdreifingu fyrirtækja. Hins vegar tekur ekki langan tíma að vinna úr þeim gögnum þegar þau væru fáanleg. Þess vegna telja flm. engan veginn útilokað að unnt sé að undirbúa frv. til l. um stighækkandi eignarskatt þegar á þessu þingi. Það hefði verið hægt ef pólitískur vilji hefði verið fyrir hendi fyrir afgreiðslu fjárlaga og er enn hægt áður en þessu þingi lýkur. Svo að vitnað sé í hæstv. fyrrv. forsrh. lýðveldisins, Gunnar Thoroddsen: „Vilji er allt sem þarf.“

Herra forseti. Er það ætlan forseta að ég flytji þetta þýðingarmesta skattamál þingsins áfram í nótt yfir hausamótunum á hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni? (Forseti HS: Ég vil svara hv. þm. þannig að mér er ekki kunnugt um hvaða áform aðalforseti hefur um framhald þessa fundar eða hversu hann hefur hugsað sér að haga honum og halda honum lengi fram. En ég vænti þess að þar sem svo fátt er orðið í þingsalnum, sem reyndar er oft á þessum tíma, muni vera hægt að fresta þessum fundi og umr. um þetta mál aðalforseta að meinalausu ef hv. flm. óskar eftir.)

Já, herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að í greinum eftir virtan endurskoðanda um skattamál, sem birst hafa í Morgunblaðinu að undanförnu, er það dæmi tekið, aldeilis sérstaklega Alþingi og alþm. til háðungar, að í hvert sinn sem fyrir Alþingi liggi þýðingarmiklar tillögur um skattamál, sem snerta kannske afkomu fjölda fólks, hverfi þingheimur gjarnan allur í kaffi. Er þar með gefið í skyn að hér séu þingbekkir setnir slíkum þöngulhausum að það sé þýðingarlaust að ræða við hv. alþm. um mál af viti ef þau skipta einhverju máli.

Herra forseti. Ég vék þeirri spurningu til virðulegs varaforseta hvort það væri ætlun forseta að ég flytti eitt þýðingarmesta mál þingsins um skattamál, sem snertir afkomu fjölda fólks og hefur verulega efnahagslega, pólitíska þýðingu, yfir hausamótunum á hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni einum saman.