12.02.1985
Sameinað þing: 48. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2872 í B-deild Alþingistíðinda. (2350)

162. mál, stighækkandi eignarskattsauki

Flm. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég hlýddi með nokkurri aðdáun á virðulegan forseta í dag vanda um við þá þm. sem jafnvel stóð til að ættu að flytja hér mál eða taka þátt í atkvgr. en voru fjarverandi. En þá komst forseti svo vel að orði að þær umvandanir ættu ekki við þá fáu sem í þingsalnum voru. Ég hef ekkert á móti því, herra forseti, að minn tími sé hagnýttur og tími hv. þm. Steingríms Sigfússonar og hv. þm. Helga Seljans. En í nafni virðingar Alþingis verð ég að játa að ég tel að þegar um slíkt stórmál er að ræða sé virðingu Alþingis stórlega misboðið, mér sjálfum sem formanni míns stjórnmálaflokks og málinu sem ég er að flytja, ef herra forseti ætlast til þess að ég flytji slíkt alvörumál yfir auðum sal. Ég vil eindregið mælast til þess að forseti verði við þeim óskum mínum að þessari ræðu verði frestað, í og með líka vegna þess að hún er fyrirsjáanlega miklum mun lengri en svo að henni verði lokið á þeim tíma sem ætlaður var fyrir kvöldhlé.