23.10.1984
Sameinað þing: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

40. mál, endurskoðun grunnskólalaga

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svör hans við einstökum liðum minnar fsp. Það er góðra gjalda vert að þess er að vænta að við fáum frv. til breytinga á lögum um grunnskóla fram á þessu þingi, enda verði inntak þeirra breytinga þannig að ástæða verði til að taka undir þær. Ég vil þó nefna að vissulega hefði verið æskilegt að fá slíkt frv. fram snemma á þinginu, þegar um svo þýðingarmikið mál er að ræða, ef von á að vera til þess að hægt sé að taka afstöðu til þess og afgreiða það á þinglegan hátt. Því vil ég hvetja hæstv. ráðh. til að hraða þeim undirbúningi eftir föngum.

Ég lýsi ánægju minni með þau orð hæstv. menntmrh. að í aðalatriðum verði byggt á núverandi lögum og inntak þeirra breytinga sem hann er að boða hrófli ekki við grundvallarþáttum núgildandi laga um grunnskóla. Ég tel að við þá löggjöf hafi á marga lund mjög vel til tekist og að undirbúningi hennar var unnið með nokkuð óvenjulegum hætti að mörgu leyti. Það var víðtækara samráð við fjölda manns í landinu, skólamenn, sveitarstjórnarmenn og marga fleiri, við undirbúning grunnskólalaganna á sínum tíma og ég tel að það hafi verið mjög góð vinnubrögð sem þar voru viðhöfð og uppskeran hafi verið góð. En þó er það svo að ástæða er til, eins og hér hefur komið fram og margoft hefur verið ályktað um, að endurskoða ákveðna þætti í ljósi fenginnar reynslu og raunar beinlínis að því vikið í lögunum sjálfum að svo skuli gert.

Það er ekki ástæða hér og nú að fjölyrða um einstök efnisatriði þessa máls. Til þess verður tækifæri þegar frv. um breytingar á grunnskólalögum kemur fram. Ég veit að það er áhugamál margra, og ekki síst þeirra sem að skólamálum vinna, að þetta verk verði unnið á vegum Alþingis fyrr en seinna og minni m.a. á ályktun frá Kennarasambandi Íslands þar að lútandi. Ég vænti þess að það megi takast góð samvinna um breytingar á þessari mjög svo þýðingarmiklu löggjöf til eflingar grunnskólanum og til að efla lýðræðislegt inntak í skólastarfi á þessu skólastigi og svo þarf vissulega að verða einnig á öðrum skólastigum.