13.02.1985
Efri deild: 43. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2877 í B-deild Alþingistíðinda. (2360)

198. mál, útvarpslög

Flm. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég skil mætavel að þingheimi leiðist að hlusta á tveggja manna tal hér í deildinni eins og umr. um þetta frv. er nú orðin. Hv. þm. Eiður Guðnason lætur mér alla sína samúð í té. Þetta er fallega sagt en fyrir hana hef ég enga þörf og afþakka samúð hv. þm. (Gripið fram í: Er það ekki fallega gert?) Sælla er að gefa en þiggja, stendur einhvers staðar.

Hv. þm. heldur áfram að nota lýsingarorðið „vitlaus“ við öll hugsanleg tækifæri og ég er þegar búin að svara þeirri gagnrýni. Hann dregur DV-ritstjórann eina ferðina enn inn í málið. Ég var rétt áðan búin að svara því atriði fyrir mitt leyti og lét þess getið að Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins hefði svarað því fyrir sitt leyti.

Eins og hv. þm. nefndi réttilega færði ég hér við framsögu þessa frv. Kvennalistakonunum Elínborgu Stefánsdóttur og Ingibjörgu Hafstað sérstakar þakkir fyrir þá alúð sem þær lögðu í samningu þessa frv. Vissulega er það laukrétt hjá hv. þm. að Kvennalistakonan Elínborg Stefánsdóttir er líka starfsmaður Ríkisútvarpsins. En hún er varla Ríkisútvarpið sjálft eins og það leggur sig. Mikill er þá orðinn máttur Elínborgar Stefánsdóttur ef hún ein getur talist samnefnari allra starfsmanna útvarps hér á landi. Að halda slíku fram, að þótt starfsmaður komi nálægt samningu frv. um efni sem tilheyrir hans starfssviði, þá sé frv. þar með samið af stofnuninni nær vitaskuld ekki nokkurri einustu átt. (EG: Þm. verður að lesa ræðu mína.)

Eftir því sem ég heyrði best sagði þm. að frv. væri komið úr Ríkisútvarpinu. Frv. er ekki komið þaðan. Það er komið úr Kvennalistanum.

Sú þinglega meðferð sem hv. þm. leggur til að þetta mál fái, þ.e. hægt andlát í nefnd, eins og hann nefnir það, sýnir best hversu lýðræðisleg vinnubrögð þessa hv. þm. eru og eru þm. vart til sóma.