13.02.1985
Efri deild: 43. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2880 í B-deild Alþingistíðinda. (2367)

280. mál, rétt skil afurðasölufyrirtækja til bænda

Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Till. til þál. um rétt skil afurðasölufyrirtækja til bænda er auk mín flutt af hv. þm. Eiði Guðnasyni, Stefáni Benediktssyni og Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur. Hún fjallar um það að Alþingi ríkisstj. að hlutast til um að afurðasölu- og verslunarfyrirtæki, sem ekki hafa staðið bændum full skil á greiðslum, geri það nú þegar og að jafnframt yrði þeim bændum, sem sækja vildu rétt sinn að lögum, veitt gjafsókn. Þetta mál hefur ekki í þessum búningi verið rætt mikið á Alþingi, en hins vegar er nú hartnær áratugur síðan á því var vakin athygli að bændur fengju ekki í hendur þá fjármuni, sem þeim væru ætlaðir af löggjafans hálfu og af stjórnvalda hálfu, bankakerfinu o.s.frv., fyrr en þá e.t.v. seint og um síðir.

Það var lengi barist fyrir því að afurða- og rekstrarlán til landbúnaðarins yrðu greidd bændum beint og jafnframt að niðurgreiðslu- og uppbótafé yrði greitt beint til bændanna, a.m.k. að vissu marki. Það eru nú liðin nærri því sex ár síðan Alþingi samþykkti að afurða- og rekstrarlán skyldu ganga beint til bænda eða, eins og það er orðað, að „bændur skyldu fá þessa fjármuni í hendur um leið og lánin væru veitt“. Það var fimm ára afmæli þessarar ályktunar 22. maí á s.l. ári. Árlega hefur verið eftir því gengið að staðið yrði við þessi fyrirmæli Alþingis, en Alþingi hefur verið vanvirt allan þennan tíma, bankakerfið og stjórnvöld hafa ekkert mark tekið á fyrirskipunum Alþingis. Þess vegna er enn spurt í Sþ. um framkvæmd þessara mála nú og kemur væntanlega til umr. þar áður en langt um líður.

Það er að vísu svo að landbúnaðarlöggjöfin er í meginefnum stórgölluð. Hún er frumskógur sem naumast nokkur lögfræðingur getur komist í gegnum, hvað þá bændur eða aðrir þeir sem ekki hafa notið laganáms. Þessi löggjöf hefur í mjög mörgu skaðað landbúnaðinn og gerir enn. Tilgangurinn með flutningi þessa máls er að sjálfsögðu sá að rétta hlut bænda. Við skulum minnast þess að það eru yfir 50 ár frá því að lög voru sett um greiðslu kaupgjalds í peningum til sjómanna og verkafólks, lög nr. 22 frá 1930. Enn þann dag í dag er engin trygging fyrir því að bændur fái í hendur sín laun, hvað þá fyrir sína fjárfestingu o. s. frv., og í mörgum tilfellum er það svo að minni bændur fá hvergi nærri þau laun sem þeim eru ætluð af svokallaðri sexmannanefnd og stjórnvöldum.

Öðrum þræði er þessi till. flutt til að reyna að fá upplýsingar frá því sem ég hef leyft mér, og við flm., að kalla leyndarráð landbúnaðarkerfisins. Það er furðulegt hve lítið liggur fyrir af upplýsingum um hvernig afurðasölufyrirtæki standa bændum skil á því sem ætlast er til að bændur fái. Lagagrundvöllurinn kann að vera eitthvað vafasamur. Ég er ekki að halda því fram hér eða við flm. að eitthvað saknæmt hafi verið framið í sambandi við þennan drátt á greiðslum, en hitt er ljóst að ekki er farið að vilja Alþingis, a.m.k. ekki að því er varðar afurða- og rekstrarlánin, og að bændur ná ekki þeim rétti sem þeim hefur verið ætlaður og áskilinn. Þess vegna verður það starf þeirrar hv. þingnefndar sem væntanlega fær málið til umfjöllunar, og ég legg til, hæstv. forseti, að það verði fjh.- og viðskn., finnst það eðlilegast, að ganga eftir upplýsingum um öll þessi mál. Ég er fyrir fram ekki að gera því skóna að við fáum ekki þessar upplýsingar. Ég hygg að við munum fá þær bæði frá Framleiðsluráði, Stéttarsambandi bænda, bönkum og öðrum sem hugsanlega geta greitt úr þessari flækju. Ég held að það hljóti að vera öllum, bæði afurðasölufyrirtækjunum, bændum og landslýð öllum, til heilla að upplýsa þessi mál algjörlega. Ég á því ekki von á öðru en að þessi till. muni verða samþykkt einróma hér í hv. Ed.