13.02.1985
Efri deild: 43. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2882 í B-deild Alþingistíðinda. (2369)

280. mál, rétt skil afurðasölufyrirtækja til bænda

Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Davíð Aðalsteinssyni fyrir ræðu hans áðan. Það hefur aldrei að mér hvarflað að halda að sá þm. vildi ekki að réttarstaða bænda væri grandskoðuð og því síður að mér hvarflað að bændur gætu átt á þingi öllu betri fulltrúa en einmitt hann. Þegar alltaf er verið að ráðast að Alþingi er kannske gaman að rifja það upp, þegar sagt er að Alþingi sé ómerkilegra nú en nokkru sinni áður, að þessi tónn heyrðist ekki fyrir tíu árum þegar farið var að berjast fyrir þessum sömu hagsmunum. Þá var það tekið sem árás á bændastéttina, sölukerfi hennar o.s.frv. Það hefur orðið framför í þessu efni á síðasta áratug. Nú er hægt að rökræða um málið, tala um það skynsamlega og án allra öfga. Það gerði hv. þm. hér og ég er honum svo sannarlega þakklátur, enda átti ég alls ekki von á neinu öðru. Ég hef kynnst honum það vel.

Það er sagt að allar afurðirnar séu í umboðssölu. Því hefur verið haldið fram æðilengi. En ef svo er held ég að það liggi líka fyrir að afurðasölufélögin setji veð í eignum sem þau alls ekki eiga. Ég held að bankakerfið hafi yfirleitt ekki veð fyrir einu eða neinu, þessum gífurlegu fjárhæðum, milljörðum á milljarða ofan. Það varð um þetta almenn umræða á s.l. vori þar sem lögfræðingur Landsbankans játaði berum og óberum orðum að ég hefði haft rétt fyrir mér í því efni allan tímann að það eru alls ekki nokkur veð fyrir þessum skuldum og ef afurðasölufélag færi á hausinn, mundu bankarnir hreinlega tapa þessum peningum. Þannig er nú kerfið allt saman.

Ég ætla ekki að leggja á þetta neinn lagadóm. En að því er varðar að það yrðu mörg mál sem höfða yrði og þess vegna gæti gjafsóknin orðið dýr ríkisvaldinu, þá held ég að það gæti aldrei orðið. Ég held að það mundi verða bara einhver einn sem færi í mál fyrir alla, það yrði prófmál, og þannig fengist úr þessari lagaflækju skorið.

Það er ekki rétt skilið að ég ætlist ekki til að till. verði samþykkt, en auðvitað ekki án skoðunar og sem formaður fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar lofa ég því að hún skal fá ítarlega skoðun.

Ég vona þá líka að ekki standi á svörum hjá þeim sem upplýsingar geta veitt. Ég hef einhvern tíma sagt áður að menn mega ekki vera svo hræddir við sannleikann að vilja ekki leita hans. Það hefur gerst í landbúnaðarmálunum. Menn hafa neitað að leita sannleikans, sem raunar liggur ljós fyrir öllum bændum, af því að þeir hafa vitað að þeir mundu finna hann. Óumdeilt er það að gífurlegir fjármunir hafa verið í veltu verslunarfyrirtækjanna og afurðasölufyrirtækjanna sem sagt er að bændur eigi. Nú eiga bændur auðvitað ekki einir kaupfélögin. Það eru 40 þús. manns í samvinnuhreyfingunni, er manni sagt, en 4 þús. bændur svo að þetta er náttúrlega allt meira og minna út í bláinn. En ég hygg að svona skoðun gæti leitt til þess að þetta kæmi allt saman í ljós. Og ég held að hv. þm. Davíð Aðalsteinsson, miðað við það sem hann hér sagði, muni í rauninni ekkert hafa á móti því að eitt prófmál yrði rekið, kannske bara með útdrætti, þannig að það verði ekki sagt að verið sé að ráðast á eitt afurðasölufélagið öðrum fremur, og láta þá fyrir dómstólum á það reyna hvernig þetta kerfi er í rauninni í framkvæmd og hvað er rétt og hvað er rangt. A.m.k. hljótum við að komast að þeirri niðurstöðu að núna, að rúmri hálfri öld liðinni, séu bændum tryggð með löggjöf sömu réttindi og sjómönnum og verkamönnum. Auðvitað var það svo í gamla daga að það var innskriftarkerfi gagnvart sjómönnum og verkamönnum. Menn urðu að fara til kaupmannsins eða kaupfélagsins og krjúpa til þess að fá úttekt. Þeir fengu aldrei eyri í hendur.

Og það er auðvitað reginmunur á því þó að það sé góðra gjalda vert að Kaupfélag Borgfirðinga færi inn á reikningana afurðalánin eða rekstrarlánin, og reyndar einungis rekstrarlánin, inn á reikninga manna. (Gripið fram í.) Já, forspilið. Það veit ég. Ég þekki þetta ekki lítið. Hitt er meginmálið að auðvitað á bóndinn sjálfur að fá féð í hendur. Það á að veita honum það þannig að hann geti farið til kaupfélagsstjórans með seðilinn í hendinni þegar hann ætlar að kaupa. — Raunar þarf hann ekki að heilsa upp á kaupfélagsstjórann. Hann getur bara talað við afgreiðslustúlku rétt eins og við hinir. Hann þarf ekkert að biðja kaupfélagsstjórann um að fá peningana sína.

Þetta er mjög niðurlægjandi fyrir bændur og sérstaklega efnaminni bændur. Þeir sem meira mega sín eru kannske ekkert niðurlútir þegar þeir bíða á biðstofunni og ganga inn til kaupfélagsstjórans. En hvað um hina? Af hverju mega þeir ekki fá peningana sína? Mergurinn málsins er að bændastéttin er ekki frjáls á meðan við búum við þetta kerfi. Þess vegna trúi ég því og treysti að hv. þm. láti nú af því verða í eitt skipti fyrir öll að uppræta þetta kerfi, koma á staðgreiðslukerfi svo að bændur fái sína peninga í hendur, a.m.k. launin sem þeim eru ætluð í grundvellinum svokallaða.

Ég held að ég þurfi ekki að hafa um þetta öllu fleiri orð. Við fáum þetta úr n. væntanlega og áreiðanlega kemur það með einhverjum hætti aftur til umr. hér.