23.10.1984
Sameinað þing: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

41. mál, framhaldsskóli

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Nær átta ár eru nú liðin frá því að fyrst var flutt hér á Alþingi frv. til l. um framhaldsskóla og síðan hefur frv. um þetta efni verið lagt fram fimm sinnum með nokkrum breytingum hverju sinni. Síðast kom frv. um þetta efni fram á 105. löggjafarþingi 1982–1983, flutt af Ingvari Gíslasyni þáv. menntmrh.

Með þessum frv. var stefnt að heildarlöggjöf um samræmdan framhaldsskóla sem opinn sé öllum sem lokið hafa grunnskóla eða sem náð hafa 19 ára aldri. Framhaldsskólinn skyldi skipulagður sem ein heild sem greinist í nokkur meginnámssvið sem hvert um sig deilist í námsbrautir. Nám á hverri námsbraut miði að almennri menntun og undirbúningi til framhaldsnáms eða sérhæfingu til starfs. Námslok geti orðið eftir 1., 2., 3. eða 4. ár og markaðar verði leiðir til framhaldsnáms á öllum brautum. Nám í framhaldsskóla skv. hugmyndum þessarar síðustu útgáfu frv. um framhaldsskóla skyldi skipulagt í námsáföngum og hver áfangi sé metinn til eininga. Með námsskrám skuli mörkuð meginstefna í námi og þjálfun nemenda, hvort sem nám fer fram í skóla eða á vinnustað. Auk skóla var gert ráð fyrir að skólaverkstæði og fyrirtæki eða stofnanir séu vettvangur náms eða svokallaðir námsstaðir. Fræðsluráð grunnskóla skyldu einnig fjalla um málefni framhaldsskóla hvert í sínu fræðsluumdæmi og skv. þessu frv., sem flutt var á þinginu 1982–83, var gert ráð fyrir að fela mætti fræðsluskrifstofum verkefni við stjórnun framhaldsskóla í viðkomandi umdæmi. Þá skyldi stefnt að því að sem fjölbreyttast val námsbrauta verði í hverjum landshluta.

Skv. frv. um framhaldsskóla, frv. sem lagt var fram í tíð síðustu ríkisstj., var menntmrn. ætlað að gera áætlun til fimm ára um skipan námsbrauta á framhaldsskólastigi og um framkvæmdir til að koma þeirri skipan á að fengnum tillögum m.a. frá fræðsluráðum í hverju fræðsluumdæmi. Það var kveðið á um að í fyrstu fimm ára áætlun af þessu tagi yrði sérstök áhersla lögð á eflingu verknámsbrauta.

Í síðasta frv. voru hins vegar ekki ákvæði um breytingar á skólakostnaði frá gildandi lögum og gert ráð fyrir sérstökum lögum er tækju á fjármálaþættinum. Þetta frv. fékk litla umfjöllun af hálfu þingsins, enda dró þá til kosninga.

Æ tilfinnanlegra verður með hverju ári sem líður að Alþingi skuli ekki setja lög um framhaldsskólastigið. Þetta skapar óvissu fyrir alla sem við þetta skólastig starfa og hefur áhrif á skólastarf á öðrum skólastigum, bæði á grunnskóla- og á háskólastigi. 3. fulltrúaþing Kennarasambands Íslands ályktaði um þetta efni í júní s.l. og skoraði þar á Alþingi að afgreiða sem fyrst, og eigi síðar en vorið 1985, samræmda löggjöf um framhaldsskóla. Þetta þing KÍ lagði þunga áherslu á að verkmenntunin, bæði til lands og sjávar, verði metin að verðleikum og sitji við sama borð og annað framhaldsskólanám.

Setning laga um framhaldsskóla er stórmál sem óhjákvæmilega þarf að fá vandaða meðferð af hálfu þingsins og því væri æskilegt að frv. þar að lútandi kæmi sem fyrst fram hér í þinginu. Ég hef því leyft mér að beina eftirfarandi fsp. til hæstv. menntmrh.:

„1. Hvað líður undirbúningi á vegum menntmrn. að löggjöf um framhaldsskóla?

2. Hver eru meginstefnumið ráðh. varðandi slíka löggjöf um nám á framhaldsskólastigi?“