13.02.1985
Efri deild: 43. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2887 í B-deild Alþingistíðinda. (2373)

291. mál, umferðarlög

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Hv. síðasti ræðumaður er nú raunar orðinn fylgismaður þessa máls og fagna ég því. (VI: Stuðningsmaður þess.) Já, hann er stuðningsmaður þess og er þar orðin allveruleg breyting á, enda er frv. svolítið breytt frá því sem það var flutt í fyrra. (VI: Eins og ég vildi hafa það.) Ég held að það sé staðreynd að notkun ljósa yfirleitt hefur aukist mjög verulega. Ég tek a.m.k. eftir því á þeirri leið sem ég ek rétt að segja vikulega fyrir Hvalfjörð að það eru fleiri bílar en færri sem ég mæti, enda þótt ég fari þar um þegar bjart er, og eru með fullum ljósum.

Ég vil aðeins vekja athygli á 2. gr. þessa frv. þar sem vikið er að skólabifreiðum. Ég ætla síður en svo að draga úr mikilvægi þess að þær séu rækilega merktar og mikil aðgát sé viðhöfð í nálægð þeirra allra hluta vegna. En hér stendur, með leyfi forseta:

„Bifreiðar, sem notaðar eru til að flytja skólabörn, skulu vera sérstaklega auðkenndar með þar til gerðum skiltum. Ökumönnum, sem koma á eftir eða móti slíkri bifreið, ber að stöðva ökutæki sín á meðan skólabörnum er hleypt út eða þau eru tekin upp í bifreiðina.“

Að vísu er gert ráð fyrir því að um þetta verði nánar kveðið á í reglugerð. Í því sambandi ber auðvitað að taka fram við þá reglugerðarsmíð við hvaða aðstæður menn verða að lúta þessari lagagrein, hvenær skal stöðva bifreið, einu gildi hvort henni er ekið á eftir eða á móti skólabifreið. Aðstæður eru auðvitað mjög misjafnar. Það er ólíku saman að jafna akbrautum með einstefnu og útskotum og akbrautum með akstursstefnu í tvær áttir, engum útskotum, engri aðstöðu fyrir skólabifreiðar til þess að hleypa börnum inn í skólabílinn og út úr honum. Þarna verða menn að setja fram í reglugerð mjög skýr ákvæði svo að á því leiki enginn vafi hvaða reglur gilda.

Ég segi fyrir mitt leyti að ég hefði fremur kosið að þetta frv. hefði komið fram og verið samþykkt í upphaflegri mynd. Með tilliti til þess, sem ég sagði í upphafi minnar stuttu ræðu, hef ég trú á því að áður en langur tími líður aki menn með fullum ljósum og gildir þá einu hvort það er slík veðurblíða sem á þessum degi.