13.02.1985
Efri deild: 43. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2888 í B-deild Alþingistíðinda. (2375)

291. mál, umferðarlög

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. er kunnugt hefur um alllangt skeið staðið yfir endurskoðun umferðarlaga. Það mál er svo langt komið nú að frv. að nýjum lögum er fullprentað og verður væntanlega lagt hér fram á Alþingi á morgun. Ég mun því ekki ræða efnislega það sem í þessu frv. felst, en láta í ljós ánægju mína yfir þeim áhuga sem hv. þdm. hafa á umferðarmálum og því að reyna að færa það til betri vegar sem stuðla má að bættri umferð. Það er jákvætt að þessi mál hafa verið skoðuð svo ítarlega hér í deildinni áður og ætti að greiða fyrir því að hægt væri að afgreiða fyrr hið endurskoðaða frv. til umferðarlaga sem ég vænti að hægt verði að afgreiða á þessu þingi þar sem alllangur tími er til stefnu og þá sérstaklega með tilliti til þess hvað þessi mál hafa verið athuguð vel hér áður.