13.02.1985
Efri deild: 43. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2889 í B-deild Alþingistíðinda. (2378)

291. mál, umferðarlög

Flm. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. þdm. fyrir góðar undirtektir undir þetta frv., jákvæðar undirtektir, og einnig hæstv. dómsmrh. fyrir að upplýsa að nú eigum við von á að heildarendurskoðun umferðarlaganna sjái dagsins ljós á hv. Alþingi með framlagningu frv. í þeim efnum, jafnvel á morgun.

Ég vil taka undir það, sem hv. 8. landsk. þm. sagði einmitt í lok.sinnar ræðu, að e.t.v. sé ekki ástæða til að láta þessi atriði varðandi umferðarlögin bíða ef það kemur í ljós að umfangsmikið mál sé að endurskoða heildarlöggjöfina eða ræða frv. sem verður lagt fram, en mér finnst sjálfsagt að skoða þessi mál samhliða og sjá síðan til hvað skynsamlegast er að gera í þeim efnum. Ég get tekið undir það strax að ef hægt er að koma því í kring er sjálfsagt að heildarlöggjöfin nái fram að ganga á þessu hv. þingi.

Það kom einnig fram í máli hv. 8. landsk. þm., sem ég fagna sérstaklega að hefur að vissu marki tekið sinnaskiptum í þessu máli eins og hv. 4. þm. Austurl. upplýsti að hann hefði gert frá því á síðasta ári og það var einmitt mergurinn málsins, að hún sagðist hafa tekið eftir því að ljósanotkun hefði aukist mikið eftir að hún fór að aka mikið um þjóðvegina. Það er einmitt það sem málið snýst um.

Strax eftir að þetta frv. var upphaflega lagt fram, þ.e. þegar ég lagði fram frv. á 105. löggjafarþingi þar sem það fékk nokkra umfjöllun og var gagnrýnt af mörgum, sérstaklega í fjölmiðlum, fór að bera á vaxandi ljósanotkun. Menn fóru að veifa þessu eftirtekt og það skapaði umræður. Síðan hefur þetta verið að þróast í rétta átt og ljósanotkun aukist mjög mikið, góðu heilli. Ég held að það staðfesti einmitt að verið sé að stefna í rétta átt.

Hv. 3. þm. Vesturl. gat þess að eins og frv. væri lagt fram núna væri það í þá veru sem hann hefði lagt til í brtt. við afgreiðslu frv. héðan úr Ed. á síðasta þingi. Það er alveg rétt. Þetta er þó ekki gert vegna þess að ég sé þeirrar skoðunar að rangt hafi verið að staðið með því að ganga svo langt að segja að nota ætti ökuljós allan sólarhringinn allan ársins hring, heldur er það af tillitssemi við þá sem eru ekki enn þá alveg tilbúnir að aðlaga sig þessu hlutverki, eins og ég sagði í ræðu minni áðan. (Gripið fram í.) Já, að kveikja alltaf ljósin. Þeir fá þá aðlögunartíma. Ég er sannfærð um að ef þetta frv. nær fram að ganga líður ekki á löngu áður en það verður jafnvel orðin algeng venja að nota ljósin að sumrinu til. Jafnvel á fögrum sólskinsdegi eins og í dag, er sama þörfin fyrir ljósanotkun, sérstaklega hér í þéttbýlinu varðandi gangandi vegfarendur.

Ég man eftir því að við ræddum nokkuð um skólabifreiðarnar, hvort e.t.v. væri hættulegt að ganga svo langt, sem greinin gerir ráð fyrir, að um yrði að ræða algera stöðvunarskyldu. Ég vil gjarnan upplýsa hér að það var einmitt af þeim ástæðum að ég skýrði frá því að ég vildi skoða það mál betur að ég fékk bréfið sem ég las upp áðan. Það gerði að verkum að ég sá að hér var verið að fara rétta leið, að það væri um að ræða stöðvun en ekki að gæta varúðar og menn ættu að ákveða sjálfir hvort þeir stöðvuðu bifreiðina eða hægðu á sér eða hvenær þeir stöðvuðu. Þetta var ástæðan. Ég vildi gjarnan láta það koma hér fram.

Ég er alveg sammála því að sjálfsagt er að skoða niðurlag 3. gr. nánar. Ég má segja að niðurlag hennar sé í samræmi við gildandi lög. En ég er alveg sammála aths. þetta varðandi og mér finnst sjálfsagt að n. skoði það og geri brtt. ef ástæða þykir til að því leyti.

En ég vil leggja áherslu á að ef þetta mál nær fram að ganga, þá tel ég að þarna sé hálfur sigur unninn og þá hefur okkur miðað nokkuð langt áleiðis. Ég vil að lokum segja að þetta frv. byggist á tillitssemi við náungann í einu og öllu og þannig eru flm. sjálfum sér samkvæmir og koma til móts við sjónarmið þeirra sem enn hafa ekki sannfærst um notkun ökuljósa, jafnvel í fögru sólskinsveðri eins og í dag, og vilja þess vegna leyfa þeim að ráða því hvað þeir gera á slíkum dögum á tímabilinu frá 1. maí til 1. sept.