13.02.1985
Neðri deild: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2895 í B-deild Alþingistíðinda. (2383)

275. mál, almannavarnir

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. dómsmrh. hefur lagt fram og mælt fyrir því frv. sem hér er til umr. Það er frá því að segja að sá sem hér stendur var form. þeirrar nefndar sem á sínum tíma vann að breytingum á lögum um Almannavarnir ríkisins. Eins og kemur fram í fskj. þessa frv. vann nefndin að þessu starfi skv. þáltill. sem samþykkt var einróma á hv. Alþingi. Erindi nefndarinnar var fyrst og fremst að vinna að eflingu almannavarna. Nefndin skilaði áliti sem var á þann veg að gert var ráð fyrir að sett yrðu ný lög um almannavarnir og það skýrir það hvernig á því stendur að allt önnur greinaröð er í till. nefndarinnar en koma fram í frv. hæstv. ríkisstj., en frv. ríkisstj. er frv. til breytingar á lögum frá 1962 um almannavarnir. Nefndin skilaði enn fremur till. um önnur atriði þ. á m. um þróun og fjárhagsáætlun fyrir almannavarnir næstu árin, eða allt til ársins 1995, þ.e. 10 ára áætlun. Að auki skilaði nefndin inn hugmyndum sínum um önnur atriði, drög að reglugerðum. Enn fremur kom frá nefndinni hugmynd um það að sett yrði á laggirnar nefnd sú sem hv. síðasti ræðumaður minntist á.

Ég þarf ekki, herra forseti, að fara mörgum orðum um það frv. sem hér liggur fyrir, né heldur að gera grein fyrir störfum nefndarinnar. Það er gert mjög ítarlega í fskj. með frv. En ég tel þó ástæðu til að benda á að till. nefndarinnar, sem vann að þessu frv., var sú að sett yrði ráðgjafarnefnd, eins og hv. síðasti ræðumaður benti á í sinni ræðu, og sú nefnd átti að vera almannavarnaráði til ráðgjafar eða ráðuneytis um endurskoðun á heildaráætlun um almannavarnir gegn hugsanlegri kjarnorkuvá og mögulegri beitingu eiturefna. Á sínum tíma var gerð ítarleg könnun á þessum málum hérlendis, en síðan hefur það starf legið niðri. Það er ekki gert ráð fyrir því að þessi nefnd skili till. sínum ill Alþingis eða ríkisstj., heldur verði almannavarnaráði til ráðuneytis. En auðvitað er það sjálfsagt og eðlilegt að alþm. hafi aðgang að hugmyndum og ráðgjöf þessarar nefndar sem væntanlega verður komið á laggirnar.

Þau atriði sem hv. síðasti ræðumaður drap á og snerta þýðingar Ásmundar Ásmundssonar, sem var einn nefndarmanna, og koma fram sem fskj. við nál. þeirrar nefndar sem þingið kaus á sínum tíma til að endurskoða lögin, eru auðvitað birtar hér á hans ábyrgð. Þetta eru þýðingar Ásmundar Ásmundssonar og má þó ekki skilja orð mín þannig að þar sé hallað máli.

Hitt er svo annað mál að það er alþekkt að uppi eru tvær kenningar, meginstefnur, er varða það hvort byggja eigi skýli til að verjast hernaðarvá, hvort heldur er um venjulegan hernað að ræða eða kjarnorkustríð. Langflestar þjóðir, þ. á m. Norðurlandaþjóðirnar og flestar aðrar Evrópuþjóðir, leggja mikið upp úr slíkum öryggisbyrgjum, en fyrst og fremst í Bandaríkjunum hefur borið á því að lítið sé gert úr byrgjum á borð við þau sem hér er um að ræða. Ástæðurnar eru tvenns konar. Í fyrsta lagi eru það aðilar sem halda því fram að lítið gagn sé í slíkum byrgjum og þau veiti falska öryggiskennd, en hins vegar er sú skoðun uppi, sem er mjög skyld þeirri sem ég var nú að lýsa, að það eigi fremur að leggja áherslu á virkar varnir, kjarnorkuvarnir, og þess vegna sé óþarfi að halda úti og byggja upp byrgi eins og lagt er til að gert verði hér á landi og gerist víðast í heiminum. M.ö.o., þær þjóðir, sem verja sig með kjarnorkuvopnum, t.d. Bandaríkjamenn, leggja fremur upp úr því að hægt sé að fæla aðrar þjóðir frá því að gera kjarnorkuárás á landið vegna þess að þeim verði svarað í sömu mynt og þess vegna sé verið að kasta peningum á glæ ef verið sé að byggja upp byrgi til þess að verja fólk fyrir hugsanlegri kjarnorkuárás.

Fyrir aðrar þjóðir, sérstaklega þó þær sem ekki hafa kjarnorkuvopn í landi sínu, gegnir allt öðru máli. Það kann að vera full ástæða til þess fyrir okkur og þjóðir í okkar nágrenni að huga að því að kjarnorkustríð getur brotist út þannig að sprengjur springi í mikilli fjarlægð frá landinu. Við slík skilyrði koma byrgi að fullum notum að talið er. Hins vegar geta allir sagt sér sjálfir að ef um allsherjar stríð verður að ræða þar sem kjarnorkuvopn eru notuð er mjög ólíklegt að mannkyn eða annað líf. á jörðinni lifi það af.

Þetta held ég, herra forseti, að þurfi að koma skýrt fram. Þetta kynnti nefndin sér á sínum tíma. Það er ljóst, eins og kemur fram í þeim ritum sem Ásmundur Ásmundsson hefur safnað og birt með nál. og þó sérstaklega sínum fyrirvara, að þau sjónarmið eru uppi í heiminum, þó sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem varnir eru með öðrum hætti en víðast annars staðar. Hins vegar hafa okkar nágrannaþjóðir, Evrópuþjóðir, t. a. m. Svíar, Svisslendingar o.fl., lagt gífurlegt kapp á að byggja upp kerfi sem grundvallast á því að hægt sé að skýla fólki sé um að ræða hernaðarárás og jafnvel þótt kjarnorkuvopnum sé beitt.

Þetta held ég, herra forseti, að þurfi að koma fram, ekki síst vegna þeirrar ræðu sem hv. síðasti ræðumaður flutti hér áðan.