13.02.1985
Neðri deild: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2897 í B-deild Alþingistíðinda. (2384)

275. mál, almannavarnir

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð. Ég tel ekki ástæðu til þess að eyða tíma þingsins í rökræður um þetta. Það verður fjallað nánar um þetta mál í nefnd. Það eru bara tvö atriði. Hv. síðasti ræðumaður tók fram að það væru skiptar skoðanir um byggingu öryggisbyrgja í hernaði, þ.e. bæði hefðbundnum og kjarnorku. Það er algjör eðlismunur á svo kölluðum hefðbundnum hernaði og kjarnorkuhernaði. Það er grundvallar eðlismunur á þeim vopnum sem notuð eru. Og það er eitt atriði sem ég vildi vekja athygli hv. þm. á. Það eru niðurstöður veðurfræðinga og eðlisfræðinga og annarra vísindamanna sem hafa komið í ljós á s.l. einum til tveimur árum og menn eru sammála um austan hafs og vestan. Og þeim mun meira sammála þeim mun meira sem þeir hafa afhugað málið. Þessar niðurstöður sýna að það þarf ekki nema lítinn hluta af þeim kjarnorkuvopnum sem til eru til þess að gera jörðina þannig að það er ekki búandi á henni. Hvorki inni í öryggisbyrgjum né utan þeirra, vegna þess að gróður og dýralíf eyðist. Og þau eyðast vegna þess að hitastig jarðarinnar fellur. Hitinn lækkar vegna þess að reykur frá sprengjunum byrgir sólu og varnar sólarljósinu frá því að komast til jarðarinnar. Ég mun með glöðu geði gefa hv. 2. þm. Reykv. margar greinar um þessi efni til þess að kynna sér. (FrS: Ég á nóg af greinum.) Þess vegna er það fjáraustur og þar að auki fáránlegt að ræða um byggingu slíkra skýla til að verjast kjarnorkuvá.

Ég er ekki að mótmæla byggingu annarra skýla, t.d. til þess að verjast náttúruhamförum, alls ekki.