13.02.1985
Neðri deild: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2913 í B-deild Alþingistíðinda. (2392)

175. mál, verndun kaupmáttar

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég held að það hafi verið gagnlegt að þessi umr. fór fram. Ég þakka hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni fyrir að hann skuli hafa tekið þátt í henni með þeim hætti sem hann hefur gert. Að undanförnu hefur Alþb. eins og kunnugt er gert tilraun til að hefja viðræður við aðra stjórnarandstöðuflokka. Til þessa höfum við ekki fengið mikil svör utan neitun frá Bandalagi jafnaðarmanna, sem er ekki við hæfi að taka til umr. hér og nú, en það er bersýnilegt að formaður Alþfl. er tilbúinn að hefja viðræður við Alþb. Því fagna ég og ég er tilbúinn að láta þær fara fram hvar sem heppilegt þykir eftir atvikum. Það geta verið þau fundahúsnæði sem hann nefndi eða einhver önnur. Slíkt gætum við örugglega komið okkur saman um.

Varðandi hans málflutning, þá finnst mér að það hafi verið vandamál Alþb., Sósíalistaflokksins og Alþfl. á undanförnum áratugum að þessir flokkar hafa gjarnan hugsað sína pólitík út frá því með hvaða hætti þeir mundu haga samstarfi sínu við annan hvorn þeirra flokka sem nú eiga aðild að ríkisstjórn Íslands. Ég held að þarna þurfi að skipta um forrit. Ég held að þeir flokkar sem hafna sjónarmiðum afturhaldsflokkanna þurfi að venja sig á að hugsa stjórnmálin út frá þeirri nýju sýn sem Alþb. hefur bent á, að skapa hér forsendur fyrir nýju landsstjórnarafli þannig að unnt sé að mynda hér í landinu ríkisstj. án þess að fésýsluflokkarnir, sem núna stjórna landinu, hafi þar forustu. Ég held að það sé markmið sem eigi að starfa að á næstu árum og áratugum kannske og ég fullyrði: Það er ekkert verkefni brýnna í íslenskum stjórnmálum um þessar mundir en að skapa slíkt stjórnmálaafl sem hefur í fullu tré við afturhaldið.

Framsfl. hefur fyrir löngu og sérstaklega eftir stjórnarmyndunina 1983 sagt sig úr þeim félagsskap. Hann er í rauninni ekki á blaði sem úrræði vinstri manna og félagshyggjufólks í þessu landi, því miður. Það er liðin tíð. Af því að hv. þm. vék aðeins að samstarfi okkar við framsóknarmenn, þá vil ég minna á að á árunum 1958–1971 voru þessir flokkar tveir, Alþb. og framsókn, saman í stjórnarandstöðu og það hafði vitaskuld áhrif á myndun ríkisstjórnar 1971 og svo aftur 1978. Eftir 1983 hefur Framsfl. hins vegar stigið alfarið út úr þessu fari, að mínu mati.

En það er ekki þetta sem skiptir mestu máli frá mínum bæjardyrum séð í viðtölum við Alþfl. Það sem skiptir mestu máli er að þessir tveir flokkar geti snúið bökum saman um að mynda í landinu nýtt landsstjórnarafl sem hefur í fullu tré við afturhaldið og getur haft forustu um myndun stjórnar í þessu landi án þess að fésýsluflokkarnir ráði þar úrslitum eins og þeir hafa gert. Það er kominn tími til að gefa þeim frí, eins og hv. þm. Albert Guðmundsson, núv. hæstv. ráðh., orðaði það um Framsfl. fimm dögum fyrir kosningar vorið 1983.