13.02.1985
Neðri deild: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2913 í B-deild Alþingistíðinda. (2393)

175. mál, verndun kaupmáttar

Þorsteinn Pálsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr. mjög. Ég vil aðeins vekja athygli á því að það er að verða fastur liður í sölum Alþingis að einu sinni til tvisvar í viku eru settar á svið miklar umr. milli Alþb. og Alþfl. Þessir tveir aðalflokkar stjórnarandstöðunnar taka sem sagt orðið upp meginhluta fundartímans til innbyrðis átaka og það er um margt athyglisvert hvernig komið er fyrir stjórnarandstöðunni.

Formenn Alþb. og Alþfl. hafa hér átt orðastað um þessi miklu átök sem eiga sér nú stað á milli flokkanna. Alþb. hefur nýlega boðist til þess að hafa forustu fyrir stjórnarandstöðunni og sameina vinstri öflin í landinu. Alþfl.-menn hafa skrifað öðrum flokkum bréf og kosið sértaka viðræðunefnd til þess að annast þennan samruna. Svarið sem viðræðunefndin fær er alls staðar nei og það eina sem situr eftir af þessu mikla frumkvæði er þessi nefnd sem hefur ekkert annað að gera en að sitja í flokksskrifstofu Alþb.

Alþfl. hefur haft uppi svipaðar tilraunir, að vísu með meira auglýsingayfirbragði, enda virðast auglýsingaskrifstofur og umboðsmenn skemmtikrafta eitt aðalaflið innan þess stjórnmálaflokks. Hafa þeir Alþfl.-menn með rauðum rósum reynt að laða aðra flokka til samstarfs við sig og ekki fengið annað til baka en fræ í pokum. Þannig er hin raunverulega aðstaða í stjórnarandstöðunni.

Meginhluti þessarar umr. gengur út á innhverfa íhugun stjórnarandstöðunnar, ekki um aðstæður í landinu í dag, ekki um það hver séu vandamál þjóðfélagsins í augnablikinu né heldur hvað eigi að taka við, hvernig eigi að byggja upp öflugt þjóðfélag á Íslandi. Öll þessi umr. gengur út á það hvernig þeim hafi nú gengið að starfa saman áður fyrr, hversu það hafi nú verið slæmt í Rauðku, í vinstri stjórninni 1956. Þetta er allt saman innhverf íhugun fortíðarinnar. Og svo- ætlast þessir forustumenn stjórnarandstöðunnar til þess að fá fylgi fólksins í landinu. Ég held að það hafi sjaldan komið betur fram og með jafnaugljósum hætti að þessir flokkar eru ekki til þess fallnir, eins og umr. forustumanna þeirra falla, að hafa forustu fyrir þeim verkefnum sem nú blasa við í íslensku þjóðfélagi.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa þessi orð miklu fleiri. En það var nauðsynlegt að vekja athygli á þessari á margan hátt skemmtilegu umr. Þeir voru furðu lostnir á því formenn Alþfl. og Alþb. að þeir skyldu ekki hafa nálgast hvorn annan með bardagaaðferðum þeim sem kenndar eru við hana. Þeir gerðu það hins vegar með þeim lögmálum sem kennd eru við refi og fer vel á því. (GHelg: Forseti. Hvaða dagskrármál er á ferðinni?) (Forseti: Verndun kaupmáttar, 2. dagskrármálið.)