13.02.1985
Neðri deild: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2914 í B-deild Alþingistíðinda. (2394)

175. mál, verndun kaupmáttar

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Já, það er verndun kaupmáttar á dagskrá, það er rétt að minna hv. þm. á það, og tillögur Alþb. um hvernig skuli fara að því að vernda kaupmáttinn. Það er af þeirri ástæðu sem tilefni gafst sérstaklega til að meta svolítið reynsluna af störfum Alþb. í ríkisstj. við að vernda kaupmátt og síðan að fara nokkrum orðum um þær tillögur sem Alþb. nú leggur til í stjórnarandstöðu að framkvæmdar verði í því skyni.

En orð hv. 1. þm. Suðurl., formanns Sjálfstfl., gefa tilefni til örfárra aths.

Það er ástæða til að bjóða hv. 1. þm. Suðurl. velkominn til stjórnmálaumr. á Alþingi. Það er ákaflega fátítt að hann láti þar nokkuð til sín heyra, eins og menn sáu fyrir sér í sjónvarpsþætti í gærkvöldi.

En það er vandséð hvað hv. þm. er að blanda sér inn í þessa umr. og ákaflega vandséð með hvaða rétti hann er að fara með köpuryrði um tillögugerð annarra um brýnustu vandamál þessarar þjóðar. Það er því miður dapurleg staðreynd og þjóðinni kunn að það sem þessi, enn sem komið er, stærsti flokkur þjóðarinnar hefur helst haft til málanna að leggja að því er varðar brýnustu verkefni þjóðarinnar hefur einmitt verið innanflokksvandamál Sjálfstfl. Mánuðum saman hafa fjölmiðlar þessarar þjóðar talið það vera helstu fríðindin af stjórnarheimilinu hvort það tækist, eins og það er orðað, „að klambra saman stól handa Steina“ hvort það tækist að fá einhvern af núverandi ráðherrum til að rísa upp og bjóða formanni Sjálfstfl. til sætis. Mánuðum saman var þetta það sem stærsti flokkur þjóðarinnar hafði til málanna að leggja.

Þessum dapurlegu málum lauk á þann veg að hinn ungi formaður lýsti því yfir loksins, eftir margra mánaða þóf, eftir margar atrennur að þessari klambursmíð, að inn í þessa ríkisstj. færi hann aldrei. Það bendir a.m.k. til þess að pólitísk dómgreind hv. 1. þm. Suðurl. sé enn í sómasamlegu lagi. Hann gerir sér m.ö.o. ljóst að þessi ríkisstj. er feig og hver sá maður, pólitíska dauðanum vígður, sem hefur tekið að sér að gerast leiðtogi hinnar yngri kynslóðar í Sjálfstfl. á ekkert erindi inn í þessa ríkisstj. Þó að við stjórnarandstæðingar flytjum vantraust á þessa ríkisstj. hefur enginn maður í þessum sal flutt það vantraust með skilmerkilegri hætti en formaður Sjálfstfl.

Og að lokum enn eitt atriði. Formaðurinn vék nokkuð að þeim ágreiningi sem uppi er milli Alþfl. og Alþb. Hann vék að því að þau stjórnmálasamtök sem Alþb. hefur leitað til hafi ýmist hafnað því eða ekki svarað. Og það er rétt að í þessum umr. okkar í milli hefur komið fram að milli þessara tveggja flokka er verulegur ágreiningur. Engu að síður er það svo, úr því að menn eru almennt sammála um að dagar þessarar ríkisstj. séu taldir og það sé aðeins tímaspursmál hvenær hún hypji sig, að uppi eru miklar umr., bæði meðal fjölmiðlanna og stjórnmálamanna, um það hvers konar ríkisstj. þurfi að taka við. Öllum er ljóst að þetta þjóðfélag er illa statt. Vandamálin fram undan eru hrikaleg. Þetta þjóðfélag er sokkið í skuldir og öllum er ljóst að ríkisstj. sem nú situr hefur gersamlega mistekist að ná nokkrum tökum sem máli skipta í sinni efnahagsstjórn. M.ö.o.: henni hefur ekki tekist að binda endi á erlenda skuldasöfnun, hún hefur engin tök á því að stöðva óþolandi og vaxandi erlendan viðskiptahalla, hún rekur ríkissjóð áfram með halla og hún rekur pólitík í vaxtamálum sem má heita að sé að gera undirstöðuatvinnuvegum nærri því ólíft. Það eru ekki nokkrar hugmyndir uppi innan ríkisstj. um hvað eigi að gera, hvað eigi að taka við. Það hefur verið hlutverk ekki hvað síst okkar í Alþfl. og auðvitað annarra stjórnarandstöðuflokka að leggja fyrir þetta þing fleiri málefnalegar tillögur, sem svara því hvernig við viljum breyta hlutunum, en gert hefur verið af hálfu stjórnarandstöðuflokka lengi.

En að lokum þetta: Þegar formaður Sjálfstfl., hv. 1. þm. Suðurl., er við skulum segja með nokkra þórðargleði yfir því að stjórnarandstaðan sé ekki öll á einum báti, þá ætti hann að spara sér það. Það er nefnilega alkunna að innan hans flokks eru þær raddir mjög háværar og eiga verulegu fylgi að fagna sem boða nauðsyn kosninga hið fyrsta og eygja þann kost helstan að leita til þeirra flokka sem hv. formaður var að reyna að skensa, þ.e. Alþfl. og Alþb. Hugmyndin um nýsköpunarstjórn á núna verulegu fylgi að fagna innan Sjálfstfl. Hugmyndin um hinar „sögulegu sættir“ var reyndar úttærð með heldur slysalegum hætti á s.l. kjörtímabili, en engu breytir það um að þessi hugmynd er sú sem reyndar hefur að margra manna mati verið talið að formaðurinn hefði helst augastað á. Þar mundi hann nú helst vilja, í þessu kompaníi, leita sér bandamanna ef svo kynni að fara að hugmynd hans um að ná saman landsfundi í Sjálfstfl. gæti leitt til þess árangurs að hann fengi einhver völd í þeim flokki, að hann hætti að vera vandamál flokksins, en fengi pólitískan styrk til þess að takast á við það sem honum er ætlað að gera, að leysa vandamálin. Við skulum vona að hinum unga formanni verði eitthvað ágengt í þeim efnum.