11.10.1984
Sameinað þing: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

Skýrsla ríkisstjórnarinnar um kjaradeilurnar

Ellert B. Schram:

Herra forseti. S.l. ár hef ég valið mér það hlutverk að fylgjast með stjórnmálabaráttunni sem áhorfandi. Ég er ekki að segja að ég sé betur hæfur en þið, sem hér sátuð á síðasta þingi, til að kveða upp dóm um atburðarásina, frammistöðu ríkisstj. eða málflutning stjórnarandstöðu, en ég hef hins vegar séð og fylgst með gangi mála frá öðrum sjónarhóli og það hefur verið forvitnilegur sjónarhóll.

Enginn vafi er á því að ríkisstj. hafði hljómgrunn þegar hún greip til fyrstu efnahagsráðstafana á s.l. ári. Hún fékk ekki aðeins frið, hún hafði stuðning, jafnvel þótt aðgerðirnar skertu lífskjör, jafnvel þótt aðgerðirnar hafi nær eingöngu beinst að kaupgjaldinu og kaupmættinum. Fólk skildi að hér var verið að ráðast til atlögu gegn verðbólgunni og það fylgdist með árangrinum, fann hann og mat hann. Í raun og veru kom hinn skjóti og góði árangur velflestum á óvart. Sú staðreynd að verðbólgan mældist u.þ.b. 20% um síðustu áramót var meira og betra en nokkurn hafði órað fyrir.

Ég minnist þess að þegar stjórnarmyndunarviðræður fóru fram vorið 1983 var það almennt álit sérfræðinga og stjórnmálamanna að afrakstur ráðstafana mundi ekki skila sér fyrr en á miðju ári 1984. Ég er hins vegar ekki frá því að þessi óvænti bati verðbólguveikinnar hafi slævt dómgreind ráðh. og stjórnarflokka og raunar alls almennings. Menn héldu að sigurinn væri í höfn. Í stað þess að fylgja lækkun verðbólgunnar eftir og grípa til fleiri ráðstafana en þeirra einna að kippa launaverðbótunum úr sambandi héldu menn að sér höndum. Það var ekki tekið á ríkisfjármálum sem skyldi með þeim afleiðingum að erlendar skuldir héldu áfram að aukast og fullri atvinnu og þenslu á vinnumarkaðinum var haldið uppi á fölskum forsendum. Þegar verðbætur voru afnumdar án þess að verðlag væri stöðvað, þegar greiðslubyrði skatta jókst og þenslan hélt áfram í verslunar- og iðnaðargreinunum hófst almennt launaskrið, laun voru hækkuð umfram samninga. Eftir sátu starfsmenn hjá stórum fyrirtækjum, ríkisstarfsmenn, bæjarstarfsmenn, fiskvinnslufólk og fjölmargir láglaunahópar í þjóðfélaginu. Afleiðingin var sú að kaupmáttur var enn mikill hjá fjölmörgum stéttum, gengi var haldið stöðugu með rangri skrásetningu og viðskiptahallinn var mikill. Peningastreymi úr bönkum var verulegt, sem enn jók á þensluna. Í stuttu máli sagt: verðbólgan tók á sig nýja mynd. Í stað víxlhækkana verðlags- og kaupgjalds, sem skapaði sjálfvirkni í verðbólgunni, hefur verðbólgan fengið útrás í launaskriði, viðskiptahalla, skuldasöfnun og dulbúnu atvinnuleysi í skjóli lánveitinga banka og sjóða til óarðbærra atvinnugreina.

Á sama tíma og þetta á sér stað gerist annað: Launþegarnir, sem ekki höfðu aðstöðu eða tök á því að bæta kjör sín fram hjá samningum, sátu uppi með byrðar aukinna útgjalda, skert lífskjör og rýrnandi kaupmátt — rýrnandi kaupmátt þeirra kauptaxta sem í orði kveðnu giltu. Misræmið í launakjörum varð að þjóðfélagslegu misrétti. Álagning tekjuskattsins á þessu ári var punkturinn yfir i-ið. Launþegarnir með lágu tekjurnar og skattþegarnir með byrðarnar horfðu upp á það ranglæti að vel efnað fólk, stöndugt og efnalega vel stætt, greiddi vinnukonuútsvör. Það fyllti mælinn. Fólk er tilbúið að taka á sig fórnir í þágu sameiginlegra hagsmuna, en það er ekki reiðubúið að axla byrðar þegar það gengur misjafnt yfir, þegar sumir komast undan og lifa í vellystingum praktuglega meðan aðrir búa við sult og seyru.

Ég leyfi mér að fullyrða að kröfur BSRB, verkfall opinberra starfsmanna og öll þeirra kjarabarátta og ýmissa annarra, örvæntingin og biturleikinn þessa dagana sé sprottið af réttlátri reiði yfir því ranglæti í kjörum sem nú hefur orðið æ meira áberandi. Fram hjá þessu verður ekki litið. Vissulega hafa pólitísk öfl kynt undir og stjórnarandstaðan hlakkar yfir þróun mála, en að mínu mati er það móðgun við heilbrigða skynsemi og allt það fólk sem líður skort vegna bágra launa að halda því fram að verkfallið og kröfurnar séu sprottin af hreinum pólitískum undirmálum eða öðrum hvötum. Fólkið skilur og veit að þjóðarbúið er ekki aflögufært, en það sættir sig ekki við að gjalda þess eitt.

Stærsta og alvarlegasta þjóðfélagsmeinið í dag er misrétti í kjörum, ójöfnuðurinn gagnvart skattheimtunni og beiskjan sem hlýst af því að ekki er skilningur, ekki fæst viðurkenning á að kaupkröfur eru ekki heimtufrekja, þær eru nauðvörn. Fólk er beinlínis að fara fram á að eiga til hnífs og skeiðar, hvorki meira né minna. Um leið og þetta er sagt er því ekki haldið fram að ríkisstj. og atvinnuvegirnir geti og eigi að samþykkja allar kröfur og í rauninni er ekki heldur verið að segja þeim hvernig eigi að leysa deiluna. Það er ekki heldur verið að segja að hún sé auðleyst. Ríkisstj. er ekki að takast á við kaupkröfur, hún er að takast á við siðferðislegar kröfur, lífshætti og grundvöll þess samfélags sem við lifum í. Þetta eru tímamót og það í orðsins fyllsta skilningi.

Að því er varðar kjarasamningana, hráa og mælda á samningaborðinu, þá stendur það upp úr að lægstu kjörin verður að bæta. Ríkisstj. hefur hvorki efnahagslegan, pólitískan né siðferðislegan rétt til þess að leysa verðbólguvandann, efnahagsvandann, á kostnað þeirra verst settu. Vinnudeilan verður ekki leyst þannig, beiskjan verður ekki upprætt þannig og ranglætið og misréttið í lífskjörunum verður ekki bætt með þeim hætti. Ég efast ekki um að ráðh. og þm. stjórnarflokkanna gera sér grein fyrir þessu, það hafa þeir reyndar margtekið fram. En gerðir þeirra fara ekki alltaf eftir. Fyrst, og lengi framan af öllu þessu ári, voru þeir aðgerðalausir á flandri út og suður, sáust með kúrekahatta í Los Angeles eða í public relations niðri í Arabíu og Ísrael og hótanir um atvinnuleysi, gengisfellingar og dúndrandi verðbólgu hafa ekki fallið í góðan jarðveg. Stöðvun á launagreiðslum, hvað sem lögum og nauðsyn líður, virkaði eins og olía á eldinn. Seinheppni stjórnvalda hefur ekki riðið við einteyming þessa síðustu daga.

Það verkfall, sem nú stendur yfir hjá opinberum starfsmönnum, hefur verið harkalegt. Annars vegar stendur fólk sem neitar að sætta sig við launakjör sem ekki duga til hnífs og skeiðar, hins vegar ríkisvald í ósveigjanlegri spennitreyju og með tóman ríkiskassa. Þannig blasir staðan a.m.k. við. Opinberir starfsmenn geta kannske kennt ráðh. um óbilgirni, en þeir hafa sjálfir átt þátt í þeirri óbilgirni. Harka í verkfallsvörslu, fyrirvaralaus stöðvun Ríkisútvarpsins, ástæðulausar aðgerðir gagnvart almennum borgurum í óskyldum málum hefur dregið úr samúð almennings með kjarabaráttu BSRB. Síðast en ekki síst er kröfugerð BSRB um 30–40% kauphækkun yfir alla línuna fjarri öllu lagi og algerlega óaðgengileg.

Frá mínum bæjardyrum séð átti ríkisstj. að grípa til bráðabirgðalaga áður en til verkfalls kom. Hún átti að leggja fram sáttatillögu um hækkun lægstu launa, kaupmáttartryggingu og tekjuskattslækkanir, stórfelldan niðurskurð á ríkisútgjöldum og uppstokkun á öllu kerfinu og það strax. Ef sú tillaga næði ekki fram að ganga var réttast í stöðunni, eins og fyrr segir, að setja brbl. og fresta verkföllum með lagaboði og boða til kosninga, láta síðan á það reyna hvort sú stefna, sem ríkisstj. hefur fylgt og kæmi þá fram í þeirri stefnumótun sem slík tillaga fæli í sér, hefði fylgi meðal þjóðarinnar. Ef ekki, þá yrðu aðrir að taka við sem teldu sig geta gert betur.

Þessi leið var ekki farin. Ríkisstj. hikaði og glopraði niður tækifærinu. Í stað þess að fara í sókn og standa fast á sinni stefnu er ríkisstj. komin í vörn og ræður ekki lengur neinu um víglínur. Afleiðingin er sú að stjórnarstefnan í efnahagsmálum, sem naut fylgis og stuðnings fyrir aðeins nokkrum vikum, er orðin að ásetningarsteini, blóraböggli í augum fólksins. Þetta er sorgleg niðurstaða og óvænt veðrabrigði á mjög stuttum tíma. Nú hefur forsrh. skýrt frá hugmyndum sínum að grundvelli að samkomulagi hér í umr. í dag og við sjáum strax af þessu tilboði, sem út af fyrir sig er ekki ósanngjarnt og að mínu mati vel þess virði að það sé skoðað gaumgæfilega —við sjáum samt af þessu tilboði að ríkisstj. hefur hörfað úr einni víglínunni í aðra.

Það er eðlilegt að stjórnarandstaðan gagnrýni frammistöðu ríkisstj., til þess hefur hún ríkt tilefni. Í rauninni er auðvelt að gagnrýna og hossa sér á þeirri óánægju og óvissu sem nú ríkir í þjóðfélaginu. Það geta allir gert. Það er rétt að stjórnarandstaðan hefur ekki ráðið ferðinni eða efnt til upplausnarinnar, ekki ein og sér a.m.k. Staðreyndin er hins vegar sú að stjórnarandstaðan hefur ekki breytt neinu til eða frá og hún er ekki heldur líkleg til að gera það á næstunni. Sú óhugnanlega staða blasir nefnilega við að ástandið getur síður en svo batnað þótt stjórnarskipti verði, þótt stjórnarandstaðan komist til valda. Ég hef hvergi heyrt né séð marktækar, skynsamar eða raunsæjar tillögur úr þeirri áttinni við þeim efnahagsvanda sem við blasir. Í stað þess að viðurkenna árangur í verðbólguslagnum, í stað þess að hafna ábyrgðarlausum kaupkröfum og í stað þess að vekja þjóðina til umhugsunar um þann risavanda sem þjóðarbúið á við að glíma hefur stjórnarandstaðan tekið þann kostinn að fiska í gruggugu vatni. Ræða hv. 3. þm. Reykv., Svavars Gestssonar, bar glöggt dæmi þar um. Þetta er gamla sagan héðan úr Alþingi og það hefur ekkert breyst, að mála allt í svarthvítum litum, gagnrýna einhliða, vera á móti, æsa til vandræða.

Herra forseti. Vandinn í þjóðfélaginu er ekki aðeins efnahagslegur. Hann snertir einnig hugarfar, siðferði og undiröldu sem snertir alla pólitík og flokkabaráttu í landinu. Þessi vandi verður ekki leystur með hefðbundnu karpi hér í þingsölum. Hann verður ekki leystur með úreltum viðhorfum og viðbrögðum staðnaðra stjórnmálaflokka. Hann verður ekki leystur með klisjum sem endurteknar hafa verið æ ofan í æ hér á Alþingi, í kosningum og í stefnuskrám flokka sem fyrir löngu hafa týnt tengslum við fólkið í landinu. Sá vandi, sem nú blasir við, verður ekki leystur með samningum við BSRB einum saman, því fer víðs fjarri.

Allt kringum okkur sjáum við gamla þjóðfélagskerfið ýmist riða til falls eða ryðga í sínum föstu skorðum. Í landbúnaðarmálum sitjum við uppi með staðnaða löggjöf sem er brynvarin gegn nútímasjónarmiðum. Í bankakerfinu, sjóðakerfinu, ríkisbúskapnum, margvíslegri löggjöf, neytendamálum, kosningalöggjöf, starfsháttum Alþingis, skattalöggjöf, útflutningsmálum, jafnvel í fiskvinnslu og fiskveiðum gætir stöðnunar í aðlögun og endurnýjun. Í skóla- og fræðslumálum erum við komin út í horn.

Ég vil víkja hér sérstaklega að einu máli sem borið hefur á góma í þessari umr. og sem ég tel vera grundvallardæmi og gott sýnishorn af því hvernig ástandið er. Það er afsprengi kjaradeilunnar. Það eru hinar svokölluðu frjálsu útvarpsstöðvar sem mér sýnist, eftir að hafa hlýtt á framsögu stjórnarandstæðinga hér, vera alvarlegasta vandamálið þrátt fyrir öll verkföll og vinnudeilur, a.m.k. er það að heyra að þeim sé mikið niðri fyrir að reka horn sín í þessar útvarpsstöðvar.

Á allra síðustu árum hafa orðið umskipti í upplýsingaheiminum, nánast bylting. Erlendis er nú almennt talað um upplýsingaöldina í samanburði við iðnbyltinguna og lífskjarabyltinguna síðustu tvo áratugina. Hvað höfum við Íslendingar gert til að bjóða nýrri tækni og nýjum viðhorfum heim á þessum vettvangi? Við sitjum uppi með úrelta löggjöf um útvarp og sjónvarp og allar tilraunir til að brjóta þá löggjöf upp eru samstundis kæfðar í þessum fílabeinsturni hér á Alþingi.

Þessa dagana höfum við orðið áþreifanlega varir við afleiðingarnar. Í skjóli einkaréttar ríkisins taka starfsmenn Ríkisútvarpsins sig til og loka einhliða, samkvæmt eigin geðþóttaákvörðun, þeirri einu útvarpsstöð, sem lögleg er í landinu, í krafti einokunar. Það er ekki ríkið, ríkisvaldið, ríkisstjórnin eða þjóðin, sem þetta samfélag myndar, sem ræður þar nokkru um. Nei, það er starfsfólkið sem tekur völdin augljóslega í þeim skilningi að það sé handhafi einkaréttarins. Það er starfsfólkið sem gefur ríkisvaldinu og löglega kjörnum stjórnvöldum og lögunum langt nef og telur sig hafa leyfi til að mótmæla launagreiðslum til sín um síðustu mánaðamót með því að labba sig út og skilja þjóðina eftir í miðaldamyrkri. Það hefur enginn minnst á þetta meinta lögbrot hér í þessari umr. Afleiðingin er sú að Íslendingar sitja fyrirvaralaust og skyndilega uppi með það að vera sambandslausir, einangraðir og óupplýstir um atburði hér heima sem erlendis. Hvergi á byggðu bóli mundi slíkt gerast, en það gerist hér vegna þess að Alþingi og stjórnmálaflokkar hafa ekki haft vit, áhuga eða þekkingu á þeirri staðreynd að það væri þjóðinni og hagsmunum hennar fyrir bestu að svokallaður einkaréttur ríkisins á útvarpsrekstri verði afnuminn. Það er eins og meiri hluti þingmanna sé gjörsamlega gersneyddur vitneskju um þá strauma sem leika um þjóðlífið í kjölfar nýrrar kynslóðar og nýrra tíma. Þeir ríghalda í ímyndaða hagsmuni sína, flokka sinna og ríkisvaldsins og þykjast vera svo heilagir og löghlýðnir að þegar útvarpsstöðvar skjóta upp kollinum vegna lokunar Ríkisútvarpsins, þá neita þeir að viðurkenna að slíkar stöðvar séu uppspretta lýðræðislegrar þróunar, svar alls þorra kjósenda við því neyðarástandi sem úrelt löggjöf leiðir af sér. Jafnvel einstakir stjórnmálamenn í forustustörfum eru eins og úti á þekju, jafnvel heilir stjórnmálaflokkar eru svo víðs fjarri raunveruleikanum að þeir rísa upp til varnar fyrir einokunina og misnotkun hennar og neita að viðurkenna tilvist þessara útvarpsstöðva. Sér er nú hver heilagleikinn!

Það er dæmalaust að hlusta á þá talsmenn stjórnarandstöðunnar sem hneykslast á því að þjóðin sé upplýst. Lögbrot, segja þeir, lögbrot og jafnvel ofbeldi. Hver hefur orðið var við ofbeldi við stofnun þessara útvarpsstöðva? Ég hef ekki heyrt um neitt ofbeldi í þessari deilu nema þá það ofbeldi sem verkfallsverðir hafa beitt og enginn hefur hneykslast á því athæfi. Já, lögbrot segja þeir. En hvaðan kemur þessum háu herrum vald til að fullyrða hér á Alþingi að lögbrot hafi verið framið. Hefur einhver dómur gengið um það? Þeir menn sem saka aðra um að brjóta lög ættu ekki að taka dómsvaldið í sínar hendur. Er það betra að dæma sök en að brjóta lög?

Ef mennirnir bera svo mikla virðingu fyrir þrískiptingu valdsins, lögum, réttargæslu og dómstólum, þá eiga þessir sjálfskipuðu dómarar að láta dómstólunum það eftir að dæma í þessu máli og segja til um það hvort búið sé að brjóta lög með stofnun frjálsra útvarpsstöðva. Og enn hefur enginn dómur verið kveðinn upp um lögbrot þeirra. Þvert á móti leyfi ég mér að halda því fram að hér hafi engin lög verið brotin. Ríkisvaldið afsalaði sér einkaréttinum þegar það lét starfsfólk Ríkisútvarpsins komast upp með það að vanefna þá skyldu sem á Ríkisútvarpið er lögð. Með þeim vanefndum var fólkinu í landinu frjálst að neyta þess réttar að verja sig. Fólkið vill ekki láta loka sig af, byrgja sig inni og bæla sig niður og það eru menn lítilla sanda og sæva sem æpa lögbrot, lögbrot undir þessum kringumstæðum. Þeir sögðu í Póllandi að það væri lögbrot þegar Valesa og félagar hans stofnuðu Frjálsa verkalýðshreyfingu og við studdum það samt. Þeir segja það lögbrot í Sovétríkjunum þegar einstaklingar þar í landi andæfa gegn stjórnvöldum, en við styðjum það samt. Og þeir segja það lögbrot í Suður- og Mið-Ameríku, þegar stjórnarandstæðingar rétta úr sér og segja sannleikann, en við styðjum það samt. Við tökum undir slíka frelsisbaráttu, jafnvel þótt hún stangist á við löggjöf og lagabókstafi, vegna þess að hún er barátta fyrir mannréttindum, svo einfalt er það.

Það er athyglisvert að heyra 3. þm. Reykv. Svavar Gestsson halda því fram að ég sé kominn hingað inn á þing á flótta undan refsivaldinu með því að reyna að njóta þinghelgi. Hann heldur sem sagt, sá góði maður, að með því að setjast á þing séu menn að skjóta sér undan lögum og rétti. Hann heldur sem sagt að ég sé að flýja vegna baráttu minnar fyrir tjáningarfrelsinu. Það er athyglisvert að Svavar Gestsson, hv. 3. þm. Reykv., telur Alþingi skálkaskjól þeirra sem eru að flýja undan frelsinu. Kannske er það þess vegna sem hann er hér, ég veit það ekki, það er hans mál. Hann er kannske að forðast frelsið. Ég hef hins vegar staðið í þeirri meiningu að Alþingi væri vettvangur þeirra sem vilja standa vörð um mannréttindi, en kannske er það líka breytt.

Í gær var tveimur útvarpsstöðvum í Reykjavík lokað. Lögreglunni var sigað. Afturhaldið í landinu náði sínu fram og nú í dag er þögnin skerandi. Þagnarmúrinn hefur verið reistur og Ríkisútvarpið er eitt um hituna. Tvisvar á dag fáum við allra náðarsamlegast að vita hvort bylting hafi verið framin í landinu eða ekki, hvort ríkisstj. sitji enn að völdum eða ekki, hvort verkföllin séu að leysast eða ekki, hvort fréttamönnum Ríkisútvarpsins þóknist að leyfa stjórnmálamönnum eða málsvörum í kjaradeilum að tjá sig. Enginn segir að fréttamenn þessa eina og lögverndaða fjölmiðils séu hlutdrægir, en hver segir að þeir séu það ekki? Hvar er aðhaldið og hvar er lýðræðið? Og er það þetta sem við viljum? Viljum við að ráðherrar einir t.d. séu teknir til viðtals í þessum eina fjölmiðli eða viljum við að fréttastofunni sé það í sjálfsvald sett hvort stjórnarandstæðingum sé einum raðað í viðtöl til útskýringa og áróðurs fyrir sig og sína eða fer það kannske eftir því hvaða efni er flutt í þessari stöð hvort menn hafi velþóknun á henni eða ekki? Viljum við að fréttastofan sé ein til frásagnar í glaðhlakkalegum tón þegar frjálsum útvarpsstöðvum, öðrum fjölmiðlum er lokað með bolabrögðum? Og hvernig var sagt frá þeim atburði þegar Fréttaútvarpinu var lokað með lögregluárás í gær? Jú, þjóðin fékk að vita í kvöldfréttatíma Ríkisútvarpsins í gærkvöldi að „ólöglegum“ útvarpsstöðvum hefði verið lokað, en áður hefði Ellert B. Schram alþingismaður flutt ávarp. Punktur og basta. Það var ekki greint frá því að hundruð manna söfnuðust saman utan við ritstjórnarskrifstofu DV til að láta í ljós mótmæli gegn þessari aðgerð og það var ekki sagt frá því að allar símalínur á blaðinu urðu rauðglóandi þar sem aftur hundruð manna lýstu stuðningi sínum við Fréttaútvarpið og vanþóknun sinni á athæfi stjórnvalda. Það var ekki sagt orð um það að hér í austurbænum í höfuðborginni hafi komið til svívirðilegrar aðfarar gegn frjálsræðinu og lýðræðinu. Aldrei í mínu minni hef ég orðið var við jafnheilaga reiði, jafnsterkan þjóðarvilja til að brjóta á bak aftur einokun Ríkisútvarpsins.

Fólk lét ekki hug sinn í ljós til að standa vörð um Fréttaútvarpið eingöngu. Það var einfaldlega að standa vörð um mannréttindi sín, öryggi sitt, líf sitt í siðuðu mannfélagi. Það var lýðræðið sem braust fram þegar þessi atburður átti sér stað. Og hvað gerðu alþingismenn? Þeir sátu hér í sínum fílabeinsturni, drukku sitt kaffi og gömnuðu sér við að kasta fjöregginu á milli sín. Það gerðu þeir á meðan opinberir starfsmenn funduðu hér fyrir utan í þágu lífskjara sinna og þjóðin mótmælti í nauðvörn þegar frelsi fjölmiðla var fótum troðið. Ég kalla löggjafarvaldið til ábyrgðar á þessum atburðum og þessu ástandi og ég kalla ríkisstj. og stjórnarflokkana til ábyrgðar á þessu athæfi. Það voruð þið, hv. þm., sem létuð loka frelsinu í innsigluðum plastpokum rannsóknarlögreglunnar og það eruð þið, hv. þm., sem hafið einangrað ykkur frá fólkinu og kjósendum og þjóðinni með því að láta þetta viðgangast. Þið getið setið hér áfram enn um stund og einblínt á tærnar á ykkur og þrefað um úrelta lagabókstafi. Þið getið dagað hér uppi mín vegna eins og hver önnur nátttröll, en það kemur að því að kjósendur munu veita sína ráðningu og svara fyrir sig og sá tími mun koma.

Ég sest hér inn á þing aftur þó ekki væri nema til að kynnast aftur þeirri undarlegu og sorglegu staðreynd hversu Alþingi er laust við alla snertingu og skilning á ríkjandi viðhorfum. Ég hef upplifað þá lífsreynslu að hafa verið hér þingmaður um margra ára skeið og hafa síðan átt þess kost að sjá stjórnmálin og þjóðlífið frá öðrum sjónarhóli og eiga hingað afturkomu til að fylgjast með því hvort núverandi skipulag, flokkaskipan og stjórnmálaviðhorf eiga sér einhverja lífsvon. Ég hef hlustað hér á nokkrar ræður í dag og mér hrýs hugur. Gamla stefið er enn spilað.

Ég hef kosið að koma hér inn aftur án þess að vera bundinn af samþykktum þingflokks eða stuðningi við ríkisstj. Ég hef ekki sagt mig úr flokki eða þingflokki. Ekki enn. Ég tel mig sjálfstæðismann í besta skilningi þess orðs og þegar ég segist vera sjálfstæðismaður, þá er það vegna þess að ég hef trúað á sjálfstæðisstefnuna í sínum einfaldasta skilningi, þá stefnu að hver maður eigi að njóta frelsis, frelsis til sjálfsbjargar, frelsis til félagslegrar samhjálpar og frelsis til mannréttinda. Sú stefna er enn til þótt framkvæmd hennar sé öll á skjön. Lífsskoðun og stefna er mér meira virði en flokkur.

Ég hef ekki farið dult með það og þá skoðun mína að flokkaskipan á Íslandi sé tímaskekkja, gengin sér til húðar. Núverandi flokkar eru meira og minna orðnir dragbítar á sjálfa sig, stofnanir sem hugsa inn á við en ekki út á við, hugsa um hagsmuni sína fyrst, hugsa um hagsmuni annarra á eftir. Úrelt löggjöf, staðnað þjóðfélag, hrossakaup, sjálfhelda í stjórnarmyndunum, afturhald og hægagangur í stjórnarfari, skilningsleysi á nútímaviðhorfum, allt eru þetta staðfestingar á skoðunum mínum, og öfgar til vinstri og öfgar til hægri, fílabeinsturnar, glerhús, baktjaldamakk, samtrygging, forpokuð tregðulögmál og skjaldborg einokunar. Þetta eru allt saman einkenni stjórnmálanna, því miður. Og við sjáum hvernig fólkið fjarlægist gömlu flokkana. Í skoðanakönnunum er allt upp í helmingur kjósenda ófáanlegur til þess að lýsa yfir stuðningi við núverandi flokka.

Bandalag jafnaðarmanna, Kvennalistinn, Flokkur mannsins og hvað þetta heitir allt saman í smáflokkamynstrinu eru afsprengi þessarar þróunar. Verkalýðshreyfingin brýtur af sér flokksmenn Alþb. og formaður þess notar fyrsta tækifærið á þessu þingi til að uppnefna borgara þessa lands sem sjóræningja, svo langt er hann leiddur, blessaður maðurinn, og svo fjarlægur er hann straumunum allt í kringum sig í þjóðlífinu.

Alþfl. fær ekki gramm af atkvæði þótt fylgi ríkisstj. hrynji, Framsfl. er að þurrkast út af þéttbýlissvæðunum og jafnvel Sjálfstfl. hefur hlotið þau örlög að vera múr- og naglfastur kerfisflokkur sem tekur seint og illa við sér þegar frelsisumbrot fólksins eiga sér stað og það þrátt fyrir allar frelsishugsjónir í stefnuskrá þess flokks. Það er aðeins tímaspursmál hvenær núverandi flokkaskipan riðar til falls og ekki hafa atburðir síðustu daga bætt stöðuna fyrir hrörnandi flokkaveldinu. Þeir flokkar sem ekki svara kalli tímans eru einfaldlega dauðvona.

Það þarf enginn að vera undrandi á því þótt ég velji þann kostinn að vera óháður gagnvart ríkisstj. og stjórnarfari sem er höfuðið á þessum þurs. Með því er ég ekki að segja að ég geti ekki samþykkt eitt og annað sem frá ríkisstj. kemur. Á meðan hún lafir. Með því er ég ekki að segja að ég muni taka hér óábyrga afstöðu, enda er það ábyrgðarhluti að kynda undir upplausn með því að taka þátt í vælukór stjórnarandstöðunnar. Ég hef ekki hugsað mér að koma hingað inn á þing til þess eins að grafa undan löglega kjörinni ríkisstj. og ég hef ekki áhuga á að gerast aftaníossi hjá vonlausri stjórnarandstöðu.

Ég held satt að segja að miklu meira þurfi að gerast í íslenskum stjórnmálum en það eitt að þessi ríkisstj. fari frá völdum. Það kemur að því hvort eð er. Þær deilur sem nú geisa hér fyrir utan þinghúsið eru aðeins einn þátturinn í þeim umskiptum sem brátt verða óhjákvæmileg. Láglaunafólkið í BSRB, almenningur sem styður frjálsa fjölmiðla, þjóðin öll er ekki aðeins að biðja um betri kjör og fleiri útvarpsstöðvar. Það er að heimta brauð til að eta, frelsi til að lifa og samfélag sem hægt er að umbera. Þetta er kall nýrra tíma, herra forseti, og það kall verður ekki þaggað niður þótt nú í augnablikinu æpi að okkur skerandi þögn einokunarinnar.