14.02.1985
Sameinað þing: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2918 í B-deild Alþingistíðinda. (2401)

Um þingsköp

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Grein í Morgunblaðinu frá 8. febr. 1985, sem ber heitið „Látið veggina í friði“, hefur vakið athygli mína á breyttum vinnubrögðum varðandi verkaskiptingu hér í húsinu og varðar 11. gr. þingskapa. Ég vil, með leyfi forseta, lesa hér um verksvið skrifstofustjóra:

„Hann skal aðstoða forseta, er þeir ráða þingskrifara og aðra starfsmenn, og gera tillögur um það. Hann skal standa fyrir öllum reikningum Alþingis og útgáfu og útsendingu Alþingistíðindanna, lesa prófarkir af þeim og ráða útsölumann þeirra og annast geymslu á þeim og skjalasafni Alþingis og bókasafni, hafa umsjón með alþingishúsinu, munum þess og alþingisgarðinum, jafnt milli þinga sem um sjálfan þingtímann, og sjá um að allt sé í lagi í þinghúsinu þegar þing kemur saman.“

Það fer ekki á milli mála að skv. þessari grein er skrifstofustjóra falið allt eftirlit með þinghúsinu. Því vil ég spyrja hæstv. forseta í tilefni þeirrar greinar sem ég vitnaði hér í og fjallar um sendibréf, ef sendibréf skyldi kalla, til þm. og hengt hefur verið upp í símklefum frá forseta Ed. spurning mín til hæstv. forseta er á þessa leið:

Hefur skrifstofustjóri Alþingis ráðið hæstv. forseta Ed. til að hafa eftirlit með símaklefum þinghússins? Hefur verið gert samkomulag um það af forsetum að pappírssneplar með orðaleppum verði hengdir upp hér og þar í þinghúsinu til að koma á framfæri aðfinnslum?

Mér þykir eðlilegt að um þetta sé spurt því að það er á margan hátt hægt að lítillækka þm. og mér virðist að það hafi náðst nokkuð góður árangur í því með þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið.