23.10.1984
Sameinað þing: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

69. mál, kennsluréttindi kennara í grunnskólum

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Fjöldi kennara útskrifast árlega frá Kennaraháskóla Íslands með fullgild kennsluréttindi. Þrátt fyrir það er aðeins lítill hluti þeirra sem ræður sig til kennslustarfa. Byrjunarlaun kennara eftir þriggja ára háskólanám eru 15 843 kr. og hæstu laun grunnskólakennara, þ.e. þeirra sem kennt hafa í 23 ár, eru 21 717 kr. Á hinum almenna vinnumarkaði bjóðast mun betri laun.

Aðstaða sú sem kennarar þurfa að búa við gerir starfið ekki eftirsóknarvert. Skólahúsnæði er á margan hátt ófullnægjandi, stærð húsnæðis oft og tíðum ekki miðuð við þann nemendafjölda sem þar stundar nám og Síða tvísett í bekki. Aðstöðu vantar fyrir ýmsar kennslugreinar, svo sem íþróttir, mynd- og handmennt, heimilisfræði, tónmennt, eðlisfræði, líffræði o. fl. Skólasöfn ýmis vantar algjörlega eða er illa að þeim búið.

Sífellt meiri kröfur eru gerðar til skólans og verkefnum kennara fjölgar. Kennsluhættir hafa breyst, vinnuálag kennara aukist, krafist er aukinnar samvinnu, skipulagningar og sveigjanleika hjá kennurum. Mikill tími fer í að fylgjast með nýjungum í skólastarfinu og að kynna sér nýtt námsefni. Námsefnisskortur er tilfinnanlegur og kennarar leggja á sig ómælda vinnu til að mæta þörfum hvers nemanda. Uppeldishlutverk skólans fer stöðugt vaxandi vegna breyttra þjóðfélagshátta.

Vegna þess hve kennarar eru lágt launaðir, miðað við menntunarkröfur og þá auknu ábyrgð sem fylgir kennarastarfinu, auk lélegra vinnuaðstæðna oft og tíðum, hefur sífellt reynst erfiðara að fá kennara með tilskilin kennsluréttindi til starfa við grunnskóla landsins. Þróun kennslumála er orðin í mikilli hættu þegar reyndin er sú að stöðugt fleiri kennaramenntaðir leita annarra starfa, en í störf kennara ganga ófaglærðir réttindalausir einstaklingar. Þeir einstaklingar sem þannig fylla kennarastöður um lengri eða skemmri tíma vinna oft þarft verk og forða vandræðaástandi sem skapast hefði vegna kennaraskorts. Á þetta einkum við úti á landi.

Þó að sumir hafi þannig reynst vel þrátt fyrir lítinn sem engan starfsundirbúning er hitt jafnvíst að slíkar bráðabirgðalausnir með tíðum kennaraskiptum eru óviðunandi og beinlínis skaðlegar námi barna. Þarf þá ekki að taka fram hve óviðunandi misrétti ríkir milli dreifbýlis og þéttbýlis í þessum efnum.

Mig langar að taka dæmi um kennararáðningu í grunnskóla, sögu sem mér var sögð: Bílstjóra vantaði til að aka börnum til og frá skóla. Maðurinn sem sótti um starfið hafði ekki meirapróf bílstjóra, þ.e. hann hafði ekki tilskilin réttindi til að aka skólabíl, og var því ekki ráðinn sem bílstjóri. Í staðinn var maðurinn ráðinn sem kennari að skólanum. Þess skal getið að viðkomandi maður hafði aldrei í kennaraskóla komið. Þá var ekki spurt um tilskilin réttindi til starfs.

Sá skortur á eftirspurn sem ríkir eftir störfum kennara hefur nú sýnt sig vera líka eftir kennaranámi. Undanfarin ár mun inntöku nýrra nemenda í Kennaraháskóla Íslands hafa verið þannig háttað að biðlistar frá fyrra ári hafa verið tæmdir og nýjar umsóknir afgreiddar. Fjöldinn í 1. bekk s.l. vetur, 1983–1984, er sagður hafa verið um 120 nemendur og þó nokkrir á biðlista. Í haust 1984 voru allir teknir inn í skólann sem voru á biðlista frá fyrra ári svo og nýjar umsóknir. en nemendafjöldi náði aðeins um 90 nemendum og enginn á biðlista í ár.

Vegna þess hve inntak kennslustarfsins hefur breyst og. kröfur til skólans aukist er engan veginn hægt að ætlast til þess af sanngirni að fengnir séu til kennslustarfa einstaklingar sem engrar menntunar hafa notið á sviði uppeldis- og kennslufræða né heldur er það boðlegt nemendum. Mjög mikilvægt er að vel hæfir kennarar, sem hlotið hafa menntun í uppeldis- og kennslufræðum, ráðist til starfa að grunnskólum landsins. Því er nauðsynlegt að vel verði búið að kennslustarfinu og það verði gert eftirsóknarvert. Á þann hátt stuðlum við að betri framtíð barna okkar og þjóðarinnar allrar. Því vil ég beina eftirfarandi fsp. til hæstv. menntmrh.:

1. Hve margar stöður í grunnskólum eru skipaðar eða settar kennurum með kennsluréttindi?

2. Hve margir stundakennarar við grunnskóla eru með kennsluréttindi?

3. Hvert er hlutfallið milli réttindamanna og réttindalausra í 1.–6. bekk og í 7.– 9. bekk grunnskólans?

4. Hvert er hlutfall milli réttindamanna og réttindalausra í grunnskólum í þéttbýli og dreifbýli miðað við

a) full stöðugildi,

b) fjölda kennara?

Þessi fsp. er í raun nátengd fyrri fsp. minni, um lögverndun á starfsheiti kennara.