14.02.1985
Sameinað þing: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2923 í B-deild Alþingistíðinda. (2425)

271. mál, varnir gegn fisksjúkdómum

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Þetta mál, sem hér er til umr., er gífurlega mikilvægt. Á því leikur ekki minnsti vafi að hér á Íslandi eru betri skilyrði til fiskiræktar en kannske nokkurs staðar annars staðar. Frumskilyrði er að reyna að koma í veg fyrir sjúkdóma í fiskum, hvort heldur er vatnafiskum eða sjávarfiskum, þegar farið verður að rækta þá líka, sem auðvitað verður gert áður en mjög langt um líður. Þess vegna er ekki nægilegt að hafa tvo fisksjúkdómafræðinga að störfum. Þeir verða að vera mun fleiri.

Sjálfsagt munu fiskiræktarmenn, þegar fram í sækir, hafa sína eigin fisksjúkdómafræðinga að einhverju leyti. En á meðan þessi atvinnugrein er í frumbernsku hlýtur ríkið fyrst og fremst og raunar alltaf að hafa þar hönd í bagga og yfirsýn og eftirlit með öllum fiskiræktarstöðvum.

Við megum hins vegar ekki kippa okkur allt of mikið upp við það þó að einhvers staðar komi upp sjúkdómar. Því miður er það svo með fiskirækt eins og alla aðra ræktun að það er ekki hægt að gera ráð fyrir því að aldrei þurfi að meðhöndla þar sjúkdóma. Það er ekkert land til sem stundar fiskirækt þar sem ekki koma upp einhverjir sjúkdómar. En þá verður að bregðast skjótt við, annaðhvort með niðurskurði, ef sýkin er mjög hættuleg, eða þá með lækningum, en flestir þessir sjúkdómar eru sem betur fer mjög vel læknanlegir ef nægilega snemma er gripið í taumana.

sem betur fer er þessi tegund nýrnaveiki sem hér hefur orðið vart ekki hin versta. Þetta er bakteríusjúkdómur. sú baktería er í náttúrunni og við komumst aldrei fram hjá því. Hún er í laxfiskum einungis og þrífst ekki annars staðar. Mér er sagt að hún geti jafnvel verið í loðnunni sem laxar éta svo og svo mikið af á sínum ferðalögum. Við komumst sem sagt aldrei frá því að einhverjir sjúkdómar láti á sér kræla.

Eins er það með þessa svokölluðu kýlaveiki, sem hefur orðið hér vart líka, að vísu mjög veikt afbrigði þess sjúkdóms, ekki mjög hættulegt. Sú baktería er einnig í náttúrunni, bæði hér og annars staðar. Hægt er að hindra það í mjög mörgum tilvikum að hún berist í eldisstöðvar eða berist í fisk en ekki alltaf. Það getur alltaf hent. En sem betur fer er það líka mjög vel læknanlegur fisksjúkdómur. Aðrir eru miklu skæðari sem aðrar þjóðir hafa þurft að glíma við.

En sem sagt, aðeins þessi örfáu orð. Fiskiræktin er framtíðin. Innan örfárra ára gætum við stóraukið okkar gjaldeyristekjur. Ég hef leyft mér að segja að á næsta áratug gætum við tvöfaldað þær með fiskiræktinni einni saman. Sjá víst allir hvernig lífskjör yrðu þá hér miðað við það sem þau eru í dag, sérstaklega þegar það er haft í huga að við fiskiræktina er svo til engin gjaldeyrisnotkun. Ef við framleiðum fóðrið sjálf úr loðnumjölinu, ef við teljum loðnumjöl og rækjuskel, sem hent er í sjóinn en er meginuppistaðan í fiskfóðrinu, íslenska afurð, þá er engin gjaldeyrisnotkun í bókstaflegri merkingu önnur en vítamín í fóðri. Hitt er allt innlendur kostnaður nema auðvitað við byggingar stöðvanna, þá þarf einhvern tiltölulega mjög lítinn erlendan gjaldeyri. Þetta er slíkt stórmál að ekkert áhorfsmál er að það á að fjölga fisksjúkdómafræðingum. Þeir eru til fleiri sem eru vel menntaðir og eru núna að koma frá námi strax á þessu ári. Þá hljótum við að bæta við 2–3–4 mönnum og veita það fé til þessarar starfsemi sem nauðsynlegt er.