14.02.1985
Sameinað þing: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2949 í B-deild Alþingistíðinda. (2433)

102. mál, framleiðslustjórn í landbúnaði

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég ætla ekki að flytja framsöguræðu fyrir frv. um Framleiðsluráð landbúnaðarins, en ég vænti að ég muni gera það síðar á þessu þingi. En til þess að fræða hv. 3. þm. Reykn. um það hver sé stefna mín, Framsfl. eða ríkisstj. vil ég benda honum á atvinnumálastefnu sem Framsfl. samþykkti fyrir stuttu. Ef hann hefur hana ekki í höndunum skal ég afhenda honum hana. Þar er skýrt markað hvert ætlunin er að stefna.

Spurt var hverjir hafi unnið að þessum málum. Það kom fram í máli hv. 1. þm. Norðurl. v. áðan að aðstoðarmaður minn í landbrn. hefur leitt þetta starf og þm. úr báðum stjórnarflokkum. (Gripið fram í.) Jú, jú, ég get sagt hverjir hafa komið þar að verki. Frá Framsfl. eru það Davíð Aðalsteinsson, Stefán Valgeirsson og Þórarinn Sigurjónsson og frá Sjálfstfl. hafa verið þar að störfum frá upphafi Þorsteinn Pálsson, Birgir Ísl. Gunnarsson og Egill Jónsson. En það hafa miklu fleiri komið að þessum málum. M.a. skipaði ég nefnd fyrir ári síðan til að móta framleiðslustefnu í landbúnaði. Hún skilaði áliti á s.l. hausti sem kom fram á aðalfundi Stéttarsambands bænda m.a. Ég vænti að hv. þm. hafi séð það.