18.02.1985
Efri deild: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2977 í B-deild Alþingistíðinda. (2450)

226. mál, vélstjórnarnám

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Hæstv. forseti. Ég vildi bara þakka hv. menntmn. fyrir afgreiðslu á þessu frv. og vonast til að það verði nú enn fljótara í gegnum Nd. Ég tel að það sé orðið brýnt að afgreiða þetta frv. vegna þess að námskeið vegna undanþágumannanna eru þegar komin í gang og það þarf að vinda að því bráðan bug að semja reglugerð eftir þessu frv. ef að lögum verður til að unnt verði að framkvæma það sem í því segir.

Að því er varðar athugasemd hv. 4. þm. Vesturl. vil ég sérstaklega taka það fram að síðla árs 1983 var gengið frá formlegu samkomulagi milli allra framhaldsskólanna á Vesturlandi. Þ. á m. var gert ráð fyrir því að þar sem ekki væri nemendafjöldi til að halda uppi viðhlítandi fræðslu á framhaldsskólastigi, eins og var í því tilfelli sem hv. þm. vék að, væri sótt til eins höfuðskóla á samningssvæðinu sem var Fjölbrautaskólinn á Akranesi. Ég hygg að allir sveitarstjórnarmenn á svæðinu og skólamenn hafi verið mjög ánægðir með það að þetta samkomulag komst á og ég veit ekki betur en að það hafi reynst vel það sem af er. En því er ég að nefna þetta að ég vil undirstrika það að ég tel ekki nægilegt að fræðslan fari fram á þeim stað þar sem nemendur eiga heima. Hitt fel ég vera aðalatriðið að tryggja gæði þessarar fræðslu, að hún sé eins og best verður á kosið, þannig að fullnægt sé öllum nútímakröfum, bæði til að tryggja atvinnuöryggi þeirra manna sem fræðsluna fá og öryggi þeirra sjálfra og starfsmanna á flotanum þar sem væntanlegir vélstjórar munu starfa.