18.02.1985
Efri deild: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2978 í B-deild Alþingistíðinda. (2454)

309. mál, atvinnuleysistryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Í 79. gr. laga 67/1971 um almannatryggingar er ákvæði um það að ráðh. skuli innan sex mánaða breyta upphæðum bóta skv. þeim lögum ef breyting hefur orðið á vikukaupi í almennri verkamannavinnu. Í reynd hefur þessi sex mánaða frestur ekki verið notaður heldur reynt að láta bótaupphæðir verða samstiga kauphækkunum.

Í lögum um atvinnuleysistryggingar, nú síðast lögunum frá 1981, eru hins vegar engin samsvarandi ákvæði, heldur hafa iðgjöld og bætur miðast við tilgreindan launaflokk í samningi Verkamannasambands Íslands og vinnuveitenda. Bætur og iðgjöld hafa þó jafnóðum hækkað þegar kaup skv. hinum tiltekna launaflokki hækkaði vegna nýrra samninga eða vegna vísitöluuppbótar. Segja má að þetta hafi verið eðlileg regla og fullnægjandi trygging fyrir tengslum launa og bóta meðan það var aðalreglan við samningsgerð að kaup skv. tilgreindum launaflokkum hækkaði en flokkum fjölgaði ekki að ráði.

Nú er hins vegar svo komið að aðalkjarabætur felast oftar en ekki í tilflutningi starfa á milli launaflokka. Enda er svo komið að í dag eru engin laun eftir í þeim launaflokki sem við er miðað í lögum um atvinnuleysistryggingar, 8. launaflokki. Sá flokkur er nú aðeins notaður til að reikna út iðgjöld og bætur.

Störf þeirra launþega sem á sínum tíma tóku kaup skv. 8. fl. eru nú flokkuð í 13. launaflokk og eiga skv. gildandi kjarasamningum að færast í 15. launaflokk 1. maí n.k. Þetta misræmi stakk svo í augu við síðustu samningsgerð að ríkisstj. hét því að beita sér fyrir leiðréttingu á Alþingi í því skyni að hækka viðmiðunarflokk bóta til samræmis við þær breytingar sem orðið hafa á röðun starfa í launaflokka frá því að lögin voru sett 1981. Við þá leiðréttingu þótti rétt að miðað yrði, eins og gert var 1981, við þann flokk sem greitt væri eftir fyrir almenna fiskvinnu, enda munu einna flestir taka laun skv. þeim flokki. Því liggur beint við að nefna þau störf sem miða skal við en ekki rígbinda bætur áfram við númeraðan launaflokk.

Um þessa breytingu fjalla þrjár fyrstu gr. þessa frv. eins og rakið er í athugasemdum við þær. Í 4. grein frv. eru hins vegar nýmæli sem segja má að leiði af setningu laga nr. 22/1981 og nr. 46/1981, en með þeim lögum öðluðust félagsmenn BHM og BSRB rétt til atvinnuleysisbóta á sama hátt og aðrir launþegar. Bætur skv. þessum síðastnefndu lögum greiðast hins vegar ekki úr Atvinnuleysistryggingasjóði heldur af ríki eða sveitarfélögum hverju fyrir sig án iðgjaldainnheimtu, enda ekki um sameiginlegan bótasjóð þessara aðila að ræða. Þetta leiðir til þess að í gangi eru þrjú aðskilin kerfi sem eru þó að því leyti eins að öll mál á að afgreiða í samræmi við lögin nr. 64/1981, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum.

Af þessu leiðir að hver sem sækir um bætur vegna atvinnuleysis verður að hafa unnið a.m.k. 425 klst. innan ramma viðkomandi kerfis til að öðlast lágmarksrétt. Skv. þessu er það því hugsanlegt að launþegi, sem unnið hefur alls 1272 klst. á síðustu 12 mánuðum skv. samningum ASÍ, BSRB og BHM, eigi þegar upp er staðið engan lagalegan rétt til bóta. Því er hér lagt til að heimilað verði að leggja saman vinnuframlag til ákvörðunar bóta og greiða úr hverju kerfi fyrir sig að tiltölu. Það er ekki mikið um það að á slíka heimild reyni, svo hér yrði ekki um verulegan útgjaldaauka að ræða. Hins vegar munar það hvern þann sem er atvinnulaus miklu að hann njóti bóta miðað við allt sitt vinnuframlag en ekki aðeins hluta þess. Þetta verður að teljast sanngirnismál sem og það að fólk sé ekki bundið á klafa í einu kerfinu og geti trauðla skipt um vinnu nema eiga á hættu að missa rétt til bóta ef á bótakerfið reynir.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.