18.02.1985
Efri deild: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2980 í B-deild Alþingistíðinda. (2456)

309. mál, atvinnuleysistryggingar

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er vissulega til bóta og er í takt við þau fyrirheit sem ríkisstj. gaf við gerð síðustu kjarasamninga. En þær tilfærslur, sem urðu með þeim samningum, gerðu það að verkum að ef þetta hefði ekki verið fært til, þ.e. bótaupphæðin, þá hefðu atvinnuleysisbætur færst niður fyrir alla taxta.

Hv. síðasti ræðumaður hefur minnst á það að ástæða er til að huga að því hvernig atvinnumálum er komið þegar við nú fjöllum um frv. um atvinnuleysistryggingar.

Í lögum um atvinnuleysistryggingar segir að hámarksbótatími sé 180 dagar. Nú er svo komið þar sem ég þekki gerst til að allmargar konur hafa nú verið á atvinnuleysisbótum í þennan tíma. Eftir það hafa þær að engu að hverfa. Það er dapurlegt fyrir það fólk sem þannig er statt og það er dapurlegt fyrir þjóðfélagið að svo skuli málum komið að þetta eigi sér stað. Auðvitað þurfa hlutir að vera þannig að allir hafi atvinnu. Það eru mannréttindi, fyllstu mannréttindi, að hafa atvinnu. En í fiskiðnaði þar sem atvinnuleysið er mest er svo komið hvað réttindi þessa fólks snertir að hægt er að segja því upp með sáralitlum fyrirvara, sjö daga fyrirvara. Kauptrygging þess er svo til engin. Því hafa verkalýðssamtökin lagt á það mikla áherslu að úr því verði bætt. Reyndar liggur fyrir frv. í Nd. þar sem gerð er till. um breytingar í þessum efnum.

Það ástand, sem er í atvinnumálum, endurspeglar það hvernig sjávarútveginum er komið, að það er rekstrarstöðvun þar annað slagið og fólkið geldur þess allra fyrst. Það eru einkum konur sem verða fyrir þessu, u.þ.b. 75% af þeim, sem eru atvinnulausir, eru konur. Því miður lenda þær í því að gjalda þessa réttindaleysis sem er í þjóðfélaginu.

Ég vil nota þetta tækifæri til að skora á hv. þdm. þegar þetta frv. um aukið öryggi fiskvinnslufólks kemur hingað, sem ég vona að það geri, að menn leggi því lið. Atvinnuleysisbæturnar eru vissulega ekki háar. Þeim er öðruvísi fyrir komið en í nágrannalöndum okkar þar sem tekið er mið af því kaupgjaldi sem fólk hafði áður en það varð atvinnulaust. Átta tímarnir duga til framfærslu t.d. í Danmörku og eru lífskjör þar reyndar sannarlega betri en hér. En í sjávarplássunum þykir það vart að hafa vinnu, hafi menn aðeins átta tíma vinnu. Það eru tíu tímar sem menn vinna yfirleitt. Þegar menn verða síðan atvinnulausir fá menn aðeins hluta af átta tíma vinnu sem er náttúrlega langtum, langtum lægra en dugir til lífsviðurværis. Þessu þarf vissulega að breyta.

Ég vildi vekja athygli á þessu. Ég vek athygli á því líka enn á ný að það eru allmargar konur sem nú standa frammi fyrir því að hverfa af bótum vegna þess hvað atvinnuleysið er orðið langt. Ég vil í lokin fagna þessu frv. Það er til bóta eins og ég sagði áðan og er í samræmi við þau fyrirheit sem samningsaðilum voru gefin nú er gengið var frá síðustu kjarasamningum.