18.02.1985
Efri deild: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2982 í B-deild Alþingistíðinda. (2459)

309. mál, atvinnuleysistryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Út af þeirri fsp. sem fram kom get ég í fyrsta lagi ekki upplýst og sennilega getur enginn upplýst hversu háar upphæðir verða greiddar úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Það fer auðvitað eftir atvinnuástandi og horfum sem vonandi batna ef friður verður á vinnumarkaðnum eftir því sem líður á vertíðina og afli verður meiri. Hins vegar er hægt að fá alla aðra útreikninga í kr. frá rn. Ég veit að formaður n. er reiðubúinn að óska eftir þeim og þá verða þeir lagðir þar fyrir.

Það er alveg rétt, sem kom fram í ræðum sumra manna hér og þá sér í lagi 6. landsk. þm., að það er langmest um atvinnuleysi í fiskiðnaðinum. Ástæðan fyrir atvinnuleysi í fiskiðnaði er fyrst og fremst þær aðgerðir, sem hafa verið gerðar á undanförnum árum, að draga mjög úr fiskveiðum, setja meiri hömlur á veiðarnar, friða ákveðnar fisktegundir sem við ekki þekktum áður. Þetta kemur auðvitað harðast niður á því fólki sem þessa atvinnu stundar.

Ég er ekki líkt því að öllu leyti sammála því sem hefur verið gert í þessu á síðustu árum og alls ekki sammála Alþingi í afskiptum þess. Ég tel ekki að það sé verið að búa í haginn fyrir framtíðina með því að taka undir með samtökum eins og Greenpeace-samtökunum að það megi ekki drepa orðið nokkra skepnu hér innan 200 mílna, heldur eigi að fjölga þeim og margfalda stofninn við landið á komandi árum. Það þarf töluvert af fiski í þessa stóru belgi, þessi stóru dýr sjávarins. Þau þurfa að lifa og þau sækja í fiskstofnana. Með sama áframhaldi hlýtur það að vera stefna þeirra að binda fleiri skip. Það eykur ekki á atvinnu þessa fólks sem stundar veiðar og vinnslu sjávarafla.

Það er sjálfsagt og eðlilegt að fara varlega í öllum veiðum og við eigum vitaskuld að sinna aðvörun fiskifræðinga í því að ganga ekki of nærri ungfiski, hvort sem hann er innfjarða eða ekki. Sem betur fer bendir nú margt til þess að það sé óvenjumikið um seiðagengd á fjörðum inni og flóum, sem við eigum að gleðjast yfir og binda miklar vonir við. En við megum heldur ekki eyðileggja með því að haga okkur alveg eins og græningjar, eins og mér sýnist því miður að allt of margir í þessu þjóðfélagi geri og það meira að segja innan hv. Alþingis.

Það fer engan veginn saman að tala hér samhliða um það að tryggja atvinnu og kaupmátt launa ef við ætlum að ala hér margfaldan stofn af hvölum við landið á kostnað þjóðarinnar og þessa atvinnureksturs. Hann verður aldrei sá atvinnurekstur sem hægt er að byggja á og fólk getur treyst á undir þessum kringumstæðum.

Við mörkum stefnu í sjávarútvegsmálum eitt ár í einu og breytum henni hvað eftir annað á þessu eina ári og vitum aldrei okkar rjúkandi ráð. Stundum grípur náttúran inn í og gerir hlutina léttari og skynsamari. Það er búið að drepa alla loðnu alveg upp og kæfa hana. En ég bara segi það í sambandi við þessa hugmynd manna hér: Hugleiðið þetta líka í leiðinni. Það er fyrsta skrefið til að treysta atvinnugrundvöll í sjávarútvegi að viðurkenna það að hann verður að hafa einhverja stoð til að standa á, en hann á ekki alltaf að eiga von á því að nú verði stoppað næsta dag eða þar næsta með þeim undantekningum, sem ég nefndi, til verndunar ungfisks bæði á fjörðum og á öðrum miðum, sem við eigum sannarlega að fara eftir. Þetta er einn liðurinn í því að treysta atvinnugrundvöllinn og þetta er höfuðástæðan fyrir því hvað það er mikið óöryggi í þessum atvinnuvegi núna.

Ég legg svo mikla áherslu á það, virðulegi forseti, að þetta frv. fái greiðan gang hér í gegnum hv. deild því að það fólk, sem þarf núna á þessum bótum að halda, bíður eftir afgreiðslu þessa máls og þetta er loforð við lausn kjarasamninga eins og fram hefur komið.