18.02.1985
Efri deild: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2991 í B-deild Alþingistíðinda. (2464)

314. mál, umferðarlög

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa um þetta mörg orð við þessa umr. Ég vil aðeins fagna því að þetta frv., endurskoðuð umferðarlög, skuli hér fram komið. Það hefur átt sér langan aðdraganda. Ég hef oftar en einu sinni innt ráðh., bæði hæstv. núv. dómsmrh. og hans forvera í því embætti, eftir því hvað þessari endurskoðun líði. Hún hefur tekið mjög langan tíma og vonandi hafa gæði endurskoðunarinnar verið í réttu hlutfalli við þann tíma sem þetta hefur tekið.

Við fljótalestur á þessu frv. sýnist mér að ýmislegt sé hér til bóta, en annað orkar kannske meira tvímælis. En það sem mér þykir nú kannske einna lakast við fyrstu skoðun þessa frv. er að mér sýnist að það sé allt skrifað í hálfgerðum kansellístíl 19. aldarinnar. Ég hirði svo sem ekki um að fara að nefna mörg dæmi hér, en þau eru ýmis, t.d. í þessum skilgreiningum og raunar víðar. Þá sýnist mér eitt og annað vera þannig að það þoli ákaflega vel endurskoðun og mætti gjarnan endurskoða.

Það eru ýmis ákvæði hér sem tvímælalaust eru til bóta. Hæstv. dómsmrh. rakti hér ýmis þau nýmæli sem eru í þessu frv. T.d. minntist hann á ákvæði um akstur af aðrennslisrein eins og hér er kallað. Þetta er allt af hinu góða. En því miður er það svo að umferðarmannvirki hér eru allvíða hönnuð með þeim hætti að mér sýnist að það muni verða erfitt að fara eftir þessum ákvæðum. Ég bendi á t.d. hér inn við Elliðaár, þar sem aðrennslisrein kemur inn á og 60–80 metrum lengra í burtu kemur það sem kalla mætti frárennslisrein þar sem ekið er út af. Þessi umferðarmannvirki eru einfaldlega þannig hönnuð og upp sett — og þetta gildir víðar — að mér sýnist að ekki sé hægt að fara eftir þessu, a.m.k. ekki til hlítar. En ég ætla að geyma mér frekari athugasemdir um þetta.

Ég játa það og viðurkenni að ég hef ekki kynnt mér þetta nægilega vel á þessu stigi. En ég á sæti í þeirri nefnd sem fær þetta mál til meðferðar og það mun, fullyrði ég, fá þar vandaða athugun eins og brýnt er.

Það kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, 2. þm. Austurl., að mönnum hefur þótt svo brýnt að breyta ýmsu að það hafa verið flutt frv. í þá veru um ýmsar greinir þessa máls og er það eðlilegt. En mér segir svo hugur um að hv. allshn. þessarar hv. deildar muni þurfa verulegan tíma til að athuga þetta mál. En ég fagna því að það skuli hér fram komið til athugunar og vinnslu, enda þótt auðsætt sé að það muni þarfnast töluverðra breytinga.