18.02.1985
Neðri deild: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3001 í B-deild Alþingistíðinda. (2472)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil færa hinum vasklega formanni Alþfl. kærar þakkir fyrir það að hann skyldi gefa tækifærið með því að biðja um umræður utan dagskrár til að hreyfa húsnæðismálin, þannig að fram megi koma í fyrsta lagi hver staða þeirra sé nú og í öðru lagi að málsvarar hinna einstöku flokka geti gert grein fyrir afstöðu sinni til húsnæðismálanna í heild og hvernig þeir vilja standa að þeim málaflokki.

Ég held að okkur sé það öllum ljóst að eftir að full verðtrygging á skuldbindingum húsnæðismálastjórnar var tekin upp meðan Magnús H. Magnússon var húsnæðisráðh., ráðh. Alþfl., 1979, þá kaus Alþfl. að miða við byggingarvísitölu og síðan eftir að Svavar Gestsson tók við stjórn þessara mála var miðað við lánskjaravísitölu. Ég held að við séum allir sammála um það í dag að þessar ákvarðanir voru báðar mjög hæpnar og nauðsynlegt þá þegar að setja vissa fyrirvara, þannig að sú vísitala sem hæð lánanna miðast við skuli þó aldrei fara upp fyrir kaupgjaldsvísitölu á hverjum tíma. Þetta hef ég oft talað um hér í hinu háa Alþingi.

Ég vil líka þakka formanni Alþfl. sérstaklega fyrir það að hann skuli hafa tekið undir þá skoðun mína fullkomlega, notað m.a. sömu orð og ég, þegar hann talar um að varðandi húsnæðismálin búi tvær þjóðir í þessu landi. Þessi orð hef ég oft notað í þessum ræðustól einmitt til að minna á þann mikla mun sem varð í aðstöðu húsbyggjenda eftir að áhrifa af vaxta- og verðtryggingarstefnu Alþfl. fór að gæta eftir haustdaga 1978. Það má auðvitað segja að ráðh. sem þá sátu hafi verið nokkur vorkunn vegna þess að þegar litið er yfir eiginfjárstöðu Byggingarsjóðs ríkisins kemur í ljós að hún versnaði mjög skjótt þegar eftir að Magnús Magnússon varð húsnæðisráðh. Beint framlag ríkissjóðs á árinu 1979 lækkaði úr um 49% 1978 í 39% af ráðstöfunarfé sjóðsins þann tíma sem Magnús Magnússon fór með húsnæðismálin. Ég þarf ekki heldur að taka fram að næstu ár á eftir hélt,eiginfjárstöðunni enn áfram að hraka. Ég vil hins vegar minna á að það var eitt fyrsta verk núverandi húsnæðisráðh. að skipa nefnd til að treysta fjárhagsgrundvöll Byggingarsjóðs. Og verkin tala. Við þurfum ekki að biðjast afsökunar á okkar framlagi. Þrátt fyrir þrönga stöðu ríkissjóðs, þrátt fyrir þá staðreynd að þjóðartekjur hafa nú dregist saman þriðja árið í röð sýna fjárlög að beint framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs ríkisins hefur aldrei vaxið jafnmikið frá einu ári til annars í sögu sjóðsins og frá árinu 1984 til 1985 þegar það hækkar úr 200 millj. kr. í 622 millj. kr. Þetta talar skýru máli um að þessi ríkisstj. hefur látið hendur standa fram úr ermum í húsnæðismálunum.

Ég vil líka minna á að ef við tölum beint um það lánsfé sem Byggingarsjóður ríkisins hefur veitt kemur í ljós að á árinu 1982 voru lánaðar úr Byggingarsjóði ríkisins 393.1 millj., á árinu 1983 551 millj. og á árinu 1984 1391.3 millj. Eru þá ekki tekin inn í þau viðbótarlán sem veitt voru um áramótin 1983–1984 til að bæta stöðu þeirra húsbyggjenda sem útlánastefna Alþfl. og Alþb. hafði leikið hvað verst og þar á ég sérstaklega við þá ákvörðun Alþfl. að húsbyggingalán skyldu að fullu verðtryggð og miðuð við byggingarvísitölu beint og engin hliðsjón höfð af kjaraþróun í landinu að öðru leyti. Strax fyrsta haustið eftir að þessi ríkisstj. tók við völdum var tekin ákvörðun um að veita um 300 millj. kr. til að bæta greiðslustöðu húsbyggjenda, 141 millj. á árinu 1983 og 161 millj. kr. á árinu 1984, og með þessar staðreyndir í huga leyfir formaður Alþfl. sér að hafa það í flimtingum að Sjálfstfl. hafi staðið við sín orð í húsnæðismálum.

Ég þekki ekki dæmi þess úr sögunni að frá einu ári til annars, ef viðbótarlánin eru meðtalin, skuli útlán Byggingarsjóðs þrefaldast á sama tíma og verðbólgan hrekkur úr 130% niður undir 20%. Nú er ég að tala um verðbólgu í einstökum mánuðum á árinu 1984. Á sama tíma og byggingarkostnaður hækkaði um 58% hækkuðu lánin ekki um 58% og ekki um 100% heldur um 200% úr Byggingarsjóði ríkisins. Á sama tíma og byggingarkostnaður hækkar innan við 60% hækkuðu útlán Byggingarsjóðs í krónum talið um rúmlega 200%. Ef við lítum á útlán til hvers einstaklings kemur líka í ljós, það var rétt sem hv. húsnæðisráðh. sagði áðan, að ef við miðum beint við hlutfall af staðalíbúðarverði hækkuðu lánin um 50%, en ef við tökum raungildi lánanna og berum saman við hækkun byggingarvísitölu á tímanum kemur í ljós að raungildi lánanna hefur a.m.k. tvöfaldast og meir ef við tökum inn í dæmið að tíminn var styttur frá fokheldisstigi og þangað til lánin voru veitt.

Hitt ætla ég að láta koma skýrt fram og er ekki launungarmál, enda hafði ég sérstakt orð á því í Morgunblaðinu á laugardaginn, að það olli mér vonbrigðum að fá þær fregnir að greiðslustaða Byggingarsjóðs ríkisins skuli vera svo tæp nú, en fyrir því eru ýmsar ástæður og m.a. sú að Alþingi tók þá ákvörðun á síðasta þingi að allar greiðslur til námsmanna vegna skyldusparnaðar skyldu gjaldfalla strax eftir áramót. Bara þessi eina skuldbinding þýðir mjög verulegt fjárstreymi út úr sjóðnum ásamt því sem skuldbindingar féllu frá lífeyrissjóðum og Seðlabanka, auk þess sem nokkurt fé var veitt að láni úr sjóðnum.

Þetta vil ég að komi skýrt fram. Ég held að ríkisstj. þurfi ekki að bera kinnroða fyrir þær lánveitingar sem veittar hafa verið úr ríkissjóði, en mér dettur á hinn bóginn ekki í hug að draga dul á að auðvitað hljótum við að harma að dagsetningar skuli ekki hafa getað staðið. Auðvitað er nauðsynlegt að gera áætlun til þess að svo geti orðið í framtíðinni. Það er mín skoðun og ég heyri að hæstv. félmrh. er sammála mér, það kom fram í ræðu hans hér áðan, að óhjákvæmilegt sé að Byggung og aðrir þeir húsbyggjendur sem áttu að fá greiðslu á lánum hinn 1. jan. fái úrlausn í þessari viku. Ég átti tal við stjórnarmenn í Húsnæðisstofnun í morgun og ég veit að þeir munu hitta fulltrúa Seðlabankans í dag eða á morgun og ég efast ekki um að þetta geti tekist og leyfi mér að vona líka að hægt verði að koma þessum málum í betra horf.

Ég vil líka vekja athygli á því að nú er meira átak gert að raungildi í útlánum úr Byggingarsjóði en kannske nokkru sinni fyrr í sögunni frá einu ári til annars samtímis því sem mikil fjölgun verður á íbúðabyggingum. Ef við tökum bara Reykjavíkurborg kemur í ljós að þar hefur aldrei á einu ári verið byrjað á jafnmörgum byggingum og á s.l. ári, nema farið sé aftur til ársins 1973. Þannig var hafin bygging á rúmlega 800 íbúðum bara hér í borginni og víða voru byggingaframkvæmdir miklar. Þetta kemur auðvitað fram í miklum útlánum Byggingarsjóðsins. Ég er þeirrar skoðunar að ástæðan fyrir þessari miklu lánsfjárþörf nú sé m.a. fullkomnari tækni við byggingariðnaðinn en áður, þannig að hús verða fyrr fokheld og komast fyrr á fokheldisstig. Þetta sáum við glöggt þegar við skoðuðum þá miklu tækni sem Byggung hefur tekið upp og einnig hitt að einingahús færast nú mjög í vöxt sem styttir byggingartíma og flýtir fyrir því að skuldbindingar falla á Byggingarsjóð ríkisins.

Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé yfirgangsár sem við erum nú að lifa. Ég held að skuldbindingar Byggingarsjóðs ríkisins verði mestar kannske á þessu ári, kannske því síðasta, kannske á þessu ári, ég býst við því, og síðan muni þær fara að minnka og draga úr byggingarframkvæmdum, markaðurinn muni mettast, verði byrjað á færri íbúðum í haust eða á næsta ári, þannig að hápunkturinn sé nú, og frammi fyrir því þurfum við að standa að þessu sinni.

Ég hafði gaman af því, ef ég tók rétt eftir, að hæstv. húsnæðisráðherra sagði að það væri vandi fjmrn. að afla fjár til húsnæðismálanna. Ekki skal ég draga úr því að Albert verður að standa sig, hæstv. fjmrh., en ekki mundi spilla fyrir þó hæstv. félmrh. reyndi að hjálpa til.

Í mínum huga er það ekki aðalatriði, þegar við tölum um lán til húsnæðismála, hversu mikill hluti fer í gegnum Húsnæðisstofnun ríkisins og hversu mikið fer í gegnum lífeyrissjóðina. Þegar Sjálfstfl. setti fram stefnumark sitt um 80% lán til íbúða var inni í okkar áætlun að lífeyrissjóðslánin kæmu þar til viðbótar og þetta hefur tekist að vissu marki. Ef við lítum t.d. á þær íbúðir sem Byggung er að reisa nú, sem eru mun ódýrari en t.d. íbúðir í verkamannabústöðum, ætla ég að í mörgum tilvikum sé þessi viðmiðun 29% af staðalíbúðarverði. Fari hún yfir 50% af raunverði þeirra íbúða sem Byggung er að reisa, liggi á bilinu 50–60%, og ef við bætum þar við lífeyrissjóðslánum þessa unga fólks, þá hygg ég að nærri láti að lánin fari oft og tíðum upp í 70–80%. Þannig hefur þetta tekist, líka vegna þess að á hinum frjálsa markaði sjá bæði þeir sem byggja og húskaupendurnir sér hagnað í því að byggja ódýrt. Þeirra lánsfyrirgreiðsla úr Byggingarsjóðnum er bundin við ákveðna krónutölu, er bundin við ákveðið hlutfall af hinni hugsuðu staðalíbúð og þeir fá ekki eyri meir úr Byggingarsjóði ríkisins þó þeir byggi dýrt og eftir hinum nýju reglum minna eftir því sem óhóflegra er byggt. Á hinn bóginn er það svo um verkamannabústaðakerfið, svo ég taki það til viðmiðunar, að lán úr ríkissjóði hækka líka að vissu marki eftir því sem byggingarkostnaðurinn vex. 80% markið í Byggingarsjóði verkamanna miðast við staðalíbúðarverðið. Þó svo að fram hafi komið t.d. í uppgjöri húsnæðismálastjórnar frá 1. des. 1983 að verðmunur á tveimur íbúðum hafi verið 78%, þó svo að íbúð í verkamannabústað, að vísu í raðhúsi, hafi verið 78% dýrari en íbúð í verkamannabústað á öðrum stað, þá fá báðir þessir aðilar 80% af verði íbúðarinnar. Í því kerfi er engin tilhneiging til sparnaðar, meiri hagsýni, eins og er í hinu almenna kerfi og eins og hefur leitt til þess, vafalaust, að Byggung leggur ríkari áherslu á það og ýmsir á hinum frjálsa markaði að byggja ódýrar en gert er í verkamannabústaðakerfinu. Ég er raunar þeirrar skoðunar að útilokað sé fyrir þá menn sem ábyrgð bera á því kerfi að horfa á það þegjandi hversu dýrt er að komast yfir slíkar íbúðir og að óhjákvæmilegt sé fyrir þá að efla til verðlaunasamkeppni meðal arkitekta um það hversu hagkvæmt sé að byggja íbúðir fyrir þá sem verst eru settir, lægstu launin hafa. Það fólk hefur ekki ráð á því að borga 78% meira á einum stað en öðrum.

Ég vil vekja athygli á því að ef Byggung nyti sömu kjara hjá húsnæðismálastjórn og verkamannabústaðir hefðu heildarlán til þess fyrirtækis, allra íbúða félagsins, kostað byggingarsjóðina 900 millj. kr. meir en raunveruleg lán nema. Ef íbúðir Byggung hefðu verið byggðar eftir verkamannabústaðakerfinu hefðu skuldbindingar ríkissjóðs til þess að lána eigendum þessara íbúða orðið 900 millj. kr. meiri en þær hafa verið og eru. Það er samanlagt allt fé sem lánað var úr Byggingarsjóði ríkisins árin 1982 og 1983, ef maður miðar eingöngu við krónutölu.

Formaður Alþfl. talaði um að ég hefði gumað af því að ríkisstj. mundi setja met gagnvart húsbyggjendum. Ég skora nú á þennan mann, ef hann vill standa fyrir sínum orðum, að benda mér á það ár þar sem fyrirgreiðsla til húsbyggjenda úr Byggingarsjóði ríkisins hefur vaxið jafnmikið frá einu ári til annars og frá árinu 1983 til 1984.

Hitt skal ég játa að ýmislegt gott var gert í húsnæðismálunum á þeim tíma þegar við héldum í skottið á Alþfl., þó að við leyfðum honum að fara með þau mál, í viðreisnarstjórninni. En það sýndi sig þegar við slepptum af þeim hendinni að þeir voru fljótir til að brjóta niður það kerfi sem við byggðum upp í sameiningu, þessir tveir flokkar, á árunum 1960–1970. Það sýndi hinn stutti og snautlegi ráðherraferill varaformanns Alþfl. á árunum 1978–1979, eins og ég hef gert hér grein fyrir.

Herra forseti. Eins og hæstv. félmrh. hefur gert grein fyrir bera fjárlög og lánsfjárlög með sér að ríkisstj. hefur sett sér hátt mark í sambandi við húsnæðislánin á þessu ári ekki síður en á því síðasta og tel ég miklu skipta að okkur takist í hvívetna að standa við þau fyrirheit sem ríkisstj. gaf með yfirlýsingu sinni haustið 1983 og margsinnis hefur verið ítrekuð síðan. Þá á ég ekki aðeins við lánsfjárhæðina heldur einnig að hægt sé að flýta lánsfyrirgreiðslu þannig að tíminn styttist hjá þeim lántakendum sem fá svokölluð G-lán og að fullu verði staðið við greiðslur til húsbyggjenda úr Byggingarsjóði ríkisins. Ég vil vænta þess að við meðferð lánsfjárlaga á hinu háa Alþingi takist okkur að ná þessu marki.

Það er öldungis rétt, sem fram hefur komið í blöðum og mikil umræða er um í þjóðfélaginu, að ýmsir þjóðfélagsþegnar, margt ungt fólk, eiga nú í erfiðleikum með að standa í skilum vegna sinna fjárskuldbindinga vegna þess hversu mjög lánin hafa hækkað borið saman við kaupmátt í landinu. Við þessu mátti náttúrlega búast eftir að samdráttur varð í þjóðarframleiðslunni. Eftir að þjóðartekjurnar minnkuðu ár frá ári var að sjálfsögðu óhjákvæmilegt að lífskjörum hnignaði nema við héldum áfram þeirri óhóflegu söfnun erlendra lána sem fyrstu árin eftir 1980 bera með sér. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar, og hafði orð á því raunar á þeim tíma hér á Alþingi, að breytingin frá vaxtaaukalánum yfir í verðtryggð lán hafi verið of snögg. Ég og minn flokkur vorum þeirrar skoðunar þá að nauðsynlegt hefði verið að gefa þeim mönnum sem stofnað höfðu til skuldbindinga í bönkum, sparisjóðum og víðar meira svigrúm til að standa í skilum eftir að full verðtrygging var upp tekin miðað við fyrri lánakjör. Því miður var sú leið ekki farin og því miður hefur það farið saman að lífskjörin hafa versnað fram á haustið 1984 með þeim afleiðingum að greiðslubyrði lánanna er nú mun meiri en þetta fólk hafði gert ráð fyrir og stundum hefur þetta leitt til mjög mikilla erfiðleika. Ég vil þess vegna fagna því sérstaklega að ríkisstj. skuli nú öðru sinni beita sér fyrir mjög víðtækum ráðstöfunum til að koma til móts við þá húsbyggjendur sem erfiðast eiga. Það var gert hið fyrra sinnið á s.l. hausti. Eins og ég sagði áðan var varið 300 millj. kr. í því skyni og nú er gert ráð fyrir verulegri fjárhæð til hins sama. Ég hef lánsfjáráætlun ekki hjá mér og vil þess vegna ekki með það fara. Þó er ekki búið að binda neitt fastmælum í þeim efnum þannig að sú fjárhæð getur hækkað ef nauðsyn krefur.

Þetta er mjög þýðingarmikið mál, þetta er frá mannlegu sjónarmiði merkilegt mál. Þetta sýnir að ríkisstj. vill, eftir því sem kostur er, reyna á þessum erfiðu tímum að koma á móti því fólki sem þyngstar ber byrðarnar. Þetta er þess vegna einn liður í því að bæta kjör þeirra sem verst eru settir í þessu þjóðfélagi, eins og hinar ýmsu aðgerðir ríkisstj. bera vott um að gert hefur verið. Vil ég sérstaklega líka í því sambandi tala um þær miklu breytingar sem urðu á kjörum einstæðra mæðra eftir ráðstafanirnar fyrir ári. Ég vil einnig minna á að lágmarkstekjutrygging var tekin upp á s.l. ári þó ég hljóti um leið að harma að í samningunum í haust var dregið úr þeirri tryggingu. En allt er þetta til þess að koma til móts við þá sem verst eru settir. Ég hef orðið var við það hjá ýmsum sem ég hef talað við að fólk fylgist mjög náið með þessum málum og telur að ríkisstj. hafi þarna einmitt komið til móts við borgarana á þann hátt að um raunverulegar kjarabætur er að ræða. Það er verið að hjálpa fólkinu til að búa betur í haginn fyrir framtíðina.

Herra forseti. Ég þarf ekki að orðlengja þetta frekar. Ég hef sýnt fram á það og það liggur fyrir að þessi ríkisstj. hefur tekið húsnæðismálin svo föstum tökum að undrun má sæta. Það liggur fyrir að lán til húsnæðismála úr Byggingarsjóði ríkisins eru svo há miðað við fyrri ár að ég efast um að það þoli samjöfnuð. Mér þætti vænt um að sjá þann samjöfnuð. Ef við lítum á lánsfyrirgreiðslu sem fólk hefur fengið á s.l. ári og er að fá afhent nú, t.d. það fólk sem byggir á vegum Byggung, kemur í ljós að einungis lánsfyrirgreiðslan úr Byggingarsjóði ríkisins nemur, miðað við kostnaðarverð þessara íbúða, milli 50 og 60%. Það hygg ég að sé meiri árangur en ýmsir stjórnarandstæðingar höfðu gert sér grein fyrir, enda ber það allt of oft við hér á Alþingi að menn gleymi að setja sig inn í málin sem skyldi.