19.02.1985
Sameinað þing: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3016 í B-deild Alþingistíðinda. (2478)

286. mál, kjör og starfsaðstaða framhaldskólakennara

Helgi Seljan:

Herra forseti. Tvær mínútur duga skammt í stórmálin. Langlundargeð kennara er eðlilega á þrotum, launakjörin vitanlega slík að engu tali tekur og endurspeglar vanmat á þýðingu og gildi kennarastarfsins og furðulegt skilningsleysi á vinnutíma þeirra og álagi samfara starfinu. Spurningin snýst í raun um áherslu á menntun og menningu, uppeldi æskunnar til framtíðarheilla og farsældar. Spurningin er: Er okkur alvara með þessum orðum? Hagsmunir nemenda og kennara fara saman. Atgervisflótti úr kennarastétt hefur ófyrirsjáanlegar afleiðingar.

Framkoma stjórnvalda gagnvart kennurum sýnir ekki þetta viðhorf, þessi sannindi, og skal þó ósköpunum frá í haust gleymt þó að máske endurspegli það viðhorf skoðanir fleiri. Ekki þótti mér heldur hæstv. menntmrh. — þrátt fyrir býsna falleg orð þar sem ýmislegt var gefið í skyn — vera á þeim buxunum að rétta hlut kennara svo sem þarf og ber ef forða á miklum vanda. Mér heyrðist frekar að hún væri að hugsa um einhver lagaákvæði sem gætu þvingað kennara til að halda áfram á óviðunandi launum.

Ekki þykja mér bréf hæstv. ráðh. heldur barmafull af velvilja og skilningi. — Það skal tekið fram í ljósi síðustu atburða að máske megi annað lesa þar milli línanna eins og nú er helstur siður í stjórnarráðinu að túlka tilkynningar frá stjórnvöldum.

En alvarlegast í öllu þessu máli er þó ef okkar ágæta menntakerfi verður brotið á bak aftur og þar er ég kannske komin að meginmálinu í þessu efni. Það virðist svo að fólk sé í góðu skapi í rn. hæstv. ráðh. Þar gerir það óspart að gamni sínu að sögn hæstv. ráðh. En ég spyr: Skyldi ekki hreinskilni hæstv. aðstoðarmanns ráðh. vera það sem gildir og eigi að gilda? Ætli bónuskennslan og tilboðskennslan á markaðstorgi auðhyggjunnar sé ekki það sem koma skal, að jöfnuður í menntun og jafnrétti til náms og uppfræðslu verði máske eitthvað sem fólk muni í framtíðinni nota til þess að gera að gamni sínu í fílabeinsturni frelsisins í krafti fjármagns en fyrst og fremst með mismunun að leiðarljósi? (Forseti hringir.) Þetta óttast ég og mér sýnast mörg teikn á lofti sem sýna að það sé þessi stefna sem eigi að ráða í framtíðinni.