19.02.1985
Sameinað þing: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3019 í B-deild Alþingistíðinda. (2484)

286. mál, kjör og starfsaðstaða framhaldskólakennara

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég hygg að allir hafi eftir því tekið að engin efnisleg svör komu frá hæstv. menntmrh. í þessu stóra máli. Það var ekki heldur upplýst af hæstv. ráðh. hvort hann hefði borið sig saman við fjmrh. og ætti von á stuðningi hans. Það er greinilegt að ríkisstj. og viðkomandi ráðh. ætla að halda þannig á málum að 1. mars líði án þess að gengið hafi verið frá sérkjarasamningum við kennara og án þess að fyrir liggi hvers sé að vænta í þeim efnum sem til umr. hafa verið, svo sem varðandi lögverndun á starfsheiti kennara og starfsmat fyrir þá. Þetta eru ósæmileg vinnubrögð og þau hlýt ég að fordæma og ég veit að það munu margir undir það taka.