19.02.1985
Sameinað þing: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3019 í B-deild Alþingistíðinda. (2485)

286. mál, kjör og starfsaðstaða framhaldskólakennara

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vona að hv. þingheimi sé ljóst að þær ályktanir sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson dró voru mjög óvandaðar og alls ekki í neinu rökréttu samhengi við þær upplýsingar sem fyrir liggja. Þær virðast til þess eins fallnar að efla úlfúð. Og úlfúð verður ekki til þess að bæta aðstöðu til samningaviðræðna. Ef hv. þm. vill raunverulega stuðla að samkomulagi held ég að hann ætti ekki að vera með einhverjum óvönduðum hætti að seilast til ástæðna sem valda því einungis að auka tortryggni og auka erfiðleika í viðræðum.

Hv. forseti. Það er e.t.v. ekki mitt að svara fsp. hv. þm. Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur, en mig langar til þess að skjóta inn einu atriði varðandi það sem hún spurði um. Ég hugsa að mér hafi brugðið jafnmikið í brún og henni og mörgum þegar hv. þm. las — að vísu tekinn út úr samhengi — kafla úr grg. Indriða Þorlákssonar, formanns samninganefndar ríkisins, og ég lét spyrjast fyrir um það strax hverju þetta sætti. Ég fékk þá skýringu að hér hafi verið um að ræða tiltekinn tölulið í greinargerð formannsins þar sem einungis var verið að skýra frá tölfræðilegum staðreyndum, upplýsingum um staðreyndir og útreikninga sem fyrir liggja, en ekki að þarna væri verið að tefla fram rökum fyrir því að svona ætti þetta að vera, heldur þvert á móti að þessi niðurstaða, þessi munur, sem við vitum öll að er í meðallaunum kvenna og karla í hinu opinbera kerfi, sé munur sem þarf að leiðrétta, það sé munur sem þarf að eyða.