19.02.1985
Sameinað þing: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3021 í B-deild Alþingistíðinda. (2488)

286. mál, kjör og starfsaðstaða framhaldskólakennara

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Að sjálfsögðu vonast allir alþm. til þess að það takist samkomulag í þeirri launadeilu sem nú stendur á milli hæstv. ríkisstj. og kennara. Það er okkar allra ósk hvar svo sem við sitjum í salnum og hvoru megin við stjórnarborðið sem við erum. Þessi deila hefur hins vegar sprottið af því að það hefur orðið mjög verulegt launabil í landinu og aðgerðir hæstv. ríkisstj. í kjaramálum á síðustu misserum hafa enn vakið athygli á því hversu breitt þetta bil er orðið. Það er stór hópur þjóðfélagsþegna sem tekist hefur að velta öllum þeim byrðum af sér sem hæstv. ríkisstj. hefur reynt að jafna niður á þjóðina. Því miður er þetta sá hinn sami hópur og tekur því sem næst engan þátt í því að standa undir útgjöldum samfélagsins. Það er þetta misrétti sem opinberir starfsmenn og aðrir láglaunahópar eru að mótmæla í kjarabaráttu sinni nú. Það eru aðgerðir ríkisstj. sem öðru fremur hafa vakið athygli á þessu mikla misrétti.

En, herra forseti, það eru fleiri aðilar að þessu máli en hæstv. ríkisstj. og kennarar. Menn verða líka að hugleiða vandamál nemendanna. Hæstv. menntmrh. hlýtur að geta frætt okkur um hvað gerist þann 1. mars í framhaldsskólakerfinu ef ekki verður búið að ná samningum við kennara. Hvaða framhaldsskólar munu þá geta starfað áfram svo til ótruflaðir og hverjir ekki? Hæstv. menntmrh. hlýtur einnig að geta frætt okkur eitthvað um hvaða úrræði eru þá til til þess að reyna að tryggja það eftir föngum, ef ekki næst samkomulag, að íslenskir nemendur, sem þegar hafa orðið fyrir verulegum truflunum á skólastarfi vegna átaka um kaup og kjör milli hæstv. ríkisstj. og kennara, geti sómasamlega notið kennslu á þeim vetri sem nú er að líða og geti gengið til prófa í vor, þegar samkomulagi hefur verið náð, á grundvelli þeirrar takmörkuðu kennslu sem þeir hafa fengið. Hæstv. menntmrh. hlýtur eitthvað að vita um þessi mál, hlýtur að geta skýrt okkur frá þessum málum þegar svo fáir dagar eru til úrslita.