19.02.1985
Sameinað þing: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3022 í B-deild Alþingistíðinda. (2490)

286. mál, kjör og starfsaðstaða framhaldskólakennara

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh. fyrir þau vör sem þau gáfu við fsp. minni. Ég fagna því að ráðuneytismenn skuli hafa horfið frá því að beita launamismun kynjanna fyrir sig í samningaviðræðum við opinbera starfsmenn eins og allt útlit var fyrir áður en skýringar fengust á röksemdafærslum Indriða H. Þorlákssonar. Nú skora ég á ráðuneytismenn að gera enn betur og ráðast til atlögu við misréttið sjálft í komandi sérkjarasamningum og leiðrétta þar bæði hlut þeirra kvenna sem hér um ræðir og starfsmannahópsins alls.