19.02.1985
Sameinað þing: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3024 í B-deild Alþingistíðinda. (2494)

286. mál, kjör og starfsaðstaða framhaldskólakennara

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Hv. þm. Ólafur Þórðarson hefur gert nokkuð að umtalsefni afskipti mín af kjaramálum kennara á liðnum árum. Það er rétt hjá honum að ég gerði æði oft fyrir hönd ríkisstj. samninga við kennarasamtök, líklega eina fjóra aðalkjarasamninga og jafnmarga sérkjarasamninga. Ég hygg að samskipti við samtök kennara hafi á þessum tíma verið allgóð og þá hafi æðimörg hagsmunamál kennara verið til athugunar og komið til framkvæmda, en í fyrirspurnatíma er sannarlega ekki tækifæri til að rifja það upp.

Nú er allt annað ástand eins og menn þekkja. Nú eru fjöldauppsagnir í gangi og skólakerfið að lamast. Slíkt ástand skapaðist ekki í tíð fyrri stjórnar. Reyndar þarf að leita nokkuð langt aftur í tímann til að finna slíkt ástand. Undirrót þessa vanda er að sjálfsögðu sú að ríkisstj. hefur staðið fyrir því að taka u.þ.b. fjórðu hverju krónu úr launaumslagi fólks, bæði kennara og margra annarra. Það er auðvitað ekkert síður á ábyrgð hv. þm. Vestf. Ólafs Þ. Þórðarsonar eða annarra þm. Framsfl. en þm. Sjálfstfl. að þessi kjaraskerðing hefur orðið með þeim afleiðingum að mjög mikill óróleiki er á vinnumarkaði eins og eðlilegt er. Þetta er undirrót vandans: Fólk getur ekki lifað af launum sínum og þess vegna grípa menn til svona aðgerða.

Í þessu sambandi er sérstök ástæða til að vekja athygli á því að hæstv. menntmrh. hefur framlengt uppsagnarfrest kennara um þrjá mánuði eins og flestir þekkja. Ég vil nota þetta tækifæri til að minna á að vefengt hefur verið að ráðh. hafi rétt til þess með svo skömmum fyrirvara sem hér er um að ræða, aðeins hálfs mánaðar fyrirvara, að framlengja frest kennara. Það var talið í tíð fyrri ríkisstjórnar að ráðh. yrði að beita þessum rétti með a.m.k. mánaðar fyrirvara. Ég minnist þess að á þetta reyndi þegar ég var í fjmrn. Þá var fresturinn ekki notaður einmitt af þessari ástæðu að talið var að tími væri orðinn of skammur til þess. Ég vil sem sagt vekja athygli á því að hér er um mjög umdeilt lögfræðilegt spursmál að ræða og alls ekki ljóst að hæstv. ráðh. hafi réttinn sín megin.