19.02.1985
Sameinað þing: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3030 í B-deild Alþingistíðinda. (2500)

225. mál, staðfesting Flórens-sáttmála

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans. Það er nú kannske komið á daginn að ekki er sanngjarnt að láta fjmrn. reyna að skilgreina menningu. En ég get samt ekki alveg séð að það skuli vera pólitísk ákvörðun að framkvæma vilja Alþingis og ég vildi benda hæstv. fjmrh. á það að Íslendingar hafa yfirleitt ekki látið bækur þvælast fyrir sér og ég vildi jafnframt benda á það að við höfum engin efni á að bíða. Það er mjög mikilvægt mál að ákvæði þessa samnings komist í gildi til þess að mennta-, menningar- og vísindalíf fái þrifist hér sem grundvöllur fyrir framtíð okkar. Ég vildi því hvetja hæstv. fjmrh. að beita sér fyrir því að þessu máli verði lokið sem fyrst og reglugerðin verði smíðuð. Hann getur þá kvatt til sín hjálp úr menntmrn. eða hvaðan sem hún best gæti komið til þess að hægt sé að skilgreina hvað tilheyri menningu og hvað ekki.