19.02.1985
Sameinað þing: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3031 í B-deild Alþingistíðinda. (2503)

257. mál, starfsemi banka og sparisjóða

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. 2. landsk. þm. hefur gert grein fyrir þeim fsp. sem hann hefur beint til viðskrh. á þskj. 435 og lesið þær hér upp svo að ég sé ekki ástæðu til að endurtaka þær.

Svar; við fyrstu fsp. er svohljóðandi: Hinn 31. des. 1984 námu skuldbindingar viðskiptabankanna erlendis sem hér segir í milljónum króna á gengi 31. þess mánaðar: Yfirdráttarskuldir hjá erlendum bönkum 1 milljarður 117 millj., endurlánuð skammtímalán 6 milljarðar 81 millj., endurlánuð lán til langs tíma 4 milljarðar 661 millj., erlendar ábyrgðir 3 milljarðar 957 millj. Samtals 15 milljarðar 816 millj.

Að því er varðar 2. tölul. fsp. má vísa til lagaákvæða, nánar tiltekið í lög nr. 63/1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála. Í 12. gr. er kveðið á um þá meginreglu sem skal gilda um heimildir viðskiptabanka og sparisjóða til lántöku erlendis. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ekki mega opinberir aðilar né einkaaðilar semja um að taka lán erlendis, nema með samþykki ríkisstjórnar. Til lána telst í þessu sambandi einnig hvers konar greiðslufrestur á vörum og þjónustu svo og leigusamningar, sjá þó 2. málsgr.

Viðskrn. setur, að höfðu samráði við Seðlabankann, reglur um erlendar lántökur til lengri eða skemmri tíma, þar með talið stutt vörukaupalán.

Lántökur gjaldeyrisviðskiptabanka erlendis til að endurlána inniendum aðilum, svo og aðrar lántökur en þær sem nefndar eru í 10. gr., skulu háðar ákvæðum þessarar greinar.“

Eins og fram kemur í 12. gr. njóta viðskiptabankar og sparisjóðir undanþágu frá meginreglunni. Undanþáguna er, eins og áður segir, að finna í 10. gr. laganna. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Gjaldeyrisviðskiptabönkunum er heimilt að semja um yfirdráttarheimildir til skamms tíma hjá erlendum bönkum. Skulu þeir gera Seðlabankanum grein fyrir þeim samningum, svo og rn., ef þess er óskað. Notkun slíkra yfirdráttarheimilda skal ekki vera meiri en sem svarar erlendum innstæðum viðkomandi banka á sama tíma, nema að því leyti sem viðskiptaástæður krefjast um skamma hríð. Seðlabankinn getur þó veitt undanþágu frá þessu ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“

Á grundvelli laga nr. 63/1979 hefur verið sett reglugerð með sama heiti og lögin. Með reglugerð nr. 383/1984 var þessari reglugerð breytt. Breytingin fólst í því að orðalagið „skamma hríð“ í 10. gr. laganna var skilgreint sem fast ákveðið tímabil, eða ein vika. Á grundvelli laga nr. 63/1979 og laga nr. 10/1961, um Seðlabanka Íslands, hefur Seðlabankinn sett viðskipabönkunum og sparisjóðum reglur um greiðslujöfnuð og fleira. Núgildandi reglur eru frá 12. sept. 1984 og í samræmi við það sem kom fram í áðurnefndri reglugerðarbreytingu.

Um 3. tölulið fsp. er það að segja að svarið er að finna í lögum um einstaka ríkisviðskiptabanka. Hafa öll lögin að geyma samhljóða ákvæði. Svo að dæmi sé tekið má nefna 2. gr. Landsbankalaganna en hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Ríkissjóður ber ábyrgð á öllum skuldbindingum Landsbanka Íslands. Til þess að taka lán erlendis án tryggingar í sjálfs sín eignum þarf bankinn sérstaka lagaheimild hverju sinni.“

Um 4. tölul. fsp. skal þetta tekið fram: Viðskiptabankar bera ábyrgð á innstæðum spariljáreigenda með öllum eignum sínum. Sé um ríkisviðskiptabanka að ræða ber ríkissjóður auk þess einfalda ábyrgð á skuldbindingum bankans gagnvart innstæðueigendum. Ábyrgð sparisjóða gagnvart innstæðueigendum er með svipuðum hætti og gildir almennt um viðskiptabanka. Sparisjóðirnir bera ábyrgð á innstæðum með eigum sínum, stofnfé, ábyrgðarfé og tryggingarfé. Af þessu leiðir að innstæður í viðskiptabönkum eru fyrst og fremst tryggðar með eigin fé þessara stofnana en eins og áður segir ber ríkissjóður ábyrgð á skuldbindingum ríkisviðskiptabanka. Einnig er starfandi tryggingarsjóður sparisjóða. Er tilgangur sjóðsins að tryggja innstæður í sparisjóðum og greiðslur á þeim. Getur tryggingarsjóðurinn veitt sparisjóði bráðabirgðalán gegn tryggingu, er stjórn sjóðsins metur gilda, til að fullnægja skyldum sínum um greiðslu á innlánsfé. Því skal hins vegar ekki neitað að þessi sjóður hefur aldrei náð nægjanlegum styrkleika. Má það rekja til þess skipulags sem honum er ákveðið í lögum en gert er ráð fyrir að því verði breytt.

Ég tel að með því sem hér hefur fram komið hafi ég svarað fsp. hv. þm.